Fara í efni
Fréttir

Enn lekur Þórsstúkan og nú Boginn líka

Viðar Marinósson kannar aðstæður í Boganum í gær, þar sem vatn lak inn um þakglugga og niður á grasið. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Enn á ný ber á leka í áhorfendastúkunni við Þórsvöllinn og til að bæta gráu ofan á svart lekur vatn nú einnig inn í Bogann, fjölnota íþróttahúsið á svæðinu. Framkvæmdastjóri íþróttafélagsins Þórs gagnrýnir hve illa Akureyrarbær sinni viðhaldi fasteigna bæjarins.

Mjög mikið hefur rignt síðustu daga á Akureyri eins og víðar, og þá finnur vatnið sér leið í gegnum steypta áhorfendastúkuna og inn í bygginguna. „Þetta hefur verið vandamál í töluverðan tíma, annað hvert ár hefur verið borið sílanefni á steypuna til að stoppa lekann en það er bara tímabundinn plástur,“ segir Reimar Helgson, framkvæmdastjóri Þórs við Akureyri.net.

„Það skemmdist sem betur fer ekkert. Það seytlar vatn niður einn vegginn og ég fer þarna reglulega til að kanna aðstæður,“ sagði Sævar Eðvarðsson, gjaldkeri rafíþróttadeildar Þórs, sem hefur aðsetur í rými undir stúkugólfinu. Þar er tölvubúnaður að andvirði nokkurra milljóna króna. „Það lak svolítið við eitt tölvuborðið en tækin sluppu,“ segir Sævar.

Fyrr á árinu var samþykkt í bæjarstjórn forgangsröðun um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Akureyri, í takt við skýrslu þverpólitísks hóps sem fjallaði um það mál. Í skýrslunni var að finna tillögur að forgangsröðun uppbyggingar næstu 15 ár, 11 verkefni sem gert er ráð fyrir að kosti hátt í sjö milljarða króna.

Þórsarar voru ósáttir við skýrsluna og vinnubrögð við gerð hennar, en það er önnur saga. Reimar gagnrýnir reyndar að hópurinn hafi aldrei komið á Þórssvæðið til að skoða aðstæður á meðan vinnan stóð yfir. „Það liggur þungt á mér að mannvirki í bænum séu ekki kláruð og líka að viðhaldi sé ekki sinnt svo sómi sé að. Það hefur ekki orðið stórslys en húsin eldast ekki vel sé viðhaldi ekki sinnt,“ segir Reimar.

„Þessar byggingar, stúkan og Boginn, liggja undir skemmdum. Ég kom til starfa hér haustið 2018 og þá var enginn leki í Boganum en nú lekur húsið á nokkrum stöðum. Þakrennur eru farnar að skemmast, vegna þess að þær hafa ekki verið hreinsaðar eða haldið við og þar lekur inn, auk þess sem farið er að leka inn um þakglugga, ofan á gervigrasið.“

Reimar telur að ef viðhaldi hefði verið sinnt almennilega væri staðan önnur og betri. „Mér finnst að þegar menn ætla að setja hátt í sjö milljarða í framkvæmdir á næstu 15 árum, hefði starfshópurinn sem vann skýrsluna að minnsta kosti átt að mæta á staðinn og taka út ástandið í stað þess að vaðið verði beint í nýbyggingar. Við erum með fullt af flottum íþróttamannvirkjum hér í bænum sem er ekki sinnt sem skyldi eða þau ekki kláruð; til dæmis átti að setja þak á stúkuna á Þórsvellinum á sínum tíma en hefur enn ekki verið gert og á meðan svo er finnur vatn sér farveg í gegnum steypuna þegar rignir svona mikið.

Þeir sem sjá um mannvirki Akureyrarbæjar sinna vinnunni vel, bregðast við þegar maður hringir og alls ekki er við þá að sakast. Það góða fólk er hins vegar fjársvelt, getur ekki gert meira en raun ber vitni, og með lélegu viðhaldi verður skaðinn alltaf meiri á endanum. En það er ekki þetta fólk sem tekur stóru ákvarðanirnar; það eru pólitísku fulltrúarnir sem klára ekki verkefnin.“

Viðar Marinósson, starfsmaður Þórs, í rými þar sem rafíþróttadeild félagsins er með starfsemi undir gólfi áhorfendastúkunnar. Þar hefur lekið inn undanfarið.