Fara í efni
Íþróttir

El Clasico hópurinn áfram í bikarnum

El Clasico hópurinn - sem keppir reyndar í nafni Hamranna í bikarkeppninni - sigri hrósandi eftir afrekið á Sauðárkróki á laugardaginn.

Fótboltahópurinn El Clasico, sem tekur þátt í bikarkeppni KSÍ í nafni Hamranna, kom, sá og sigraði á laugardaginn þegar ævintýri sumarsins hófst. Hamrarnir mættu þá Kormáki/Hvöt á Sauðarkróksvelli í 1. umferð keppninnar og sigruðu 3:2 eftir að hafa lent 2:0 undir.

Ingvi Rafn Ingvarsson skoraði á 8. og 22. mín. og heimamenn voru því komnir í nokkuð þægilega stöðu. Það sem bar helst til tíðinda í fyrri hálfleiknum að öðru leyti var að heimamaðurinn Sigurður Bjarni Aadnegard var rekinn af velli fyrir ljóta tæklingu rétt áður en flautað var til leikhlés.

Hamarnir komu fullir sjálfstrausts til seinni hálfleiksins enda einum fleiri. Atli Fannar Írisaron minnkaði muninn á 59. mínútu og jafnaði á 68. mín. Það var svo „gamla kempan“ Ottó Hólm Reynisson (nýorðinn þrítugur!) sem gerði sigurmarkið á 76. mínútu.

„Þetta var mögnuð frammistaða í seinni hálfleik. Menn gáfust ekki upp þótt við hefðum lent tveimur mörkum undir og þótt nokkra sterka byrjunarliðsmenn hefði vantað. Maður kemur í manns stað og allir gáfu bæði hjarta og sál í leikinn,“ sagði Siguróli Magni Sigurðsson, einn leikmanna liðsins, við Akureyri.net.

Stjörnurnar nú í takt við veruleikann

Hópurinn leikur sér í fótbolta í Boganum yfir veturinn og fyrir utan ánægjuna er helsta markmiðið að taka þátt í bikarkeppninni. „Við erum búnir að djöflast og tuddast síðan í ágúst með það eitt að markmiði að vinna þennan leik. Og fyrst við unnum þurftum við að fresta lokahófinu, sem átti að vera á laugardagskvöldið, vegna leiksins um næstu helgi!“

Það er nefnilega hefð hjá hópnum að halda lokahóf þegar þátttöku í bikarkeppninni lýkur! Um næstu helgi er næsti stórleikur og eins gott að allir verði vel upplagðir; hópurinn mætir Völsungi á Húsavík í 2. umferð keppninnar. Völsungur leikur í sumar í 2. deild Íslandsmótsins, sem er þriðja efst deildin.

Sigurinn á laugardaginn var sá þriðji í opinberum leik í sögu hópsins. Þar með má segja að búningur liðsins sé orðinn í takt við raunveruleikann. Stór stjarna var nefnilega sett á treyju liðsins eftir sigur á Geisla í bikarkeppninni um árið en þegar nýtt búningasett var keypt var tveimur stjörnum bætt við vegna komandi sigurleikja! Það þótti skynsamlegt svo ekki þyrfti að kaupa enn eitt búningasettið. Liðið vann svo einn leik í Kjarnafhæðismótinu í vetur og þann þriðja á Króknum á laugardag.

Smelltu hér til að sjá leikskýrsluna.

Smelltu hér til að lesa um heimsókn Akureyri.net á æfingu hjá El Clasico fyrr í vetur.