Fara í efni
Fréttir

Eitt mislingasmit greindist á Akureyri

Útbrot vegna mislinga. Mynd: Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins

Maður á Akureyri greindist með mislinga í síðustu viku og var hópi fólks boðin bólusetning í kjölfarið. 

Mislingar eru tilkynningarskyldur sjúkdómur eins og aðrir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill, að því er segir á vef embættis landlæknis. 

Grunur vaknaði hjá starfsfólki heilsugæslunnar í Sunnuhlíð á Akureyri um að maður sem þangað leitaði á fimmtudag í síðustu viku væri mislingasmitaður. Grunurinn var það sterkur að viðkomandi var strax settur í einangrun og hafist handa við að taka saman upplýsingar um aðra, sem mögulega gætu verið útsettir fyrir sjúkdómnum. Embætti sóttvarnarlæknis og yfirmenn á öðrum stofnunum á Akureyri voru látnir vita.

Smitrakning og bólusetning

Grunurinn var staðfestur þegar niðurstaða úr pcr greiningu barst frá veirudeild Landspítalans. Maðurinn var gestkomandi á Akureyri, hafði komið til bæjarins í því skyni að leita heilbrigðisþjónustu og þurfti því smitrakningu á viðkomandi stofnunum og deildum. Haft var samband við þá sem taldir voru mögulega í smithættu og metin þörf á bólusetningu. Viðkomandi einstaklingum var þá boðin bólusetning ef það átti við.

Mislingar eru mjög smitandi sjúkdómur. Hann hefur verið lítt áberandi í hinum vestræna heimi í mörg ár en borið hefur á sjúkdómnum á ný þar sem sífellt færri kjósa að þiggja bólusetningu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin varaði fyrr á árinu við hraðri útbreiðslu mislinga í heiminum.

Vert er að nefna að nú stendur yfir bólusetningarvika í Evrópu, „þar sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC) minna á mikilvægi bólusetninga til að koma í veg fyrir sjúkdóma og vernda líf,“ segir á vef embættis landlæknis.

„Bólusetningar koma í veg fyrir útbreiðslu banvænna sjúkdóma og hafa bjarga milljónum mannslífa. WHO hleypti bólusetningaráætlun sinni (EPI) af stokkunum árið 1974, til að tryggja jafnan aðgang barna að bóluefnum, óháð landfræðilegri staðsetningu eða félagslegri stöðu.“

Nánar hér um bólusetningarvikuna