Fara í efni
Íþróttir

Dómstól HSÍ er heimilt að breyta úrslitunum

Andri Snær Stefánsson þjálfari kvennaliðs KA/Þórs. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.
Andri Snær Stefánsson þjálfari kvennaliðs KA/Þórs. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

Dómstóll HSÍ hefur víðtækar heimildir í máli eins og því sem nú er komið upp, eftir að KA/Þór vann Stjörnuna í Olísdeild kvenna í handbolta með eins marks mun, 27:26, í Garðabæ á laugardag, skv. leikskýrslu sem undirrituð var af dómurum. Síðar kom í ljós að liðin gerðu jafn mörg mörk í leiknum. Dómstóll HSÍ hefur m.a. heimild til að breyta úrslitum leiksins. Rétt er þó að taka fram að dómstóllinn á eftir að fjalla um málið og óvíst hverjar málalyktir verða.

Stjarnan, sem sá um framkvæmd leiksins, hefur lagt fram kæru vegna mistakanna og vill að úrslitunum verði breytt í jafntefli, 26:26. Dómstóll HSÍ hefur fengið málið til umfjöllunar og farið fram á greinargerðir frá dómurum leiksins, Handknattleikssambandinu og frá KA/Þór.

Dómstóll HSÍ hefur talsvert víðtækar heimildir í svona málum, að því er íþróttadeild RÚV hefur eftir framkvæmdastjóra HSÍ, Róberti Geir Gíslasyni. „Dómstóllinn getur m.a. breytt úrslitunum, látið endurtaka leikinn í heild og látið endurtaka hann frá þeim tíma sem mistökin urðu. Þá getur dómstóllinn ákveðið að aðhafast ekkert og láta úrslitin standa,“ segir í frétt á vef RÚV.

Gert er ráð fyrir því að dómstóllinn taki málið fyrir í byrjun næstu viku.

Umfjöllun um leikinn

Frétt um mistökin

Stjarnan krefst leiðréttingar