Danskir dagar hjá KA – EM fríi kvenna lokið

Fótboltinn heldur áfram að rúlla í vikunni. Fyrst ber að nefna að komið er að Evrópuleik hjá karlaliði KA í knattspyrnu, en liðið sækir Silkeborg heim til Danmerkur á morgun, miðvikudag. Þá er loksins komið að leik hjá Þór/KA í Bestu deild kvenna eftir nokkurra vikna EM-hlé og sækja stelpurnar Tindastól heim á Sauðárkrók á fimmtudag. Baráttan um efstu sætin í Lengjudeild karla í knattspyrnu harðnar með hverri umferðinni og þar eiga Þórsarar leik í Keflavík á föstudag.
MIÐVIKUDAGUR 23. JÚLÍ - fótbolti
Upp er runnin Evrópuvika hjá karlaliði KA í knattspyrnu. Liðið fór beint í 2. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu og dróst á móti danska liðinu Silkeborg. Fyrri leikur liðanna verður í Danmörku á morgun, miðvikudag.
- Forkeppni Sambandsdeildar Evrópu, 2. umferð
Silkeborg Stadium kl. 17 (að íslenskum tíma)
Silkeborg - KA
Seinni leikur liðanna verður svo á Greifavellinum rúmri viku síðar, fimmtudaginn 31. júlí. Ásamt KA eru tvö önnur íslensk lið í forkeppni Sambandsdeildarinnar, Víkingur og Valur, sem bæði unnu örugga sigra á sínum mótherjum í fyrstu umferðinni. Þriðja umferð forkeppninnar verður spiluð 7. og 14. ágúst.
FIMMTUDAGUR 24. JÚLÍ - fótbolti
Nú líður loksins að því að Besta deild kvenna fari í gang aftur eftir EM-hléið. Þór/KA sækir Tindastól heim á Sauðárkróksvöll á fimmtudag. Að þeim leik loknum kemur reyndar aftur smá hlé. Að loknum tíu umferðum er Þór/KA í 4. sæti deildarinnar með 18 stig, en Tindastóll í 8. sæti með tíu stig.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu, 11. umferð
Sauðárkróksvöllur kl. 18
Tindastóll - Þór/KA
Fyrri leik liðanna í deildinni sem fram fór í Boganum í apríl lauk með 2-1 sigri Þórs/KA og dramatísku sigurmarki Bríetar Jóhannsdóttur á lokamínútum leiksins.
FÖSTUDAGUR 25. JÚLÍ - fótbolti
Þórsarar sækja Keflvíkinga heim í 14. umferð Lengjudeildarinnar á föstudag. Bæði lið eru í baráttunni um sæti í efstu deild eða í það minnsta umspilssæti deildarinnar. Þórsarar fóru upp í 23 stig og í 4. sætið með 2-0 útisigri á HK í síðustu umferð, en Keflvíkingar eru stöðugir í 6. sætinu með 21 stig eftir 5-4 sigur á Fjölni. Fyrri leikur Þórs og Keflavíkur var líka markaleikur þar sem gestirnir fóru með 4-2 sigur af hólmi í Boganum um miðjan maí.
- Lengjudeild karla í knattspyrnu, 14. umferð
HS Orku völlurinn í Keflavík kl. 18
Keflavík - Þór
Spennan eykst í baráttu liðanna í Lengjudeildinni um lausu sætin í efstu deild að ári. Eins og kunnugt er fer efsta liðið beint upp í Bestu deildina, en liðin í 2.-5. sæti fara í umspil um hitt sætið. Þegar 13 umferðum er lokið af 22 munar sjö stigum á liðinu í 1. og 6. sæti og má segja að önnur lið eigi litla sem enga möguleika á að blanda sér í baráttuna um sæti í efstu deild enda sjö stig sem skilja að liðin í 6. og 7. sæti.
FIMMTUDAGUR, FÖSTUDAGUR, LAUGARDAGUR 24.-26. JÚLÍ - golf
Íslandsmót golfklúbba fer fram í síðari hluta vikunnar. Þar á Golfklúbbur Akureyrar sveitir í 1. deild karla og kvenna (efstu deildum).
- Keppni í karlaflokki fer fram á Leirdalsvelli hjá GKG. Í sveit GA eru Mikael Máni Sigurðsson, Óskar Páll Valsson, Eyþór Hrafnar Ketilsson, Tumi Hrafn Kúld, Víðir Steinar Tómasson, Veigar Heiðarsson og Heiðar Davíð Bragasson.
1. deild karla – rástímar, staða og úrslit - Keppni í kvennaflokki fer fram á heimavelli GA, Jaðarsvelli á Akureyri. Í sveit GA eru Björk Hannesdóttir, Ragnheiður Svava Björnsdóttir, Lilja Maren Jónsdóttir, Andrea Ýr Ásmundsdóttir, Kara Líf Antonsdóttir, Amanda Guðrún Bjarnadóttir og Arna Rún Oddsdóttir.
1. deild kvenna – rástímar, staða og úrslit
SUNNUDAGUR 27. JÚLÍ - fimleikar
Sýningahópur Fimleikasambands Íslands er á ferð um landið og kemur við á Akureyri á sunnudag. Hópurinn verður með sýningu og opna æfingu fyrir öll þau sem vilja prófa fimleika. Sýningin verður í KA-heimilinu og hefst kl. 14. Aðgangur er ókeypis.