Dagur Árni og Jens Bragi fara báðir á HM

Tveir leikmenn úr KA voru valdir í 16 manna landsliðshópinn fyrir heimsmeistaramót 19 ára og yngri í handbolta en mótið hefst í Egyptalandi miðvikudaginn 6. ágúst. Landsliðið er nánast eins skipað og liðið sem lék gríðarvel og vann til silfurverðlauna á Opna Evrópumóti 19 ára landsliða sem fram fór í Svíþjóð í byrjun júlí.
Annar KA-piltanna, Dagur Árni Heimisson, er reyndar genginn til liðs við Val en Jens Bragi Bergþórsson línumaður er einnig í hópnum. Dagur Árni var einmitt valinn besti leikmaður Opna Evrópumótsins.
Alls taka 32 lið þátt í heimsmeistaramótinu. Íslenska landsliðið er í efsta styrkleikaflokki í mótinu og verður í riðli með Brasilíu, Gíneu og Sádi-Arabíu. Tvö efstu liðin í hverjum riðli komast áfram í hóp 16 efstu liða en tvö þau neðri leika meðal 16 neðri liðanna um forsetabikarinn.
Fyrsti leikur íslenska liðsins verður gegn Gíneu að morgni miðvikudagsins 6. ágúst.