„Brave“
Píanókvartettinn Negla í Hofi 9. nóvember. Sólveig Steinþórsdóttir fiðluleikari, Anna Elísabet Sigurðardóttir víóluleikari, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari og Þóra Kristín Gunnarsdóttir píanóleikari. Hvítar súlur - tónleikaröð Tónlistarfélags Akureyrar
Það eru ef til vill ekki allir sem fatta að píanókvartett er ekki fjögur píanó heldur strengjatríó plús píanó.
Tónleikarnir hjá Neglu voru vel sóttir í Hömrum í Hofi og þar sem aðrir klassískir tónleikar voru nánast á sama tíma í Akureyrarkirkju má segja að mætingin hafi farið fram úr björtustu vonum. Það er löngu tímabært í þessum bæ, og þó fyrr hefði verið, að búa til miðlæga miðstöð sem fylgist með tónleikum og kemur í veg fyrir svona árekstra. A.m.k mættu þeir sem sjá um að bóka þá örfáu tónleikasali bæjarins hafa regluleg samráð.
Stofutónlist eða kammermúsík hefur ekki verið sérlega vinsæl í mörg ár og stundum eru ekki nema örfáir áheyrendur en svo var ekki á þessum tónleikum og er það mikið gleðiefni.
Tónleikarnir hófust á „Skýin eru skuggar“, verki eftir Arngerði Maríu Árnadóttur. Undirritaður fékk frekar illa prentað eintak af prógramminu sem hann gat ekki lesið svo hann lét tónlistina tala og það birtist í hljóðum ótrúlegt landslag málað í gráum þokulitum. Seyðandi litir blésu um eyru og samspil Neglu var eins og um eitt hljóðfæri væri að ræða. Talsvert af nútíma tækninotkun á hljóðfærum og píanóinu blandaðist þó saman við klassíska yfirvegaða spilamennsku og var útkoman ofur falleg. Alltof oft detta nútímatónskáld í þann brunn að vera frekar með sýnikennslu um hvað þeir eru klárir í að skrifa öll þau nýju nótnatákn í tölvuforrit en í raun búa til listræna og áheyranlega tónlist. Svo var svo sannarlega ekki hér og spiluði meðlimir Neglu (ekki viss um að nafn kvartettsins sé að öllu leyti lýsandi) af nákvæmni og innlifun. Þegar svo ljósin voru hækkuð gat ég lesið ljóðið í prógramminu og var það eins og ég hefði heyrt það áður í tónistinni.
Næst kom frumflutningur á verkinu „Hymnopedia“ eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur: Hugleiðing um stríð í öllum sínum stórkostlega fáránleika. Eiginlega var það ekki í ólíkum stíl með tilvísun í aðra eldri tónlist, sérlega Erik Satie, og einnig hér var þessi blanda af klassík og nútíma mjög falleg og viðeigandi. Í heild var tónverkið áhrifamikið þó að tilívísunin í „Gymnopedae“ Satie kannski ekki á réttum stað í verkinu. Hefði viljað hafa það í upphafi.
Eftir hlé var eitt af stórbrotnustu kammertónverkum veraldar, píanókvartett n. 1 í g moll eftir Jóhannes Brahms.
Stundum fara hjóðfæraleikar í einhvern sérstakan „Brahms-gír“ í þessu verki þar sem hver meðlimur reynir frekar að yfirgnæfa hina eins og príma donna og er útkoman oft yfirgengilega baráttukendur flaustursgangur. Ekki var svo hér og hverju hljóðfæri var gefið rými til að vaxa inn og út úr heildinni og jafnframt víólan sem oft þarf að láta í minni poka fyrir hljómmeiri hljóðfærum naut sín til fulls og stal senunni á köflum.
Flutningurinn var með þeim albestu stofutónlistarflutningi sem ég hef heyrt í þessum sal.
Hamrar er með bestu tónleikasölum landsins ef ekki sá besti. Í þessum sal er hægt að heyra títuprjón detta. Svo leit ég upp fyrir senuna (eða senuleysið) ofan á tvær raðir af ljótum hangandi hátalaraboxum og var þakklátur fyrir að enn skuli vera hægt að hlusta á ómengaða tónlist ferðast á eigin afli beint úr hjörtum hljóðfæra í eyru áheyrandans án tölvumengunar eða rafrænnar „aðlögunar“. Það er ekki alltaf að hrópað upphátt eftir stofutónlistarflutning en hér var ekki hægt að sitja á sér. Lokakaflinn var fluttur af glimrandi eldmóði. Ítalskur vinur minn í næsta sæti kenndi mér í flýti að segja „Brave“ þegar um fjölda kvenna er að ræða og ég tel að það verði notað óspart þegar þær koma fram í framtíðinni.
Rauði Skódinn
Frystiklefafælni
Ástand lands og landlæsi – Fyrri hluti: Staðan
Núvitund á mannamáli