Fara í efni
Íþróttir

Blak: KA-liðin mættu Þrótturum þrisvar

Gísli Marteinn Baldvinsson, miðjumaður í KA. Mynd: Facebooksíða KA.

Blaklið KA í kvenna- og karlaflokki héldu suður yfir heiðar um helgina og mættu Þrótti samtals þrisvar sinnum í Laugardalshöllinni. Kvennaliðið vann sinn leik naumlega og karlaliðið tapaði fyrri leiknum en vann þann síðari eftir mikla baráttu.

Á laugardaginn vann kvennaliðið fyrstu hrinuna gegn Þrótti nokkuð örugglega, 25:8. Þróttarstúlkur svöruðu fyrir sig með því að vinna næstu tvær; 27:25 og 25:20. KA jafnaði leikinn með 25:13 sigri í fjórðu hrinu og vann síðan öruggan sigur í oddahrinunni, 15:4, og leikinn þar með 3:2.

KA og HK eru ennþá efst og jöfn á toppi deildarinnar, bæði lið hafa unnið fyrstu 7 leiki sína.

Að loknum leik kvennaliðanna tók viðureign karlanna við. Þar unnu Þróttarar fyrstu tvær hrinurnar, 25:20 og 25:19 og þurftu aðeins að vinna eina hrinu í viðbót til að ljúka leiknum. KA klóraði í bakkann með naumum sigri í maraþonhrinu, 29:27, en Þróttarar kláruðu leikinn með 25:20 sigri í fjórðu hrinu og unnu leikinn 3:1.

Karlaliðin mættust aftur á sunnudag og það varð hörkuviðureign. Heimamenn tóku forystuna með öruggum 25:17 sigri en KA náði að jafna með naumum sigri í annarri lotu, 25:23. KA komst svo yfir með því að vinna næstu lotu 25:22 en Þróttur jafnaði leikinn með sigri í fjórðu lotu eftir mikla spennu. Lokatölur 28:26 eftir upphækkun. Oddalotan var síðan líka jöfn og spennandi og þar tókst KA að landa naumum sigri, 15:13, og þar með 3:2 sigri í leiknum.

KA er ennþá í öðru sæti deildarinnar á eftir Hamri úr Hveragerði. Sjö sigrar og tvö töp í fyrstu níu leikjunum.