Fara í efni
Mannlíf

Birkir Blær í tveggja manna úrslit Idol

Birkir á Idol-sviðinu í Stokkhólmi í kvöld. Skjáskot af TV4.

Birkir Blær Óðinsson verður annar tveggja keppenda í úrslitaþætti sænsku Idol söngkeppninnar á sjónvarpsstöðinni TV4 eftir viku, föstudagskvöldið 10. desember.

Fjórir kepptu í undanúrslitaþættinum í kvöld, Birkir og þrjár sænskar stúlkur. Eftir að öll höfðu sungið eitt lag var kosið og Lana Sulhav datt út.

Í fyrru umferð söng Birkir Sign of the times, geysivinsælt og flott lag sem Englendingurinn Harry Styles samdi og gaf út 2017. Birkir gerði það frábærlega og dómararnir gátu ekki leynt hrifningu sinni.

Í seinni umferðinni söng Birkir Are you gonna be my girl sem ástralska hljómsveitin Jet sendi frá sér 2003. Ekki var flutningurinn síðri; hann gleymdi reyndar textanum í upphafi lagsins en það kom ekki að sök og Birki var einmitt hrósað fyrir hve vel hann vann sig út úr vandræðunum.

Eftir seinna umferðina datt Annika Wickihalder út úr keppninni og það verða Birkir Blær og Jacqline Mossberg Mounkassa sem keppa í úrslitaþættinum í Globen höllinni í Stokkhólmi eftir viku. Það kemur ekki á óvart eftir þátt kvöldsins; Birkir og Jacqline voru lang bestu söngvararnir í hópnum.