Fara í efni
Fréttir

Akureyri greiðir 15% en ráðuneytið ræður för

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri segist ekki geta svarað því hvers vegna viðgerðir séu ekki hafnar á hjúkrunarheimilinu Hlíð við Austurbyggð. Málið sé ekki á könnu sveitarfélagsins.

Akureyri.net greindi í gærkvöldi frá hörðum viðbrögðum fyrirtækisins Heilsuverndar, sem rekur hjúkrunarheimilið fyrir ríkið, vegna þess að ekki hafi verið brugðist við með aðgerðum eftir skýrslu verkfræðistofunnar Mannvits þar sem fram kemur að ástand hússins sé enn verra en áður var talið. Ljóst er að loka þarf fjölda rýma.

„Það er enginn ágreiningur um hver ber ábyrgð á viðhaldinu eða kostnaðarskiptingu,“ segir Ásthildur við Akureyri.net í tilefni ummæla Teits Guðmundssonar, forstjóra Heilsuverndar í gærkvöldi.

Teitur sagði:  „Málið virðist í grunninn snúast um það hver á húsnæðið; hvernig skiptingin er á milli ríkisins og Akureyrarbæjar. Mér finnst það óþolandi. Ég segi: leysið það og hugsið um fólkið!“

Framkvæmdastjóri Heilsuverndar gerði, í yfirlýsingu sem Akureyri.net fjallaði um í gærkvöldi, kröfu um úrbætur þegar í stað með hag íbúa og starfsfólks að leiðarljósi.

Ásthildur sagði hins vegar ekki standa á Akureyrarbæ: „Heilbrigðisráðuneytið er með þetta mál á sínu borði og við munum greiða okkar hlut. Við erum búin að samþykkja okkar hlutdeild,“ sagði bæjarstjórinn. Akureyrarbær muni greiða 15% af kostnaði.

Akureyri.net hefur óskað viðbragða Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við gagnrýni Heilsuverndar en svör hafa ekki borist.