Fara í efni
Fréttir

Ástandið á Hlíð verra en talið var – Loka þarf fleiri rýmum – Útvega verður bráðabirgðahúsnæði – „Hugsið um fólkið!“

Hjúkrunarheimilið Hlíð við Austurbyggð á Akureyri

Ástand húsnæðis dvalarheimilisins Hlíðar á Akureyri er enn verra en áður var talið. Starfsmönnum á Hlíð var greint frá þessu í hádeginu í dag og aðstandendum íbúa undir kvöld.

Verkfræðistofan Mannvit gerði úttekt á fasteigninni að Austurbyggð 17, þar sem hjúkrunarheimilið er starfrækt, og í skýrslu sem Heilsuvernd fékk senda frá ráðuneytinu 27. febrúar, „koma fram enn frekari upplýsingar um að húsnæðið sé heilsuspillandi og að tafarlausra aðgerða sé þörf og einnig mælt með lokunum hluta húsnæðisins,“ segir í yfirlýsingu sem Akureyri.net fékk í kvöld frá Þóru Sif Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra Heilsuverndar.

Lengi hefur verið vitað að a.m.k. hluti hússins væri ekki í viðunandi ásigkomulagi og Akureyri.net hefur nokkrum sinnum fjallað um málið. 

Þóra Sif gerir kröfu um úrbætur þegar í stað með hag íbúa og starfsfólks að leiðarljósi.

„Hugsið um fólkið!“

Heilsuvernd krafðist úrbóta í október á síðasta ári og í því bréfi var vísað til samnings við Sjúkratryggingar og heilbrigðisráðuneytið frá því í apríl 2021.

Forstjóri Heilsuverndar segir óskiljanlegt hve dregist hefur að grípa til aðgerða. „Málið virðist í grunninn snúast um það hver á húsnæðið; hvernig skiptingin er á milli ríkisins og Akureyrarbæjar. Mér finnst það óþolandi. Ég segi: leysið það og hugsið um fólkið!“ sagði forstjórinn, Teitur Guðmundsson, við Akureyri.net í kvöld. 

Teitur segist heldur ekki skilja þá ákvörðun heilbrigðisráðuneytisins að ekki megi gera áðurnefnda skýrslu opinbera. „Við höfum virt beiðni ráðuneytisins um að dreifa ekki skýrslunni en við höfum gefið starfsfólki og aðstandendum innsýn í hana til að fólkið geti áttað sig á stöðunni,“ segir hann. Sú innsýn var gefin á fundunum í dag sem áður var vikið að.

Gífurlegur kostnaður

Ljóst að miklar framkvæmdir eru nauðsynlegar til að koma húsinu í viðunandi horf. Teitur segir kostnaðinn slaga hátt í einn milljarð króna skv. áætlunum.

Í yfirlýsingu Þóru Sigurðardóttur sem áður var nefnd kemur meðal annars fram:

  • Ljóst er að umfang vandans er meira en upphaflega var talið.
  • Í skýrslunni kemur fram greinargóð lýsing á forgangi verkliða og kostnaðarmat á framkvæmdum. Staðfest er að mygla er í húsnæðinu.
  • Grunur hefur leikið á því að einkenni starfsmanna og íbúa um ýmis konar óþægindi stafi af myglu í húsnæðinu og hefur Heilsuvernd Hjúkrunarheimli þegar brugðist við með lokunum rýma og tilfærslu íbúa og starfsmanna.
  • Ráðlagt er að loka rými dagþjálfunar, þar eru 100 einstaklingar í þjónustu á dagvinnutíma.
  • Hjúkrunarrými í álmu 3 eru ekki íbúðarhæf vegna myglu og nú þegar hefur 14 hjúkrunarrýmum þar verið lokað. Fyrirséð er að þeim 16 rýmum sem eftir standa verði einnig lokað.
  • Í álmu 1 er 31 hjúkrunarrými og rými fyrir tímabundnar dvalir í algjörlega ófullnægjandi aðstæðum þar sem meðal annars eru gerðar athugasemdir við lagnir, frárennsli, rafmagn og fleira
  • Það er mat Heilsuverndar Hjúkrunarheimilis að útvega þurfi bráðabirgða húsnæði fyrir 65 hjúkrunarrými, 100 einstaklinga í dagþjálfun auk skrifstofuaðstöðu fyrir 10-15 starfsmenn meðan unnið er að úrbótum á húsnæði Hlíðar.

YFIRLÝSING ÞÓRU SIFJAR SIGURÐARDÓTTUR Í HEILD

Í dag voru haldnir upplýsingafundir fyrir starfsmenn, íbúa, notendur og aðstandendur Heilsuverndar Hjúkrunarheimilis vegna stöðu húsnæðis á Hlíð. Framkvæmdasýslu ríkisins var sent bréf 20. október 2022 þar sem gerð var krafa um úrbætur á húsnæði Heilsuverndar Hjúkrunarheimilis á Akureyri. Í bréfinu var vísað til undirritaðs samnings við Sjúkratryggingar og heilbrigðsráðuneytið frá 13. apríl 2021.

Frá þeim tíma hefur að frumkvæði Heilsuverndar Hjúkrunarheimilis verið unnið að því að greina frekar vanda fasteignanna. Mannvit framkvæmdi frekari úttekt í desember 2022 og janúar 2023 og var þeirri skýrslu skilað 8. febrúar sl. Sú skýrsla var kynnt formlega fyrir hlutaðeigandi á fundi 16. febrúar. Ákveðið var að fyrri og seinni skýrsla skyldu sameinaðar og einnig að verk og kostnaðaráætlun yrði uppfærð.

Hinn 27. febrúar barst Heilsuvernd Hjúkrunarheimili tölvupóstur frá heilbrigðisráðuneytinu. Með honum fylgdi skýrslan sem Mannvit framkvæmdi að beiðni ráðuneytisins og Framkvæmdasýslu Ríkisins – Ríkiseigna og fól í sér úttekt á fasteigninni að Austurbyggð 17, 600 Akureyri, þar sem Heilsuvernd Hjúkrunarheimili er starfrækt. í skýrslunni koma fram enn frekari upplýsingar um að húsnæðið sé heilsuspillandi og að tafarlausra aðgerða sé þörf og einnig mælt með lokunum hluta húsnæðisins. Það er því ljóst að umfang vandans er meira en upphaflega var talið. Þar kemur fram greinargóð lýsing á forgangi verkliða og kostnaðarmat á framkvæmdum. Staðfest er að mygla er í húsnæðinu. Grunur hefur leikið á því að einkenni starfsmanna og íbúa um ýmis konar óþægindi stafi af myglu í húsnæðinu og hefur Heilsuvernd Hjúkrunarheimli þegar brugðist við með lokunum rýma og tilfærslu íbúa og starfsmanna.

Nú rúmum 18 mánuðum eftir að samningsbundinni úttekt átti að ljúka hefur loksins verið fullgerð úttekt og skýrsla sem gefur tilefni til lokunar rýma og frekari aðgerða en áður var talið. Skýrslan sýnir umfang vandans og langvarandi vanrækslu við viðhald húsnæðisins. Lagt var upp með framkvæmdaáætlun í beinu framhaldi, en ekki hefur svo vitað sé verið tekin nein ákvörðun um framkvæmdir ennþá, né bein viðbrögð húseigenda við heilsuspillandi umhverfi á Hjúkrunarheimilinu Hlíð gagnvart íbúum, starfsfólki og aðstandendum. Við þetta verður ekki unað lengur, þegar fyrir liggur vitneskja um ástand af hálfu eigenda húnæðisins. Krafa um úrbætur var ítrekuð 8. mars 2023 og enn hefur ekki verið brugðist við þeirri kröfu með formlegum hætti.

Þessi staða er með öllu óviðunandi og getur ekki beðið lengur. Heilsuvernd Hjúkrunarheimili hefur skyldur samkvæmt lögum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustað til að tryggja starfsfólki heilsusamlegt umhverfi. Heilsuvernd Hjúkrunarheimili tekur það hlutverk sitt mjög alvarlega, bæði gagnvart starfsfólki, íbúum og notendum en einnig aðstandendum og öðrum þeim sem þurfa að koma í húsnæðið.

Ráðlagt er að loka rými dagþjálfunar, þar eru 100 einstaklingar í þjónustu á dagvinnutíma. Hjúkrunarrými í álmu 3 eru ekki íbúðarhæf vegna myglu og nú þegar hefur 14 hjúkrunarrýmum þar verið lokað og eftir standa 16 rými sem fyrirséð að verði einnig lokað . Í álmu 1 er 31 hjúkrunarrými og rými fyrir tímabundnar dvalir í algjörlega ófullnægjandi aðstæðum þar sem meðal annars eru gerðar athugasemdir við lagnir, frárennsli, rafmagn ofl

Það er mat Heilsuverndar Hjúkrunarheimilis að útvega þurfi bráðabirgða húsnæði fyrir 65 hjúkrunarrými, 100 einstaklinga í dagþjálfun auk skrifstofuaðstöðu fyrir 10-15 starfsmenn meðan unnið er að úrbótum á húsnæði Hliðar. Heilsuvernd Hjúkrunarheimili harmar að ekki hafi verið brugðist við með ákveðnari hætti af hálfu húseigenda. Gerð er krafa um úrbætur þegar í stað með hag íbúa og starfsfólks að leiðarljósi.

Þóra Sif Sigurðardóttir framkvæmdastjóri