Anna fer vel af stað á fyrsta degi í Mongólíu

Anna Guðný Baldursdóttir er komin af stað í lengstu og erfiðustu kappreiðar heims, Mongol derby í Mongólíu. Anna var í viðtali á Akureyri.net fyrir skemmstu, þar sem hún sagði frá ævintýrinu, en hún hefur 10 daga til þess að klára þetta 1000 kílómetra langa kapphlaup á hestbaki. Keppendurnir 46 voru ræstir af stað í morgun, kl. 9 að staðartíma.
Anna ætlar að uppfæra instagram aðgang sinn eins og hún mögulega getur, en á þessum fyrsta degi hefur hún getað deilt nokkrum færslum. HÉR má finna Önnu á instagram, fyrir áhugasöm. Þegar þetta er skrifað, er Anna komin í hestabúðir nr. 2, en á 35 kílómetra fresti eru búðir þar sem er eftirlit með ástandi hestanna og hægt að hvíla sig.
Það er hægt að fylgjast með keppendum í rauntíma á heimasíðu kappreiðanna. Hér fyrir neðan er hægt að sjá skjáskot af kortinu sem kemur upp. Til þess að velja ákveðinn knapa, er hægt að smella á "DETAILS", þar sem rauða örin er á myndinni, og finna Önnu.
Reglulega koma inn myndapóstar á instagram síðu Mongol derby. Hér er Anna á hestinum sínum, sem er bersýnilega orðinn þyrstur. Sagt er að innfæddir drekki yfirleitt úr sömu lindum og hestarnir, þar sem þau treysta hestinum til að vita hvort vatnið er hreint eða ekki. Mynd Kathy Gabriel