Fara í efni
Mannlíf

Anna fer í erfiðustu kappreiðar í heimi

Anna Guðný Baldursdóttir komst að sem keppandi í Mongólsku kappreiðunum. Hundruð sækja um ár hvert en aðeins 46 keppendur eru valdir til keppni. Anna er reynslumikil hestakona, en reynslan er nauðsynleg til þess að vera valin. Mynd: aðsend

Anna Guðný Baldursdóttir er hestakona og bóndi á Eyjardalsá í Bárðardal. Hún starfar líka sem hárgreiðslukona á Medullu á Akureyri, en næstu tvær vikurnar ætlar hún ekki að heyja, klippa hár né greiða neinum. Nú er hún á leiðinni í ævintýri sem er líklegt til þess að verða einn af hápunktum lífsins, nefnilega hið fræga Mongol derby - árlegar 1000 kílómetra kappreiðar í Mongólíu.

Heimsmetabók Guinness hefur staðfest að um sé að ræða lengstu og erfiðustu kappreiðar í heiminum. Blaðamaður sló á þráðinn til Önnu, þar sem hún var á leiðinni til Keflavíkur, búin að pakka og kveðja dætur sínar tvær og manninn, sem bíða hennar heima í Bárðardalnum á meðan mamma fer í kappreiðar í Mongólíu.

Ég hef 10 daga til þess að klára kappreiðarnar, og markmið númer eitt er að klára keppnina

Anna er önnur íslenskra kvenna til þess að taka þátt í keppninni, en hesta- og tamningarkonan Aníta Aradóttir fór í keppnina 2014. „Mér líður eins og ég hafi heyrt af keppninni áður, en hefur í rauninn dreymt um að taka þátt síðan ég sá að Aníta fór,“ segir Anna. „Ég varð strax heilluð af þessari keppni, og Mongólíu sem slíkri, en íslenski hesturinn á að öllum líkindum einhverjar rætur að rekja til mongólska hestsins.“

 

Anna er búin að undirbúa sig vel, en hún fékk samstarfssamning við 66°N og Lífland fyrir fatnaði og útbúnaði. Mynd t.v. aðsend, mynd t.h. Árni F. Sigurðsson

Hafði bara þorað að láta sig dreyma

„Ég fylgdist vel með Anítu í keppninni og kafaði svolítið vel ofan í þetta þá,“ rifjar Anna upp. „Það var svo ekki fyrr en að þáverandi maðurinn minn spyr mig, af hverju ég sæki ekki bara um að taka þátt? Mér fannst þetta alltof fjarri mér eitthvað, en lét samt vaða.“ Það eru 46 keppendur sem fá að taka þátt, en hundruð sækja um á hverju ári, alls staðar að úr heiminum. Anna sótti um í lok árs 2022, fyrir keppnina í ár. 

„Ég heyrði svo ekkert í mótsstjórninni þarna úti fyrr en í upphafi árs í fyrra,“ segir Anna, en hún var valin í viðtal úr hópi fjölmargra og þurfti þá að gera grein fyrir ýmsu sem snertir hestamennsku og reynslu sína af hestum. „Ég sagði þeim að ég ætti rúmlega tuttugu hesta, hefði unnið í tamningum, verið leiðsögumaður í hestaferðum og ýmislegt fleira. Þeir voru í rauninni að athuga hvort ég væri tilbúin í þetta og hvort ég gerði mér grein fyrir því, hvað keppnin væri krefjandi. Það er hættulegt, að hleypa fólki í keppnina sem á ekkert erindi í hana.“ 

 

Hestarnir í Mongólíu eru villtari og minna tamdir en þeir íslensku. Anna segir að mikið sé unnið með að snara þá úr stóðum sem eru frjáls, til afnota. Mynd: unsplash.com

Dregur númer til þess að fá hesta

„Mitt helst áhyggjuefni er það, að hestarnir í Mongólíu eru ekki eins vel tamdir og heima,“ segir Anna. „Þeir eru miklu villtari og geta verið erfiðir. Hestarnir þarna ganga í rauninni lausir í stóði, og eru svo snaraðir til afnota, þangað til þeir eru látnir lausir aftur. Hestarnir eru svo allir mjög ólíkir, en maður dregur númer þegar á staðinn er komið, til þess að fá sína hesta. Fólk er alveg að lenda í því að slasa sig í þessu, en ég hef aldrei heyrt af því að neinn hafi dáið.“

Ekki hægt að slá slöku við

„Landið sjálft er líka frekar erfitt yfirferðar, en það er mikið af múrmeldýrum þarna sem hafa sundurgrafið jarðveginn,“ segir Anna. „Eins og gefur að skilja getur það verið hættulegt fyrir hesta, að lenda í holum. Það þarf að halda að meðaltali 16-18 km hraða til þess að ná að klára keppnina, en mongólski hesturinn kemst allt að 60 km hraða á klukkustund í styttri kappreiðum. Hröðustu íslensku hestarnir eru ekki að ná 50 km hraða á skeiði. Svo eru reyndar líka alveg til fúlir og latir hestar í Mongólíu, ég gæti lent á einhverjum sem nennir þessu ekki eða vill bara vera í slagtogi með öðrum hestum.“

 

Leiðin sem farin verður er ekki tilkynnt fyrr en keppendur mæta á staðinn. Þar fá þau Garmin tæki með hnitum, sem á að fylgja. Mynd: Mongol derby

Kemur fyrir að fólk villist

„Ég er alveg svolítið stressuð að villast, það er erfitt að geta ekki undirbúið sig með því að skoða leiðina og sjá hvað er í vændum,“ segir Anna. „Áður en keppnin hefst fæ ég einhverjar æfingar í því að vinna með Garmin græjuna og fylgja þessum hnitum, og ég ætla að nýta mér það vel. Fólk er oft að vinna með að hópa sig saman, það er þá kannski frekar þeir keppendur sem hafa það að markmiði að klára keppnina. Ekki að vinna.“

Dýralæknarnir hafa líka vald til þess að reka fólk úr keppninni, ef þeir verða varir við óviðunandi hegðun gagnvart hesti

„Ég hef 10 daga til þess að klára kappreiðarnar, sem eru ræstar 4. ágúst. Markmið númer eitt er að klára keppnina, það væri gríðarlegur sigur fyrir mig,“ segir Anna. „Ég er líka með það að markmiði að fá ekki nein refsistig frá dýralæknum, en það er fylgst vel með hestunum og meðferð þeirra.“

„Á 35 kílómetra fresti í keppninni, er komið að hestabúðum, þar sem þú stoppar með hestinn þinn,“ segir Anna. „Þar er tekinn hjartsláttur á hestinum og þú þarft að skokka með honum til þess að sýna fram á að hann sé ekki haltur. Ef hesturinn er með of háan hjartslátt, eða reynist vera haltur og þú lést ekki vita, þá færðu refsingu. Refsingin er tekin út með biðtíma, þú færð ekki að halda áfram fyrr en þú hefur beðið ákveðið lengi. Dýralæknarnir hafa líka vald til þess að reka fólk úr keppninni, ef þeir verða varir við óviðunandi hegðun gagnvart hesti.“

 

Horses and riders traverse the arid landscape together.

Mikil hefð er fyrir hestamennsku og kappreiðum í Mongólíu. Mynd: unsplash.com 

Má bara hafa 5 kíló í hnakktösku

Anna verður með tjaldpoka, svefnpoka og dýnu með sér, þannig að hún getur gist hvar sem er. „Það eru tjöld á þessum hestabúðum, þannig að maður getur gist þar ef það hentar,“ segir hún. „Svo má líka bara banka upp á hjá mongólskum fjölskyldum og biðja um gistingu. Það er talað um að það sé sniðugt að hafa einhverjar litlar gjafir með sér, til þess að þakka fyrir sig í þannig aðstæðum. Ég er með einhver lítil armbönd, en ég má bara hafa 5 kg með mér í hnakktösku, þannig að það er ekki boði að hafa eitthvað þungt. Dýnan, svefnpokinn og tjaldpokinn taka bróðurpartinn af þessari þyngd. Ég er svo að fara að fórna 375 grömmum til þess að taka með hleðslubanka, upp á að geta vonandi verið eitthvað í símasambandi og kannski tekið einhverjar myndir.“ 

„Ég spjallaði aðeins við Anítu þegar ég var að undirbúa mig, og við vorum alveg sammála um að maður þurfi sennilega að vera svolítið klikkaður til þess að fara í þetta,“ segir Anna og hlær. „Þetta er eflaust svolítið langt út fyrir þægindarammann hjá mörgum. Það verður gaman að koma og hitta fólkið sem keppir með, en við höfum tengst aðeins á samfélagsmiðlum. Aníta sagði að hún ætti ennþá vini sem hún kynntist í keppninni.“

 

Landslagið í Mongólíu verður eitthvað annað en Anna Guðný er vön heima í Bárðardalnum. Þar eru amk töluvert færri múrmeldýr. Mynd: aðsend

Verður erfiðast að vera lengi að heiman

„Ég held að ég sé ekki alveg að fatta að það sé komið að þessu,“ segir Anna, aðspurð um það, hvernig hún sé stemmd. „Ég var stressuð í morgun þegar ég var að pakka, að gleyma einhverju, en núna er ég rólegri, að vera komin af stað. Mig langar að koma á framfæri þökkum til 66°norður og Líflands, en ég fæ góðan stuðning frá þeim til keppninnar. Auk þess er ég með söfnun á KarolinaFund fyrir þessu ævintýri, en það er frekar dýrt og ég er að reyna að safna upp í hluta af kostnaðinum. Það er ýmislegt skemmtilegt í boði fyrir áheit!“ 

„Ég er kannski mest stressuð fyrir að fara svona lengi frá stelpunum mínum,“ segir Anna að lokum. „Þær eru 5 og 7 ára gamlar og þeim finnst mjög skrítið að ég ætli að fara í þetta verkefni. Ég veit að ég á eftir að sakna þeirra mjög mikið. Þegar ég verð dauðþreytt að kvöldi eftir 14 klukkustunda kappreið á ég örugglega eftir að hugsa til þeirra og hugsa hvað var ég eiginlega að pæla?