Allir kjörnir fulltrúar eru ekki alltaf hálfvitar

„Ég vil byrja á atriði þar sem allir geta lagt sitt af mörkum. Það er: Við verðum að hætta að láta eins og allir kjörnir fulltrúar, alltaf, séu hálfvitar. Það er bæði ósennilegt að aldrei veljist neinn í bæjarstjórn sem ekki er hálfviti ⎼ og þó svo væri, þá er þetta ekki uppbyggileg nálgun.“
Þetta segir Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri, í áhugaverðri grein sem birtist á akureyri.net í dag þar sem hann spyr hvort eitthvað þurfi að laga í sveitarstjórnarpólitík. Gunnar Már svarar eigin spurningu játandi, segir um sameiginlegt verkefni á landsvísu að ræða en einblínir í svörum og vangaveltum á eigin heimabyggð.
Sameinaður Eyjafjörður
Eftir að hafa farið yfir nokkur atriði skrifar Gunnar Már:
„Hér er ég kominn inn á hála braut, og kannski út fyrir efnið, en ætla samt að láta vaða. Sameinaður Eyjafjörður væri sveitarfélag með tæplega 30.000 íbúa. Sveitarfélag sem býr yfir háskóla, alþjóðaflugvelli, þremur stórum höfnum, spennandi iðnaðarsvæðum ⎼ auk minni hafna, öflugra framhaldsskóla ...“
Hann segir ennfremur: „Ég held að flestir kjörnir fulltrúar í Eyjafirði sjái tækifærin í slíkri mynd, og auðvitað vankantana líka. Við verðum að fara að ræða þessi mál af alvöru, bæði kosti og galla.“
Grein Gunnars Más: Sveitarstjórnarpólitík: Hvað þarf að laga og hvernig?