Fara í efni
Fréttir

Aldrei uppbókað jafn snemma á Arctic Open

Aðstæður eru oft yndislegar í miðnætursólinni á Arctic Open. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Uppselt er á Arctic Open mótið hjá Golfklúbbi Akureyrar. Mótið var fyrst haldið 1986 og hefur notið mikilla vinsælda, en aldrei hefur verið fullbókað svo snemma, eftir því sem næst verður komist. Mótið hefst að þessu sinni 24. júní, tæplega 250 kylfingar eru skráðir til keppni og nú þegar um 20 komnir á biðlista.

Mikil eftirvænting

„Við finnum fyrir mikilli eftirspurn, eftirvænting fyrir golfsumrinu er gríðarleg; fólk er farið að skipuleggja fríin sín og greinilegt að margir ætla að koma til okkar,“ sagði Steindór Kristinn Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, í samtali við Akureyri.net.

Fleiri spiluðu á Jaðarsvelli á síðasta ári en nokkru sinni. Íslenskir kylfingar voru á ferð um landið sem aldrei fyrr, enda illmögulegt að ferðast til útlanda vegna kórónuveirufaraldursins. „Íslendingar voru gríðarlega duglegir að heimsækja okkur og mér sýnist allt benda til þess að svo verði aftur í sumar.“

Steindór segir að kylfingar hafi almennt bókað sig fyrr á öll mót sumarsins hjá GA en áður þekktist. Arctic Open sé gott dæmi. Keppni á þessu skemmtilega miðnætursólarmóti hefst að þessu sinni fimmtudaginn 24. júní; leikið er fimmtudag og föstudag. Síðustu hollin hvorn dag eru ræst út um ellefuleytið að kvöldi og ljúka leik á milli fjögur og fimm um nóttina.

Hægt er að skrá sig á biðlista fyrir Arctic Open með því að senda póst á netfangið skrifstofa@gagolf.is

Heimasíða mótsins