Fara í efni
Íþróttir

Akureyrarmótið: pör, ernir og aðrir fuglar

Aðeins var leikinn einn hringur á mótinu undir pari. Það gerði sigurvegarinn í öldungaflokki 50+ Anton Ingi Þorsteinsson sem er hér í miðjunni. Til vinstri er Guðmundur Sigurjónsson sem varð annar í flokknum og hægra megin Jón Steindór Árnason sem varð í þriðja sæti. Jón Steindór var einn fjögurra keppenda sem fékk örn í mótinu, lék holu á tveimur höggum undir pari. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Velheppnuðu Akureyrarmóti í golfi sem hófst sl. miðvikudag lauk seint á laugardaginn. Alls voru 148 keppendur skráðir til leiks í mismunandi forgjafar- og aldursflokkum, sem léku ýmist í þrjá eða fjóra daga (54 eða 72 holur), og fylgdist akureyri.net vel með gangi mála alla keppnisdagana.

Og þó að úrslit mótsins og sigurvegarar flokkanna séu auðvitað það sem stendur upp úr að keppni lokinni, er líka gaman – að minnsta kosti fyrir áhugafólk um golf – að rýna í ýmsar aðrar tölulegar staðreyndir úr mótinu.

  • Keppendur í meistaramótinu voru á mjög breiðu getustigi, allt frá byrjendum til afreksfólks. Meðalforgjöf kylfinganna 148 var 15,6. Lægsta skráða forgjöfin var +1,6 og sú hæsta 54 – sem er einmitt upphafsforgjöf allra sem byrja í þessu sporti.
  • Aðeins var leikinn einn hringur á mótinu undir pari. Það gerði Anton Ingi Þorsteinsson í öldungaflokki 50+ þegar hann lék fyrsta hringinn á einu höggi undir pari eða 70 höggum.
  • Þrír efstu keppendur í meistaraflokki karla náðu að leika einn hring hver á pari vallarins. Allir aðrir hringir mótsins voru spilaðir yfir pari.

Þrír efstu í meistaraflokki léku einn hring hver á pari vallarins. Frá vinstri: Víðir Steinar Tómasson, Valur Snær Guðmundsson og Tumi Hrafn Kúld. Myndir: Skapti Hallgrímsson

  • Það er töluvert afrek að leika golfholu á tveimur höggum minna en par hennar segir til um. Á tungumáli kylfinga heitir það að fá örn - og fjórir kylfingar náðu því í mótinu. Það voru þeir Hafsteinn Thor Guðmundsson, Ragnar Orri Jónsson og Óskar Páll Valsson í meistaraflokki karla, auk Jóns Steindórs Árnasonar í öldungaflokki 50+. Ragnar Orri náði sínum erni á 2. holu vallarins en hinir á þeirri 15. en þær eru báðar par 5.
  • Og að leika holu á einu höggi undir pari heitir að fá fugl. Flesta fugla í mótinu fékk Tumi Hrafn Kúld - tólf stykki. Næstur var Valur Snær Guðmundsson með 10 fugla. Alls fengu kylfingarnir í mótinu 308 fugla samanlagt.
  • Víðir Steinar Tómasson, Valur Snær Guðmundsson og Óskar Páll Valsson fengu flest pör - 45 hver um sig. Lilja Maren Jónsdóttir kom þar skammt á eftir með 44 pör.

Þessir þrír fengu örn í mótinu; léku holu á tveimur höggum undir pari. Frá vinstri: Óskar Páll Valsson, Ragnar Orri Jónsson og Hafsteinn Thor Guðmundsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson 

  • Meðalskorið á hring í mótinu var 92,44 högg eða 21,44 högg yfir pari vallarins.
  • Fyrri og seinni níu holur vallarins virtust álíka krefjandi. Fyrri 9 holurnar voru leiknar að meðaltali 10,78 höggum yfir pari og seinni 9 á 10,66 höggum yfir pari.
  • Sú braut sem reyndist kylfingum erfiðust á þessu móti var sú þrettánda. Enda er 13. yfirleitt engin happatala! Meðalskorið á þessa par 4 braut var 5,7 högg. Næsterfiðust var 9. brautin með meðalskor upp á um 5,5 högg og þriðja erfiðust var einmitt þriðja brautin en meðalskorið á þessa par 5 braut var 6,4 högg.
  • Kylfingarnir náðu bestum árangri á 4. braut, sem er fremur stutt par 3 hola. Meðalskorið þar var 3,86 högg. Næstauðveldust var hin frábæra lokahola númer 18, sem er einnig par 3. Hún var leikin á 3,9 höggum að meðaltali og 10. brautin, sem er þægileg par 4 braut var þriðja auðveldust. Skorið á henni var að meðaltali 4,94 högg.


Eigandi þessa bíls fékk fugl á fyrsta keppnisdegi Akureyrarmótsins, án þess þó að vita af því. Keppendur á mótinu fengu alls 308 fugla – léku sem sagt 308 holur á einu höggi undir pari. Myndir: Skapti Hallgrímsson

  • Brautirnar reyndust kylfingum reyndar miserfiðar eftir dögum og þar spilar veðrið stóran þátt. Fyrsta daginn var 2. brautin sú næsterfiðasta á eftir þeirri 13., enda leikin beint á móti stífri sunnanátt. Aðra daga var 2. brautin í hópi þeirra sem gaf lægsta meðalskorið.
  • Enda var það á 2. brautinni sem kylfingar fengu flesta fugla – 42 samtals. og einn örn að auki. Hins vegar var það á holum 9 og 14 sem kylfingum tókst sjaldnast að næla sér í fugl. Ekki nema 4 fuglar komu á hvorri um sig.
  • Að lokum – hversu mörg högg ætli hafi verið slegin samanlagt í þessu Akureyrarmóti? Svarið er – 9.182 högg. Og þar hafiði það.

Tölur þessar eru fengnar með því að rýna í niðurstöður mótsins á þessari síðu og birtar með fyrirvara um að búið hafi verið að færa inn öll skor. Og þó að 148 kylfingar hafi lagt af stað í mótið þá voru aðeins færri sem luku því en nokkrir keppendur heltust úr lestinni af ýmsum orsökum.