Fara í efni
Umræðan

Áhersla á börn og barnafjölskyldur í fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar

Fyrsta fjárhagsáætlun nýs kjörtímabils liggur nú fyrir. Megináhersla meirihluta bæjarstjórnar Akureyrarbæjar er að hlúa að börnum og barnafjölskyldum, eldri borgurum og tekjulægri hópum. Bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla verður brúað með fjölbreyttum leiðum og dregið úr kostnaðarþátttöku foreldra og forráðamanna í leik- og grunnskólum. Gert er ráð fyrir að boðið verði upp á heimgreiðslur í fyrsta skipti á árinu 2023.

Lýðheilsa - frístundastyrkir hækkaðir

Í haust var hleypt af stokkunum heilsueflandi átaki með sölu á lýðheilsukorti fyrir fjölskyldufólk, eldri borgara og öryrkja. Lýðheilsukortinu er ætlað að vera hvatning til aukinnar hreyfingar og samveru fjölskyldna. Til þess að koma enn frekar til móts við fjölskyldur þá hefur verið ákveðið að frístundastyrkur verði hækkaður í 45 þúsund.

Í áætluninni verður haldið áfram með uppbyggingu á KA svæðinu. Þá er gert ráð fyrir því að byggður verði gervigrasvöllur á Þórssvæðinu á kjörtímabilinu og er það hluti af endurskoðun á forgangsröðun á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Tekinn hefur verið upp þráðurinn í samtali við stjórnvöld um rekstur Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á Akureyri. Glerárlaug verður opin fyrir almenning líkt og áður og staðarvalsgreining verður gerð fyrir nýja sundlaug. Áfram verður unnið að því að gera Akureyri að spennandi áfangastað í samvinnu við ferðaþjónustuaðila og að nýta þau tækifæri sem hafa skapast með nýjum ferðaþjónustuaðilum og fjárfestum. Þetta snýr m.a. að eflingu á starfsemi Hlíðarfjalls sem heilsársáfangastaðar og auknu millilandaflugi.

Virk efri ár og velferð

Þjónusta við aldraða sem og við fatlað fólk skipar stórt rúm í fjárhagsáætluninni. Uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk verður flýtt eins og kostur er og unnið jafnt og þétt á biðlistum. Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir uppbyggingu á tveimur búsetukjörnum á kjörtímabilinu. Strax á næsta ári hefst uppbygging í Hafnarstræti og samhliða henni undirbúningur fyrir búsetukjarna í Nonnahaga. Töluverð aukning er á fjármagni til stofnframlaga sem ætluð eru til bygginga á leiguhúsnæði og síðan er gert ráð fyrir byggingu tveggja smáhýsa. Hafin er vinna við að kortleggja sárafátækt og gjaldskrár tekjutengdar, þar sem því verður við komið.

Gert er ráð fyrir auknu fjármagni til aðgerðaráætlunar í málefnum aldraðra, sem mun fela í sér áherslur á húsnæðismál, samgöngur og samþættingu þjónustu. Meðal annars verður farið í að auka rými í Birtu félagsmiðstöð fyrir eldri borgara í Bugðusíðu.

Áhersla verður lögð á að auka öryggi fjölskyldna í húsnæðismálum með því að stuðla að fjölbreyttu framboði íbúðarhúsnæðis, hvort sem um er að ræða félagslegt leiguhúsnæði, leiguhúsnæði í samvinnu við óhagnaðardrifin leigufélög eða húsnæði á almennum markaði.

Mikil uppbygging og aukið fjármagn í skipulagsmál

Í ljósi mikillar eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði verður settur kraftur í skipulagsvinnu með það að markmiði að stórauka lóðarframboð og bjóða nýja íbúa velkomna. Sérstaklega verður horft til uppbyggingar á tjaldsvæðisreitnum við Þórunnarstræti og farið verður í hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á Akureyrarvelli. Þá verður uppbyggingu Móahverfis flýtt eins og kostur er og horft verður til nýrra hverfa, sem og þéttingareita.

Tekin verða næstu skref við að móta framtíðarsýn fyrir svæðisborgina Akureyri og það mikilvæga hlutverk og ábyrgð sem okkur er ætlað að bera. Niðurstöður greiningar á samkeppnishæfni Akureyrarbæjar gagnvart öðrum sveitarfélögum á atvinnumarkaði verða nýttar til þess að efla nýsköpun og verðmætasköpun. Lögð verður áhersla á að auka samstarf við Háskólann á Akureyri, frumkvöðla og fyrirtæki á svæðinu.

Sjálfbærni og fjölskylduvænt umhverfi

Markvisst verður unnið eftir umhverfis- og loftlagsstefnu bæjarins og aðgerðir henni tengdar fjármagnaðar. Sem dæmi má nefna að keyptir verða þrír metan knúnir ferlibílar og tveir metan knúnir strætisvagnar. Áfram verður unnið að því að auðvelda vistvænan samgöngumáta með lagningu hjóla- og göngustíga og góðri vetrarþjónustu á þeim. Framlag til Kjarnaskógar hækkar enda er þar unnið frábært starf sem tengist kolefnisbindingu, útivist og lýðheilsu.

Tekin verða örugg „græn skref“ þannig að Akureyrarbær verði áfram í forystu í flokkun, endurvinnslu og nýtingu á úrgangi. Tekið verður upp nýtt kerfi við meðhöndlun á úrgangi frá heimilum og fyrirtækjum til samræmis við lög þar sem stefnt er að því að þeir borgi sem henda. Félögin okkar, Norðurorka og Fallorka vinna að orkuskiptum í samgöngum og hafa einnig sett upp hreina raforkuframleiðslu í Grímsey.

Ábyrg fjármálastjórn í átt að jafnvægi

Lögð er áhersla á trausta og ábyrga fjármálastjórn með markmið um sjálfbæran rekstur að leiðarljósi. Samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir jákvæðri afkomu A og B hluta reksturs Akureyrarbæjar um 228 m.kr.

Til þess að halda í við verðlagsþróun er viðmiðunarhækkun á gjaldskrám í stærstu málaflokkum sveitarfélagsins um 7,5% að undanskildum vistunargjöldum í leikskólum, sem verða ekki hækkuð. Bæjarstjórn samþykkti lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts í 0,31% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og hækkun á tekjumörkum afsláttar elli- og örorkulífeyrisþega að meðaltali um 9% og hámarksafsláttur hækkaður í 127.100.- kr. eða um 8%.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um nýsamþykkta fjárhagsáætlun á heimasíðunni https://www.akureyri.is/is/frettir/fjarhagsaaetlun-2023-2026-samthykkt-i-baejarstjorn

Bæjarfulltrúar L-lista bæjarlista, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks:

Andri Teitsson, L-lista
Halla Björk Reynisdóttir, L-lista
Heimir Örn Árnason, Sjálfstæðisflokki
Hlynur Jóhannsson, Miðflokki
Hulda Elma Eysteinsdóttir, L-lista
Lára Halldóra Eiríksdóttir, Sjálfstæðisflokki

Stórkostleg upplifun

Haraldur Hauksson skrifar
14. apríl 2024 | kl. 14:30

Þjónusta þjóðkirkju við landsbyggðina

Guðrún Karls Helgudóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 15:15

Ómenning í fjallinu

Adolf Ingi Erlingsson skrifar
12. apríl 2024 | kl. 11:25

Elínborg – meðmæli með biskupsefni

Björg Ágústsdóttir skrifar
12. apríl 2024 | kl. 09:15

Í þágu ME-sjúklinga

Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skrifa
10. apríl 2024 | kl. 05:00

Umhyggja, kærleikur og mennska

Elínborg Sturludóttir skrifar
08. apríl 2024 | kl. 16:03