Fara í efni
Mannlíf

Afmæli Akureyrar: Sjáðu alla dagskrána

Aðstöðuhús Nökkva í gærkvöldi. Húsið verður aftur lýst upp í kvöld og þá boðið upp á annars konar lj…
Aðstöðuhús Nökkva í gærkvöldi. Húsið verður aftur lýst upp í kvöld og þá boðið upp á annars konar ljósalistaverk. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Á morgun, sunnudaginn 29. ágúst, er 159 ára afmæli Akureyrarbæjar og því er fagnað á hófstilltan hátt um helgina. Akureyrarvaka var blásin af, sem kunnugt er, vegna kórónuveirufaraldursins en ýmislegt forvitnilegt er þó um að vera í bænum.

Hér er öll dagskrá laugardagsins 28. ágúst

Ljúfir tónar í Hofi – Barr kaffihús
Klukkan 12.00 – 13.00
Takmarkaður fjöldi gesta
Systkinin Örn og Ösp Eldjárn spila lög af komandi plötu sinni Blood Harmony í bland við hugljúf íslensk dægurlög. Systkinin eiga bæði nokkuð langan tónlistarferil að baki og voru um tíma saman í þjóðlaga og bluegrass hljómsveitinni Brother Grass.

Listasafnið á Akureyri – Tvær sýningar opnaðar
Klukkan 12.00 – 23.00
Enginn aðgangseyrir í tilefni dagsins. Takmarkaður fjöldi gesta.

 • Hekla Björt Helgadóttir - Villiljóð
  Villiljóð er sýning ljóðsins í þrívíðu formi. Ljóðið er unnið í formi skúlptúra og annars konar myndlistarverka til að má út mörkin á milli miðlanna. Hekla Björt vinnur jöfnum höndum sem myndlistarmaður og skáld. Verk hennar eru einlæg, hnyttin og draumkennd og oft undir sterkum áhrifum frá leikhúsi og gjörningalist, segir í tilkynningu.
 • Ragnar Kjartansson - Undirheimar Akureyrar
  Ragnar Kjartansson er einn af virtustu listamönnum þjóðarinnar – þekktur fyrir vídeóverk, málverk, gjörninga og innsetningar, segir í tilkynningu frá Listasafninu. Ragnar sýnir nýtt útilistaverk sem er sérstaklega unnið fyrir svalir Listasafnsins á Akureyri og hefur beina tilvísun í akureyskt samfélag, eins og Ragnar orðar það sjálfur: „Á Akureyri er allt aðeins meira í lagi en annars staðar.“

Mánudá | Lunarity - Kaktus í Listagilinu - Opnun
Klukkan 12.00 - 23.00
Takmarkaður fjöldi gesta.
Listamaðurinn Freyja Eilíf með sýningu.

Markaður Lionsklúbbsins Ylfu – Aðalstræti 6
Klukkan 13.00 – 16.00
Takmarkaður fjöldi gesta.
Lionsklúbburinn Ylfa verður með markað í bakgarði Aðalstrætis. Meðal annars verða glermunir, búsáhöld, postulín, hljómplötur, skartgripir, myndir og myndarammar, bútasaumsefni í pökkum, og fleira og fleira. Einnig verður kökubasar innan dyra með sérstaka áherslu á marengstertur. Andvirði allrar sölu fer til að styrkja geðheilbrigðismál barna og ungmenna á Akureyri

Grasgrænt - Mjólkurbúðin í Listagilinu - OPNUN
Frá klukkan 14.00
Takmarkaður fjöldi gesta
Félagar í Myndlistarfélaginu á Akureyri halda samsýninguna Grasgrænt í Mjólkurbúðinni. 

Söguskúlptúrar - Listagilið
Klukkan 14.00
Listahópurinn RÖSK frumsýnir fjóra skrautlega skúlptúra í Listagilinu í tilefni afmælisins. Í hópnum eru Dagrún Matthíasdóttir, Brynhildur Kristinsdóttir, Jónborg Sigurðardóttir (Jonna) og Thora Karlsdottir.

Dansandi rómantísk akróbatík – Sundlaug Akureyrar
Klukkan 14.00 – 14.15
Takmarkaður fjöldi gesta. Aðgangseyrir í sund
Rómantík dregur fram akróbatík og seiðandi salsa hjá hjónunum Tinnu & Jacob. Hjartnæmt og töfrandi atriði þar sem ástin er við völd og lyftir okkur öllum upp.

Verk Margeirs Dire Sigurðssonar endurgert
Portið við Kaupvangsstræti 6 (milli Rub23 og Pennans Eymundsson)
Klukkan 14.00 - 21.00
Takmarkaður fjöldi gesta
Graffitílistamaðurinn Örn Tönsberg mun endurgera verk sem Margeir Dire Sigurðsson gerði á Akureyrarvöku 2014 og nýtur við það aðstoðar Finns Fjölnissonar málarmeistara. Vinnan hefst um klukkan 14 og klukkan 21 verður myndbandi frá 2014 varpað á vegginn í portinu. Akureyrarstofa, KEA og Slippfélagið styrkja verkefnið.

Listamannaspjall með Ragnari Kjartanssyni – Listasafnið á Akureyri
Klukkan 15.00
Takmarkaður fjöldi gesta. Enginn aðgangseyrir.
Listamannaspjall með Ragnari Kjartanssyni um verk hans Undirheimar Akureyrar. Stjórnandi er Hlynur Hallsson, safnstjóri.

Plötusnúður á bakkanum – Sundlaug Akureyrar
Klukkan 15.30 – 18.30
Takmarkaður fjöldi gesta. Aðgangseyrir í sund.
Plötusnúðurinn Glódís Ýr Jóhannsdóttir þeytir skífum fyrir gesti Sundlaugar Akureyrar.

Ljúfir tónar í Hofi – Barr kaffihús
Klukkan 17.00 – 18.00
Takmarkaður fjöldi gesta.
Tríó Akureyrar er skipað tónlistarmönnunum Valmari Väljaots píanó- og fiðlusjentílmanni, Jóni Þorsteini Reynissyni nikkara og Erlu Dóru Vogler allsherjarsöngkonu. Þríeykið mun leika íslensk og erlend dægurlög, sem og flesta aðra tónlist sem hönd á festir.

Ljósin í bænum
Klukkan 21.00 – 00.30
Í tilefni afmælis Akureyrarbæjar varða valin hús lýst á litríkan, listrænan og skemmtilegan hátt. Vídeólistaverk Heimis Hlöðverssonar, sem var unnið sérstaklega fyrir Menningarhúsið Hof í tilefni 10+1 árs afmælis þess, verður frumsýnt og einnig verður vídeólistaverkum varpað á Listasafnið á Akureyri. Önnur hús sem verða upplýst með ýmsu móti eru Akureyrarkirkja, Glerárkirkja og aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva, auk þess sem ljósadýrð verður í Lystigarðinum og víðar um bæinn.

 • Menningarhúsið Hof – Catalysis #2 – Heimir Hlöðversson
 • Akureyrarkirkja – Bernharð Már Sveinsson
 • Glerárkirkja – Hinrik Svansson
 • Listasafnið á Akureyri – Björg Eiríksdóttir og Ange Leccia
 • Aðstöðuhús siglingaklúbbsins Nökkva – Bernharð Már Sveinsson
 • Lystigarður Akureyrar – Starfsfólk garðsins og Bernharð Már Sveinsson
 • Upplýst svæði um bæinn – Starfsfólk umhverfismiðstöðvar Akureyrarbæjar

Hér eru nánari upplýsingar um listaverkin.

Ýmislegt verður á dagskrá á morgun, sjálfan afmælisdaginn. Hér má sjá upplýsingar um það - neðst í skjalinu.