Fara í efni
Mannlíf

Af ómótstæðilegum kleinum og Kleinusníki

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

8. desember – llmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi

Gáttaþefur er vel þekktur jólasveinn. Hann þekkist víst á nefinu og löngum hálsi. Nefinu stingur hann fram í dyragættir eða inn um glugga og teygir hálsinn í átt að bakstursilminum. Líklega er hann eingöngu á höttunum eftir lyktinni því hann er víst langur og mjór og því ólíklegt að hann hafi hnuplað laufabrauði eða öðru slíku góðgæti.

Annar, en minna þekktur jólasveinn, er Kleinusníkir. Sá gleypir í sig bæði lykt og bakstursafurðina. Það er dálítið merkilegt að hann hafi ekki ratað í úrvalshóp jólasveinanna sem við þekkjum svo vel úr kvæði Jóhannesar frá Kötlum og af myndum Tryggva Magnússonar því fátt er þjóðlegra en góð kleina. Á sumum heimilum hefði komið sér vel að geta kennt Kleinusníki um óvænta rýrnun á kleinubirgðum.

Uppskrift af kleinum má fyrst finna í bók sem kom út árið 1800, Einfalt matreiðsluvasakver fyrir heldri manna húsfreyjur eftir Mörtu Maríu Stephensen, (1770-1805). Marta var dönsk að uppruna og hefur líklega þekkt kleinur að heiman þar sem þær þekktust frá miðöldum. Í kveri Mörtu eru kleinurnar 12-14 cm langar, með tveimur snúningum, soðnar í smjöri og stráðar sykri. Ómótstæðilegar fyrir jólasvein!

Bók Mörtu má fletta á vefnum bækur.is

Smjörið var hins vegar dýrmætt sem gjaldmiðill og ekki á allra færi að nota það við steikingu. Kleinur voru því oftast steiktar upp úr tólg en á Vestfjörðum þekktist að steikja þær úr þorskalýsi eða sellýsi þó ýmsum þætti hnýsulýsið gera þær bragðbetri! Hvað Kleinusníki þótti um það er óvíst. Kleinujárnin urðu hins vegar fljótt ómissandi.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.