Fara í efni
Íþróttir

Arnór semur áfram við Bergischer

Arnór Þór Gunnarsson, ti hægri, ásamt markverðinum Christopher Rudeck, eftir sigurleik gegn Stuttgart á útivelli í fyrrakvöld.

Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handbolta, hefur framlengt samning við Bergischer í Þýskalandi. Gamli samningurinn var til næsta vors og Arnór hafði jafnvel hugsað sér að hætta í atvinnumennsku og snúa heim, ekki síst vegna meiðsla sem hafa verið að plaga hann, en lét til leiðast.

Landsliðsmaðurinn snjalli framlengdi samninginn um tvö ár, en hefur þó þann möguleika að segja honum upp eftir fyrra árið. Því er ljóst að Arnór leikur með Bergischer að minnsta eitt og hálft kepnistímabil enn, til vors 2022, en líklega ári lengur.

„Ég var nánast ákveðinn, fyrir um það bil tveimur mánuðum, að segja þetta gott næsta vor. Ég hef verið slæmur í mjöðm í eitt og hálft ár og hafði farið í alls konar athuganir og sneiðmyndatöku, og alltaf var sagt að þetta væru bara bólgur. Þegar ég fór í röntgenmyndatöku kom hins vegar í ljós að brjósk í mjaðmarbeini er byrjað að eyðast og þess vegna myndast þessar bólgur,“ segir Arnór við Akureyri.net.

Hann segist hafa velt málinu vel og lengi fyrir sér og komist að því að lítið vit væri í að halda áfram, bryðjandi verkjalyf. „Stundum var ég svo slæmur eftir æfingar og leiki að ég gat varla gengið.“

Eftir að Arnór Þór byrjaði á öðru mataræði hefur líðanin hins vegar gjörbreyst. „Ég er ekki að grínast! Ég talaði við Crossfitmann heima á Íslandi og hann gaf mér góð ráð. Ég var borða of lítið og hlutföllin í fæðunni voru ekki rétt að hans mati, ég fór að hans ráðum og átta vikum seinna voru verkirnir nánast horfnir. Ég hafði verið í sjúkraþjálfun en það breytti litlu, en nú er mjöðmin orðin miklu betri. Ég er nánast verkjalaus; þó ég finni auðvitað ennþá smávegis fyrir brjóskeyðingunni eru verkirnir hundraðfalt minni en áður,“ segir Arnór Þór.