Aðalstræti 32 mun eldra en talið var?
Á árinu sem nýliðið er í aldanna skaut lagði Arnór Bliki Hallmundsson áherslu á elstu hús Akureyrar í aldursröð eftir því sem við verður komið, í frábærum pistlum sínum í röðinni Hús dagsins.
Hann segir reyndar ekki einfalt mál að ákvarða þessa röð í raun, „enda þótt allar byggingar séu með skráð byggingarár, sem í langflestum tilfellum standast. Þó geta verið annmarkar á þessum kennitölum húsanna, sér í lagi þegar í hlut eiga hús sem byggð eru fyrir tíma bygginganefnda eða áður, en það þótti slíkt tiltökumál að menn kæmu sér upp húsum, að það væri fært í einhverjar skráningar eða annála.“
Í dag fjallar hann um Aðalstræti 32, hús sem samkvæmt skráðu byggingarári ætti ekki heima í þeirri aldursröð, sem Arnór Bliki tók fyrir árið 2025. „Skráð byggingarár þess er nefnilega 1888, og það talið nokkuð líklegt en vitað er að þarna var reist hús um 1854. Í Húsakönnun 2012 er talið líklegast, að húsið frá 1854 hafi verið rifið fyrir 1880 og núverandi hús reist 1888. Hér leyfum við hins vegar Aðalstræti 32 að njóta vafans og höfum það með í hópi allra elstu húsa Akureyrar.“
Pistill Arnórs Blika: Aðalstræti 32