Fara í efni
Íþróttir

80. Íslandsmótið, keppendur eru 150

Verðlaunagripirnir sem barist verður um á Íslandsmótinu í golfi á Jaðarsvelli. Ljósmynd: GSÍ.

Íslandsmótið í golfi hefst á Jaðarsvelli á Akureyri á morgun og stendur til sunnudags. Að þessu sinni eru 13 Akureyringar á meðal keppenda, 10 karlar og þrjár konur.

Þriðja árið í röð tekur hámarksfjöldi þátt í mótinu, 150 keppendur, að því er segir á vef Golfsambands Íslands. Konurnar eru 34 en karlarnir 116.

Keppendur verða frá 22 klúbbum víðsvegar af landinu og einn keppandi er skráður í norskan golfklúbb. Sex golfklúbbar eru með keppendur bæði í karla- og kvennaflokki.

Flestir keppendur eru úr Golfklúbbi Reykjavíkur, alls 34, 11 konur og 23 karlar, frá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar verða 27 keppendur (6 og 21) og 25 frá Golfklúbbi Mosfellsbæjar (9 og 16).

Þetta verður 80. Íslandsmótið í karlaflokki en keppt verður um Íslandsmeistaratitil kvenna í 55. sinn. Fyrst var keppt í karlaflokki 1942 og árið 1967 í kvennaflokki. Íslandsmótið var síðast á Jaðarsvelli árið 2016.