Fara í efni
Menning

Ýmsar goðsagnir rokka á Eyrinni

Helgi Gunnlaugsson og Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson á sviðinu í Verksmiðjunni. Ljósmynd: Skapti Hall…
Helgi Gunnlaugsson og Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson á sviðinu í Verksmiðjunni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Blásið verður til nýrrar tónlistarhátíðar á Akureyri í kvöld; Eyrarrokk skal hún heita, og verður vonandi að árlegum viðburði, segir Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson, einn þeirra sem standa að hátíðinni.

Gamall draumur rætist þegar haldið verður af stað í rokkferðalagið í kvöld.  „Okkur hefur lengi langað að gera þetta og fannst kominn tími til að kýla á það. Vonandi gengur dæmið upp, en það kemur ekki í ljós nema við prófum,“ segir Rögnvaldur við Akureyri.net en þeir Sumarliði Helgason, félagi hans úr hljómsveitinni Hvanndalsbræðrum, og Helgi Gunnlaugsson, veitingamaður á Verkstæðinu, bera hitann og þungann af hátíðinni.

Fyrirmyndir

Eyrarrokk verður á Verkstæðinu, neðst við Strandgötu, þar sem bílaverkstæði BSA var fyrir margt löngu, síðar skemmtistaðurinn Oddvitinn og loks Norðurslóðasetur Arngríms Jóhannssonar, þar til Helgi keypti húsið fyrir nokkrum misserum. Þar starfrækir hann Vitann - mathús, sem opinn er virka daga, og stór salur hinum megin í húsinu sem hentar vel fyrir ýmiskonar mannamót, til dæmis rokkhátíð!

„Fyrirmyndirnar eru hátíðir eins og Melarokk á gamla Melavellinum í Reykjavík, Heilbrigð æska í Kópavogi, þar sem Utangarðsmenn komu fram í fyrsta skipti, og Annað hljóð í strokkinn,“ segir Rögnvaldur. Svo nefnir hann Eistnaflug í Neskaupstað.  „Þar mættu 35 manns í fyrsta skipti en nú er það orðin risa hátíð, þar sem meðal annars spila þekktar erlendar hljómsveitir. Það getur verið erfitt að byrja með svona hátíð, en þeir gáfust ekki upp fyrir austan, og vonandi gefumst við ekki upp.“

Hlustuðu hver á annan ...

„Svona tónleikar voru haldnir í gamla daga. Hér á Akureyri var svo sem engin tónleikamenning og erfitt fyrir hljómsveitir að fá að spila. Ef það tókst komu kannski 10 til 15 manns þannig að eina ráðið var að smala saman ýmsum hljómsveitum sem héldu sameiginlega tónleika, þá voru að minnsta kosti hinar hljómsveitirnar að hlusta, sem leit miklu betur út!“

Rögnvaldur segir tvennt skipa mestu máli; að þeir félagar tapi ekki að á hátíðinni og að fólk skemmti sér vel. „Draumurinn er að geta borgað hljómsveitunum eitthvað, að minnsta kosti bensínpening. Við leigjum hljóðkerfi, hljóðmenn og fleira tæknifólk, og leigjum meira að segja heilt gistiheimili í miðbænum. Óðum af stað en áttuðum okkur svo á að því að fullt af fólki þyrfti gistingu; þeir urðu 43!“

Ævintýrið kostar sem sagt skildinginn, en þeir Rögnvaldur eru bjartsýnir, segir hann. „Forsalan fer ágætlega af stað og ég hef trú á að fólk sé spennt fyrir þessu. Hljómsveitirnar eru að minnsta kost mjög spenntar og voru allar tilbúnar að koma upp á von og óvon.“ 

Tólf hljómsveitir

Tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 í kvöld og annað kvöld, en húsið verður opnað klukkustund fyrr. Miðinn á hvort kvöld kostar 4.500 krónur en 7.000 krónur ef fólk kaupir miða á bæði kvöldin.

Í kvöld koma þessar hljómsveitir fram:

 • Hælsæri (kemur í stað Leðurs, sem hafði verið auglýst en forfallaðist)
 • Chernobyl Jazz Club
 • Lost
 • Tvö dónaleg haust
 • Dr. Gunni og hljómsveit
 • Fræbbblarnir

Annað kvöld, laugardagskvöld, stíga þessir á svið:

 • Biggi Maus
 • DDT Skordýraeitur
 • Dúkkulísurnar
 • Helgi & Hljóðfæraleikararnir
 • Langi Seli og Skuggarnir
 • Elín Helena