Fara í efni
Menning

Útvarp Akureyri, nú verða lesnar jólakveðjur

Ljósmyndir: Arthur Charles Gook.

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

17. desember – Gook var brautryðjandi í útvarpsrekstri

Jólin 1932 hóf Ríkisútvarpið að senda jóla- og nýárskveðjur út á öldur ljósvakans að danskri fyrirmynd.

Í upphafi voru þær einkum til sjómanna en jukust jafnt og þétt ekki síst þegar fólkið á „mölinni“ fór að senda kveðjur heim í sveitina. Fjöldi kveðja í útvarpinu var langt umfram það sem þekktist í nálægum löndum og vex enn. Þannig var fjöldi kveðja árið 2020 meiri en nokkru sinni fyrr.

Ríkisútvarpið var stofnað árið 1930 en nokkrum árum fyrr hafði Arthur Charles Gook staðið fyrir útvarpssendingum frá Akureyri og síðar móttöku sjónvarpssendinga.

Arthur Charles Gook fæddist í London 11. júní 1883. Gook fluttist til Akureyrar árið 1905 til stunda trúboð. Hann tók sér ýmislegt annað fyrir hendur t.d. að kenna knattspyrnu, stunda tannlækningar og vera brautryðjandi í útvarpsrekstri á Íslandi. Gook var hugfanginn af útvarpinu sem hann kallaði hið mesta undur nútímans í grein í Norðurljósinu árið 1925:

„Að maður geti talað með eðlilegum málróm fyrir framan lítið tæki, sem hangir á þræði, svo að þúsundir gætu heyrt hvert orð, sem hann segði í margra mílna fjarlægð, án þess að nokkurt sýnilegt samband væri á milli, er hugmynd sem forfeður okkar hefðu eflaust litið á sem mestu fjarstæðu og hjegómadraum. Þó er þetta orðið hversdagslegur raunveruleiki.“

Gook lét ekki sitja við orðin tóm, safnaði fjármunum í Englandi til að kaupa útsendingatæki og ráða erlent tæknifólk. Greiðlega gekk að fá tilskilin leyfi strax 1925 en með þeim fyrirvara að afturkalla mætti þau fyrirvaralaust. Tilraunaútsendingar hófust í september árið 1927 frá Sjónarhæð, sem stendur norðan við Samkomuhúsið.

2. desember 1929, skömmu eftir að búið var að setja nýja rafstöð í mótorhúsið fyrir ofan Sjónarhæð, barst tilkynning um að leyfið til útvarpssendinga væri afturkallað, þó var Gook hvattur til að sækja aftur um leyfi. Það gerði hann en fékk synjun þegar í stað. Gook tók það mjög nærri sér, yfirgaf útsendingarherbergið og kom aldrei inn í það framar.

Gook hafði miklar hugmyndir um dagskrárgerð með fyrirlestrum, fréttaflutningi, veðurfréttum, hljóðfæraleik og leik af grammófónplötum og „allskonar opinberum tilkynningum frá yfirvöldum.“ Hann hafði einnig hug á því að kenna ensku í gegnum útvarpið. Eflaust hefðu þar hljómað jólakveðjur. Útvarp Akureyri, nú verða lesnar jólakveðjur.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.

Gook og fjölskylda á ísilögðum Pollinum.

Tæknimaðurinn Hogg situr við annan mann á kössum með útsendingagræjum.