Fara í efni
Menning

Úr dagbókum Sveins Þórarinssonar – I

Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna, eins og fram kom í gær. Akureyri.net mun miðla rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una Haraldsdóttir velur kafla og gengur frá til birtingar

Ástæða er til að vekja athygli á því að síðustu færsluna sem birtist í dag skrifaði Sveinn 29. júní 1869 – fyrir nákvæmlega 154 árum. Það voru síðustu skrif hans í dagbókina.

Fyrsta grein Unu Haraldsdóttur er hér að neðan; fyrst er dagbókarfærslan skrifuð beint upp og síðan á nútímamáli. Munurinn er reyndar ekki mikill og stundum enginn.  

_ _ _

Sveinn Þórarinsson er best þekktur fyrir að vera faðir rithöfundarins Jóns Sveinssonar, Nonna. Sveinn fæddist í Kílakoti í Kelduhverfi þann 17. mars 1821. Hann byrjaði að halda dagbók 1836 þegar hann var aðeins 15 ára og á því elstu dagbækur ungmennis á Íslandi. Sveinn skrifaði dagbókarfærslur nánast á hverjum degi fram að andláti. Allar dagbækurnar hafa varðveist nema ein. Eftirfarandi færslur skrifaði hann dagana 25.–29. júní 1869 og voru það síðustu dagbókarfærslur hans áður en hann dó þann 16. júlí eftir erfið veikindi síðustu ára. Sveinn var jarðsettur á Akureyri en er sá eini af fjölskyldu sinni sem er jarðaður Íslandi.

25. júní 1869

Hafgola og þokufullt lopt. Afli mikill mest hér á pollinum. Eg skrifaði reikning yfir alla ferð okkar, gekk út til P. Johnsens, var þreyttur og kvefaður og hafðist lítið að.

Hafgola og þokufullt loft. Afli mikill, mest hér á Pollinum. Ég skrifaði reikning yfir alla ferð okkar, gekk út til P. Johnsens, var þreyttur og kvefaður og hafðist lítið að.
_ _ _

26. júní 1869

Logn og hiti. Hafísinn kvað nú liggja inn að Arnarnesnöfum. Barkskipið Emma er sagt að sitji nú í ísnum útaf miðjum Skjálfandaflóa. Eg var heima um daginn lasin af kvefi, tók smávegis til handargagns. BF [bréf frá] Jóni litla syni mínum. Eg áformaði að taka hann heim vegna ónotalegra kringumstæða hans á Espihóli síðan Eggert fór þaðan og hætti búskap að mestu.

Logn og hiti. Hafísinn kvað nú liggja inn að Arnarnesnöfum. Barkskipið Emma er sagt að sitji nú í ísnum útaf miðjum Skjálfandaflóa. Ég var heima um daginn lasinn af kvefi, tók smávegis til handargagns. Bréf frá Jóni litla syni mínum. Ég áformaði að taka hann heim vegna ónotalegra kringumstæðna hans á Espihóli síðan Eggert fór þaðan og hætti búskap að mestu.
_ _ _

27. júní 1869

Sunnan vindur, hiti og leysing til fjalla. Jörð grær nú óðum og eru kýr farnar að græða sig. Ekki messað. Eg gekk út til P. Johnsens að biðja um sápu, þar var Indriði á Víðivöllum og gekk heim með mér og tafði hér nokkuð. Eg gekk með kíkir upp á höfða og var hafísinn að sjá horfin af öllum firðinum.

Sunnan vindur, hiti og leysing til fjalla. Jörð grær nú óðum og eru kýr farnar að græða sig. Ekki messað. Ég gekk út til P. Johnsens að biðja um sápu, þar var Indriði á Víðivöllum og gekk heim með mér og tafði hér nokkuð. Ég gekk með kíki upp á höfða og var hafísinn að sjá horfinn af öllum firðinum.
_ _ _

28. júní 1869

Sunnan vindur og sterkur hiti. Indriði kom hér snemma sat lengi uppi á kvisti og sagði meðal annars að þingeyingar væru að géra út bænarskrá um afsetning amtmanns Havsteins. Hann fékk hjá mér 1ʉ af kaffe. Páll Magnússon reið út að Glæsibæ að taka fyrir 2 mál vegna sýslumanns, hann sagði mér úr bréfi frá Sra Þórði að amtmaður ætlaði að höfða gegn mér justitsmál fyrir undandrátt og umskipti á hlutum við söluna á búi mínu í fyrra. Eg hreinskrifaði um daginn bænarskrá til alþingis fyrir Pal um stjórnarbótar- og fjárhagsmál Islands. Um kvöldið fréttist að fjöldi skipa lægju á Hunaflóa og þar á meðal Hertha, komin vestan fyrir Hornstrandir.

Sunnan vindur og sterkur hiti. Indriði kom hér snemma sat lengi uppi á kvisti og sagði meðal annars að Þingeyingar væru að gera út bænarskrá um afsetning amtmanns Havsteins. Hann fékk hjá mér 1ʉ af kaffi. Páll Magnússon reið út að Glæsibæ að taka fyrir 2 mál vegna sýslumanns, hann sagði mér úr bréfi frá séra Þórði að amtmaður ætlaði að höfða gegn mér jústitsmál fyrir undandrátt og umskipti á hlutum við söluna á búi mínu í fyrra. Ég hreinskrifaði um daginn bænarskrá til alþingis fyrir Pál um stjórnarbótar- og fjárhagsmál Íslands. Um kvöldið fréttist að fjöldi skipa lægju á Húnaflóa og þar á meðal Hertha, komin vestan fyrir Hornstrandir.
_ _ _

29. júní 1869

Sunnan vindur og hiti, þvervestan far í lopti. I dag var haldin hér í bænum kjörfundur fyrir Eyafjarðar sýslu, og var Stephán á Steinsstöðum kosin til alþingismanns og Pall Magnússon sem varaþingmaður. Rétt á undan fundinum kom syslumaður heim ur Siglufjarðar ferð sinni með bréf úr “Herthu„ sem vestan fyrir er komin á Siglufjörð, en komst ekki lengra fyrir ís. Eg fékk BF Eðv. Johnsen og getur hann þess að amtmaður hafi skrifað stjórninni mestu óhæfur um mig. Hér komu ýmsir, Sra Arnljótur P. Magnusson, Gunnar Palsson, Stephán Ólafsson og fl. Amtmaður var hér í bænum í dag. Austan póstur kom að austan sagði þar mikin ís og bágindi, samt að barkskipið Emma væri rekið með ísnum austur undir Rauðanúp. Eg skrifaði út réttarhald f. P. Magnússon.

Sunnan vindur og hiti, þvervestan far í lofti. Í dag var haldinn hér í bænum kjörfundur fyrir Eyjafjarðarsýslu, og var Stefán á Steinsstöðum kosinn til alþingismanns og Páll Magnússon sem varaþingmaður. Rétt á undan fundinum kom sýslumaður heim úr Siglufjarðar ferð sinni með bréf úr „Herthu“, sem vestan fyrir er komin á Siglufjörð, en komst ekki lengra fyrir ís. Ég fékk bréf frá Eðv. Johnsen og getur hann þess að amtmaður hafi skrifað stjórninni mestu óhæfur um mig. Hér komu ýmsir, séra Arnljótur P. Magnússon, Gunnar Pálsson, Stefán Ólafsson og fl. Amtmaður var hér í bænum í dag. Austan póstur kom að austan sagði þar mikinn ís og bágindi, samt að barkskipið Emma væri rekið með ísnum austur undir Rauðanúp. Ég skrifaði út réttarhald f. P. Magnússon.