Fara í efni
Menning

Sveinn „þjáður af heilsubresti“ heilan vetur

Í dag birtist 22. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk sl. sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur reglulega síðan. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:
_ _ _

Veikindi Sveins

Sveinn glímdi við veikindi nánast allt sitt líf og var líklega með sullaveiki. Algengast var að sullur væri í lifur eða lungum manna. Einkenni, ef einhver voru, fóru eftir staðsetningu sullsins. Ef hann var í lungum fann fólk fyrir verki í brjósti, hósta og öndunarerfiðleikum. Ef sullur var í lifur voru einkenni m.a. kviðverkir, gula og hiti. Þetta var þó ekki endilega dauðadómur og oft kom sullaveiki í mönnum fyrst í ljós við krufningu. Þeir sem dóu úr sullaveiki gátu jafnframt lifað árum saman með sjúkdómnum. Á 19. og 20. öld varð kynningarstarf á sullaveiki og smitleiðum til þess að sulli var útrýmt á Íslandi. Hér eru dagbókarfærslur frá árunum 1848 til 1849 þar sem Sveinn lýsir veikindum sínum, sálrænum áhrifum þeirra á hann og ýmsum lækningaraðferðum 19. aldar.

18. apríl 1848

Sama veður. Eg var vesæll af Taki undir hægri síðu. líklega orsökuðu af áreinslu við að hefla ofan loptið, og að eg heitur drakk kalt vatn. Eg gat ekkert aðhafst, skrifaði fyrir husmóður mína ræðu úr “Vallin„ á “Lang„ Fredag„ brúkaði saltbakstur við bakið.

19. apríl 1848

Logn og blíðviðri. Mjer skánaði ekkert Takið, Sra Þorgrímur tók mjer blóð, Eg lagði við mig spanskflugna plástur um kvöldið. gat ekkert aðhafst. BF mm og sendíngar

20. apríl 1848

Sólskyn og blíðviðri. ETK. Eg gat naumast bært mig fyrir Takinu.

21. apríl 1848

Sunnan frostgola. ETK. Hjer var lagís á allri Víkinni sem ekki tók af um dagin. I dag hef eg Takið miklu óþolanlegra en áður gat með kvölum klæðst, ljet að nýu taka mjer blóð ríflega.

22. apríl 1848

Austan gola og þykt lopt. Eg gét nú ekki sofið nje hrært mig vegn Taksins skrifaði brjef til Sra Jóns á Grenjaðarstað eptir meðölum og sendi Grím á Stángarbakka framm eptir með það.

23. apríl 1848

Logn og þikkt lopt og litið fjúk. TK. Grímur kom með meðöl frá Grenjaðarstað. (sjá S.) mjer skánaði lítið takið. Björg G. Frá kk. var hjer. Eg sat við dans og spil i Nielsens um kvöldið. Eg skrifaði BT Jóh. Palss. & S.J.

25. apríl 1848

Sama veður. Eg fór að hefla borð og plægja saman í hillur. skaut naut sem híngað var sent frá Grenjaðarstað. Jóhannes O. heflaði ofan loptið sem eg hætti við. Eg þjáist enn af Takinu og bakverk.

3. maí 1848

Logn og hlítt veður. Við fluttum út Ankjer og keðjur þær sem eptir vóru sem allt var mesta strit og stríð. Jeg er hálfvesæll af sting og ónotalegum bakverk (: eða Lundabólgu - eða gigt). Sigtriggur lagðist um kvöldið.

4. maí 1848

Sunnan frostlaus gola. Eg var að geirnegla storann kassa í kljá gráslippunætur og ausa “Draug„. Allar selanætur vóru uppteknar hjer í víkinni. Eg lagði Meinlætaplástur við síðu mína um kvöldið.

12. maí 1848

Norðan kuldi og fjúk, alhvítt af snjó. Eg mældi striga í 100 pakka og var við “Udpakníng„ og ýmislegt. Byrjað að flytja í land úr skipinu. Eg er alltaf vesæll, þoli ekkert á mig að reina.

17. maí 1848

Norðan frostbruna veður og stórhríð um kvöldið. Eg gjekk út að Túngugjerði til að byrja norðurferð, fjekk óþolandi kvöl í bakið var þar nóttina.

18. maí 1848

Norðan stórhríð komin fönn. Eg sneri af norðurferðinni gjekk heim aptur um daginn og var við Udpakníng. Er nú frammúrskarandi vesæll.

17. júní 1848

Sunnan vindur. Eg setti Fræ í garð sýslumanns. Eg aðgjætti bólgu á fótum mínum uppyfir ökla tilfinníngarlausa, er ekki frískur, þoli einga áreinslu plágast af ónáttúrlegum þorsta, vantar hjer gott vatn er hræddur um eg tapi heilsu minni, lángar til að deya.

21. júní 1848

Norðan hrakviðri. Við riðum að Kétilsstöðum í Jök.hlíð, urðum alvotir. Lögðum svo á Hellisheiði feingum kafald og mestu ófærð mig þrutu kraptar til að gánga vegna bakverks, hósta og mæði lá við bana á heiðinni. Við settustum að í Böðvarsdal.

16. júlí 1848

Sólskyn og hiti. Hér vakti allt fólk í nótt, vegna þess að Mad. Havst. var jóðsjúk, um miðjann dag ól hún sveinbarn - hennar fyrsta -. Læknir Hjálmarsen var hér. Eg las “Romaner„ um daginn. Mér er nú farið að batna kvefið og hóstinn, þó er eg hræddur um brjóstveiki í mér, og ekki þoli eg áreynslu.

23. júlí 1848

Norðan stormur og rigníng að öðruhverju. Eg skrifaði bréf og las “Romaner„. A hverjum degi hyrði eg um silúnganet hér í kílonum, enn veiði lítið. Eg á góða daga, gott Fæði, drekk opt púns á kvöldin og reiki Cigara með sýslum, finn ekki mjög til óyndis. Aungvir menn þykjast muna jafn harða sumartíð og nú er, úteingi hér sýnist öldúngis ósláandi, og enn eru allir fjallvegir þaktir gaddi.

29. júlí 1848

Alátta og sólskin. Eg var að skrifa nokkur bréf til Rentukammersins og á Skipa-skjöl, þess á milli að slá með piltum á túnparti Havsteins. Eg kvartaði um brjóstveiki mína fyrir Hjálmarsen. Eg varð nú loksins af með rauða klár minn eptir lánga mæðu fyrir 10 spec.

30. júlí 1848

Norðan gola og gott veður. Eg skrifaði bréf til Rentuk. las og lagfærði ýmislegt fyrir mig. Frammurskarandi blíðlyndis nýt eg alla jafna af húsbónda mínum. Eg leitaði ráða til Hjálmarsens við vesöld minni hann færði mer 4 loða glas með dropum, að inntaka 70-80 þrisvar á dag. Megn kvefsótt geyngur nú og liggur margt folk í henni.

13. ágúst 1848

Alátta og hita sólskin. Eg las, skrifaði og lagfærði ýmislegt fyrir mig. Eg hlóð í tópt 13 hestum af heyi sem bundnir vóru að hesthúsi sýslumanns. Mér er nú að mestu batnaður hósti og kvef, enn þjáist af ableisi í fótum mest um knjáliðu; þoli eingan gáng uppámóti; hef nú mikið erviði á degi hverjum.

2. september 1848

Sunnan vindur. Eg reið að Höfða. málaði um daginn Svefnverelsið hér í húsinu; fékk eptir útvegun Havsteins meðöl frá Hjálmarsen móti ableysi í fótum “Mak, að maka á qvöld„ og Sinasalve að maka með á morgna, samt dropa að inntaka 26 til 40 undir eins og makað er. BT Peturs á Hák.

3. október 1848

Norðan gola og skúrir. Eg passaði net og innfærði í Copíubók, ég kvelst nú af pínunni gömlu í bakinu, þoli ekkert að gánga.

14. október 1848

Sunnan hlívindi. Eg skrifaði á skipsskjöl skipanna “Próvens„ og “Christjáns„ sló upp kýrhúð, skrifaði bréf til rentuk. og bréf eða bænarskrá til Konúngs frá Múla-sýslum. það sömdu hér í dag prófastur St. Arnason á Valþjofsstað, vísiprófastur B. Thórarensen á Asi og alþ. maður Stúd. G. Vigfússon á Arnheiðarst. Nú er eg fyrir nokkru búin að brúka upp meðölin frá Hjálmarsen og er nú farin að aukast aptur bjúgur á fótum mínum.

20. október 1848

Sama veður. Eg gyrdi hálftunnu, setti sunnan bal, og skrifaði. Magnús hér vildi skjóta hest með riffli mínum, mislukkaðist, og var eg svo feingin til að vinna á honum sem vel gékk. Gei lappsu elva rafa lisisa inume [Eg slapp vel fra slisi minu]. Þetta nú liðna sumar hef eg sífellt kvalist af heilsuleysi meir enn nokkurtíma áður á æfi minni (: atturna„egarle fai„eiðlu„ngariu fai Lumio ifnaðlu rai atamu) [natturlegar afleiðingar af illum lifnaðarmata] annars hefir verið vel við mig breitt af husbænunum.

31. október 1848

Sunnan hláka. Eg bjó til stall og dyraumbúníng í fjárhúsi og hesthúsi. Mánuður þessi hefir mátt heita góviðrasamur, þó seinni helmíngur hans hafi að öðru hverju verið nokkuð hretasamur. Hér er nú nokkur snjór á Völlum enn meiri útum Héraðið; í Fljótsdal og Skriðdal er nú snjólaust. Heilsufar mitt hefir þennan mánuð verið í veikasta lagi, mest af kvölinni í bakinu ableysi og bjúg á fótum og sleni í öllum kroppnum. Kjör mín annars góð.

9. nóvember 1848

Sama veður. eg sat við skriftir. Hjalmarsen færði mér Crótótonolíu til að brenna með bak mitt og heil. anda plástur, eg bar á olíuna um kvöldið.

10. nóvember 1848

Sunnan gola og frostlítið. eg sat við skriftir. lagði heil. anda plasturinn yfir olíubrunann um kvöldið.

11. nóvember 1848

Sama veður. Eg skrifaði og smíðaði nokkrar klemmur, lagði meinlætaplástur við bríngsbalir mínar. Eg er nú hálfhræddur um skirbjúg í mér.

25. nóvember 1848

Norðan rigníng og ísíng. Eg skrifaði, og smíðaði límklemmur. - hef kvöl í baki, og bjúg á fótum og í mér öllum er deifð og vesöld og ónattúrlegur kuldi, og útaf þessu öllu hugsýki. gei reu jalfursa Rsökou ilte imdareæ innmei„rai [eg er sjalfur orsök eimdar minnar].

30. nóvember 1848

Sunnan frostgrimd. Eg byrjaði að gjöra danskann stíl - fyrst á æfi minni - með því að snúa act á dönsku, (: málið um reimleikann á Bárðarstöðum í Loðmundarfyrði. Mánuður þessi hefir verið kaldur og frostasamur, og heilsufar mitt eingu betra enn áður, og hef eg þó stöðugt brukað meðöl.

7. desember 1848

Sunnan frostgola og gott veður. Havstein lagfærði danska stílinn fyrir mig, sem fór mjög batnandi, og hvatti mig til að lesa grammatic. Eg var með skarra móti í bakinu, gat geingið uppað Urriðavatni, eg er nú buin með meðölin fra Hjálmarsen, hver nú er niður í Seiðisfyrði því Sveinn í Vestdal liggur í Typhus sem er að stínga sér niður hér og þar.

eg lærði vísu þessa

Að svelta fólk og svíkja um laun

en suma berja,

er það talin einskjær náðin,

ef það gjörir kammerráðið.

“um P. Th. Melsteð„

10. desember 1848

Logn, frost og bjartviðri. Eg gékk með Havstein um dagin að skjóta rjúpur skutum 9. Við þetta litla gaungulag tók eg út, óbærilega kvöld í bakinu sem liggur innanum mig, og frammí bríngsbalirnar, útí mjaðmirnar og ofaní fætur. Þáráofan píndist eg um kvöldið af sorg og hugarángri útaf óláni mínu, nl. að hafa farið svo lángt frá ættíngjum og vinum; því þó eg nú hafi feingið þau ágjætustu kjör og komist í stöðu þá sem mest er að skapi mínu, lítur samt út til þess að eg héðanaf ekki géti orðið mínum góða húsbóna að þvi gagni sem vilji minn og skylda útheimta, og að eg megi á næsta vori ef líf mitt dregst þángað til, víkja héðan til að deya hjá ættíngjum mínum.

14. desember 1848

Sunnan ofsahláku veður með stöðugri feikna rigníngu, tók mikið af snjó. Eg skrifaði act og bréf, og kéndi Gísla samlagníng. Nú er óttalegur bjúgur á fótum mínum hreint uppá lær, og er eg hræddur um vatnssýki í mér.

16. desember 1848

Sama veður. Eg sat við skriftir skrifaði BT Hjalmarsens um veiki mína; hann kom hér sjálfur og færði mer “mak„ og lerepts reimar 3tom breiðar og 12 al. langar á hvörn fót, til að harðvefja allar fæturnar með upp að knjám til að þrikkja bjúgnum, reimar þessar á eg að taka af á næturnar. [...]

19. desember 1848

Sunnan hláka og blíðviðri. Hjálmarsen sat hér um vökuna og færði mér eptir beiðni minni i BT hans af Dags Datum. Hunáng og Terpentin að inntaka 1 theskeið, 3var á dag og Olíu til að bera á verkjarstaðinn, samt dupt að inntaka þegar eg hefði lokið við hið fyrstnefnda. Hann setti á bak mitt opt um kvöldið 2 blóðhorn og varð eg að liggja í rúmi á meðan, og þokti mér atvik öll við þann “Cuivi„ býsna tilfinnanleg, sá vesti “Tortur„. Postur kom hér að sunnan.

20. desember 1848

Sunnan ofsa veður með grófu hrakviðri; jörð auð að mestu. Jeg var ögn skárri í bakinu en sárt og viðkvæmt fleiður og skurðir undan hornunum.

27. desember 1848

Sunnan froststormur, grátt í rot af föli. Eg gékk um morgunin með Havst. & Mel. uppað Urriðavatni, veiddum 3 silúnga. Eg er mjög vesæll í baki með óttalegan bjúg á fótum. levba orfi„krækketsu veroi tea ygsa„omsdi avnnu [blev forskrækket over et sygdoms navn].

30. desember 1848

Sama Veður. eg skrifaði skipti; leiðist nú eptir pósti. gét ekki brúkað meðal eitt frá Hjalmarsen fyrir velgju.

31. desember 1848

Logn og gott veður. Eg hafðist lítið að. Um kvöldið skaut eg mörgum skotum og Sýslum. 3. og margir aðrir. Eitt sinn hélt eg rifflinum svo nærri baðstofuglugganum að rúða brotnaði. Eg brúka nú dupt frá Hjálmarsen til inntöku, er með skárra móti og fóta bjúgurinn með minna móti.

14. janúar 1849

Sunnan frostgola og blíðviðri. Eg bjó mig asamt mörgu fólki til að fara til kyrkju; kvaldi mig til að gánga mikið af leiðinni, komu þá mót boð að klerkur ekki væri heima sneri folk allt aptur. Eg ritaði bréf til m.m. og fl. um daginn.

15. janúar 1849

Sama veður. Eg sat við skriftir. Hjalmarsen var hér um kvoldið og setti horn á bak mitt; mér vill ekki batna veiki mín.

16. janúar 1849

Norðan frosthrið. Eg skrifaði, gékk spölkorn og var skárri í baki.

23. janúar 1849

Sunnan frostgola, Eg byrjaði að smíða Gangstól handa Hannesi litla, skrifaði um kvöldið. Eg hef nú mikin bjúg á fótum og eru þeir nú farnir að verða sárir. Mér varð ílt um nóttina fékk mikil uppköst.

24. janúar 1849

Logn og mikið frost. Eg var að smíða stólin um dagin, skánaði velgjann fór að drekka Einirseiði. Havstein reið útí Túngu og B. Skúlason og Hjalmarsen.

31. janúar 1849

Sunnan froststormur, eg skrifaði um dagin og kastaði upp eða gérði uppkast til nokkurra embættisbréfa. Nú er góð tíð og gott færi, jörð snjólaus. Heilsufar mitt er lítið betra enn að undanförnu, jeg drekk nú nýmjólk á morgna í kaffe stað, og Einirsseiði við þorsta, brúka nú sem stendur eingin önnur læknismeðöl. Eg informera nú á hverju kvöldi Guðrúnu Asbjornd í skrift og líka Gísla hér, bæði þau eru mikið ílla að sér, og öldúngis ólesandi á skrift alla og fer þessvegna lítið fram.

4. febrúar 1849

Logn og hægt frost. Sýslum. og fl. riðu yfir Fljót að Ass kirkju. eg komst ekki með vegna hestleysis, treysti mér ekki að gánga fyrir vesöld - var órólegur - lángaði til að eiga hest - fór að lesa “Steppen„ (eptir Coper).

5. febrúar 1849

Sunnan hláku vindur, eg var að fást við koffortin, og að revidera hreppsgjörnínga. Hjálmarsen hvatti mig til að halda áfram að drekka einirseiði.

21. febrúar 1849

Sunnan frostgrimd. Eg skipti búum þessa daga hef eg valla gétað lifað fyri kulvísi, þrátt fyrir mikin klæðnað og í dag hafði eg fremur venju verk undir síðunni og fyrir öllum bríngsbölunum, leingi hefir mér fundist uppþemba og útþensli neðan við bríngubriókið og þar yfirum mig sem eg held að egi skylt við bakveiki mína. Máske eg sé fullur af meinlætum. [...]

28. febrúar 1849

Sunnan frostgrimd, Eg sat við að afskrifa “skýrslurnar um afgjald jarða„ Hjálmarsen kom hér og grannskoðaði bringsbalir mínar og fann þarundir einhvorja meinsemd, þar sem eg finn til sársauka þegar stuðt er á. Nú hefir um tíma verið mjög frosta mikið, og hefir heilsufar mitt ekki unnið við það, einkum að sitja í kuldanum.

1. mars 1849

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg afskrifaði skýrslur, og bréf um skipti, gékk til rjúpna með Havstein þoldi það ílla, við sáum einga. Mjer leiðist nú eptir pósti; leiðist lífið, og hræðist heilsuleysi mitt, er þúngsinna og “aandsfraværende„ hef hér eingann stallbróðir, eingann trúann vin, sem eg géti látið í ljósi þánka mína; vantar hér alla þá umhyggju og notalegheit, sem einúngis móðurkjærleiki er í standi að veita, og sem eg þó nú vegna heilsufars míns meðþarf. Kjör mín annars öllum vonum betri.

12. mars 1849

Norðan hríð. Eg skrifaði. Hér kom prestur Benid. á Asi með konu sinni, og fl. Eg fékk frá Hjalmarsen

a. Dropa að inntaka stöðugt 50 dropa 3var á dag.

b. Dreifandi plástur að leggja yfir bríngsbalagúlin með Champhóru að bera á plásturin á vikna fresti.

c. Stibiat-salve að leggja yfir hornfarið það í gjær og þegar ég ekki þyldi það leingur, þá:

d. Gummí plástur að leggja yfir brunann.

Eg byrjaði að brúka meðöl þessi; háttaði kl.6. og la því salveð sveið ákaflega.

13. mars 1849

Stilt veður og logn. Eg hafði nokkra þjáníngu af brunanum, fékk um kvöldið köldu flog og beinverki var mikið íllt um nóttina.

14. mars 1849

Sunnan gola og sumar bliðviðri. Eg lá í rúmi um dagin vegna pínu fyrir lífinu undir Dreifandi plastrinum. Hannes litli kom fyrst undir bert lopt.

15. mars 1849

Sama veður. Eg var dalítið skárri, gat verið á felli og skrifaði smavegis.

16. mars 1849

Sunnan hlívindi jörð mikið auð. Eg skrifaði ýmisl. það fór að grafa undir Gummi nl. eptir Stibíat-salved. Havstein sýndi mér mikið blíðlindi og vorkunsemi.

31. mars 1849

Austan hlíinda gola og skuggalegt lopt. Eg negldi saman nokkra brotna stóla, og skrifaði bréf mín til norðurlandsins. Mánuður þessi hefir verið mæta góður að veðráttufari, enn heilsufar mitt heldur breittst til hins lakara.

9. apríl 1849

Sama veður. Eg var heima fékk frá Hjálmarsen aptur dropa til að taka inn 3ar á dag 50 í einu.

18. apríl 1849

[...] Allan þennan vetur hef eg verið þjáður af heilsubresti, og finnst mér enn nú mesta tvísýni á, hvört mér muni batna aptur eða ekki, annars benda líkur til þess, að sjúkdómur minn muni mig fyrri eða seinna til dauða draga, og er það meiníng mín nú sem stendur. Læknirshjálp og læknirsmeðöl hefi eg nú stöðugt brúkað nærfelt í heilt ár.

30. apríl 1849

Sunnan hvassviðri. Eg var að smíða rúmin og skaut til álpta, er nú mikið vesæll í baki og hef jafnaðarlega verki og uppþembu innanum mig, samt bjúg á fótum og bláa blóðþrimla um þær allar og verk og ableysi að auki.

11. maí 1849

Norðan gola og gott veður; Eg byrjaði skriftir snemma, og sat við þær til nætur. Jarðir voru vyrðtar í Túngu. Við vórum dagin og nóttina á Kyrkjubæ í góðum fagnaði, nema hvað eg þjáðist af verk fyrir bríngsbölum og ableysi í öllum kroppnum. Skipsskjöl fyrir “Thingöre„ vóru híngað send frá Vopnafyrði til áteiknunar; með henni kom nú Sigfús Pálsson frændi minn fra Kmhöfn heim til Kétilsstaða í Hlíð.

12. maí 1849

Sunnan gola og sólskin. Eg sat við að innfæra í jarðamatsgjörðabókina til kl. 2 em. Við fórum á stað frá Kyrkjubæ um miðaptan og náðum háttum heim til okkar; ég var nokkuð lerkaður eptir ferðina og hef nú jafnaðarlega mikil verkjartök innan um mig, og finnst mér að meinlæta gúllinn neðan bríngubrjóskið sé alltaf að vaxa; jeg þoldi öldúngis ekkert að gánga í ferðinni enn vel að ríða. Fætur mínir hafa leingi verið, rauð- og bláfekkóttir af einhverri spillíngu í blóðinu (:variös) enn af þeim hvarf bjúgurinn nú í ferðinni.

14. maí 1849

Norðan rosa veður með hríð og kulda. Eg sat við að skrifa útskrift af jarðamatsbókum Norðurm. sýslu. Havstein reið að Egilsstöðum á uppboðsþíng sem haldið var eptir Mdme Beldríng. I dag óx bjugur feikilega á fótum mínum uppundi kné og er mikill klaði í honum. Eg bjó til eptir fyrirsögn Hjalmarsens einskonar Sápuspiritus (:grænsápa Brennivín og terpentínolía samanblandað:) til að maka með fætur mínar.

17. maí 1849

Norðan kulda stormur. Eg reið með Havstein uppí Fljótsdal, við töfðum á Vallanesi og Hrafnkélsstöðum og gystum á Valþjófsstað. Eg var óseiganlega vesæll af innvortis pínu.

18. maí 1849

Sama veður, mikil næturfrost eru nú. Manntalsþíng var haldið á Valþjófsstað. Prófastur þar Sra Stephán talaði um veiki mína og gaf mer dropa til nestis sem linuðu verkin í bráð. Við riðum af þíngi út Fljótsdal, töfðum á Arnheiðarstöðum heldum að Ási í Fellum og gystum þar.

19. maí 1849

Norðan kulda veður. Manntalsþíng var haldið á Asi. Við riðum að þínglokum yfir Skeggjastaðaheiði og náðum að Hofteigi á Jökuldal um háttatíma og gystum þar; þurftum að kaupa hey handa hestum af öðrum bæum. Nú vestnar veiki mín við ferðalagið.

28. maí 1849

Sama veður. Eg sat allan dag af kappi við skriftir fyrir húsbónda minn; hann afgreiddi mér kaup mitt í dag, það sem eptir stóð óborgað nl: 30rbd og var það eins og það sem hann áður hafði afgreiðt mér allt í peníngum. Jeg fór að jeta fíflarætur eptir ráðum próf. Sra Stefáns á Valþjófsstað mér til ímindaðs heilsubætis. Þessir hátíðardagar fundust mér mjög óskemtileigir.

2. júní 1849

Sama veður þó lítið mildara. Eg lauk við að skrifa það sem eg hafði til, og skipti ýmislegu fræi sem útbýtast á um sysluna. Nú er ég mikið vesæll og fara veikindi mín alla jafna vestnandi.

4. júní 1849

Hafgola og sólskin, hlítt veður. Eg var mestallann dag niður við Skipakíl að géra við “Pram„, skaut 3 hlávellur; gat næstum ekkert geyngið fyrir kvöl í bakinu og ableysi.

5. júní 1849

Norðan kulda gola og sólskin. Eg hjálpaði til að spila í kríngum dálítin garð, bikaði Pram og reið svo um kvöldið að Höfða til að tala við Hjalmarsen um veikindi mín, og gat ég það í góðri ró; ég sannfærðist nú um, að í mér væru meinlæti, sem væru að grafa við þindina og lifrina aptur við hrigginn, og sem orsökuðu alla mína veiki. Hjalmarsen fann við áþreifíngu lifrina í mér að vera mikið bólgna, og búnga var komin öðrumegin hriggjarins á bakið þar sem verkurinn er, og þar æðarnar mjög uppblásnar, hélt læknirinn að meinlætin mundu þar grafa út; sagði hann að í mér væru víst 10 merkur af greftri; hann sýndi mer ýmsar mindir af ýmislegum pörtum likamans sagði enn framar að mér væri ekki til neins að brúka innvortis meðöl, enn lofaði mér plástrum til þess að flýta ígjerðinni og til að draga hana út sem fyrst.

Jeg hugsa nú mikið um að fá mig lausann héðan, og að komast til Norðurlands áður enn meinsemd þessi leggur mig algjörlega í rúmið eða verður mér að bana. [...].

 

Orðskýringar:

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mark

S: skildingur

1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar

spec.: spesía, dönsk mynt sem var í notkun á 17.–19. öld

BF: bréf frá

BT: bréf til

m.m.: mamma mín

ETK: ekki til kirkju

TK: til kirkju

Að hefla: vinna með hefli, slétta

Nót/nætur: stórt fiskinet

Jóðsótt: byrjun fæðingarhríða

Rentukammer: danska fjármálaráðuneytið

Fleiður: meiðsli þar sem húð hefur hruflast

Heimild: 

Þórdís Kristinsdóttir. „Getið þið sagt mér hvernig sullaveikin smitast, breiðist út, meðferð við henni og einkennum?“ Vísindavefurinn, 26. september 2012. Sótt 29. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62075.