Fara í efni
Menning

Tími kominn til að Icelandair taki skrefið

Arnheiður Jóhannsdóttir á Vestnorden í Íþróttahöllinni á Akureyri. Mynd: Þorgeir Baldursson

„Það er ekkert því til fyrirstöðu að Icelandair geti hafið beint flug til Akureyrar erlendis frá. Nema pólitískur vilji,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Hún var ein af 550 gestum tengslaráðstefnunnar Vestnorden, sem var haldin í fertugasta sinn í vikunni, að þessu sinni í Íþróttahöllinni á Akureyri.

„Við finnum það sterkt hérna á Vestnorden, það eru margir aðilar sem hafa beðið lengi eftir því að fá beina tengingu norður. Sem dæmi má nefna mikið ákall frá Danmörku, Þýskalandi og Frakklandi og það er almennt aukinn áhugi á ferðum til Norðurslóða. Við hérna fyrir norðan gætum mætt þessum áhuga, og meira til,“ segir Arnheiður við blaðamann Akureyri.net.

Það er bara kominn tími á að við fáum að sjá Icelandair taka þetta skref, að fljúga hingað beint erlendis frá

„Vestnorden er gamalgrónasta kaupstefna ferðaþjónustunnar sem er haldin á Íslandi,“ segir Arnheiður, en hún segir mikla ánægju vera meðal gesta um viðburðinn í ár, og mikill kraftur í ferðaþjónustunni á landsvísu. Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA) standa að Vestnorden, en samtökin eru samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Annað hvert ár er Vestnorden haldin á Íslandi og hin árin á Grænlandi og Færeyjum til skiptis. 2018 var síðast komið saman á Akureyri.

 

Tengslaráðstefnur á borð við Vestnorden eru frábært tækifæri fyrir ferðaþjónustuna til þess að vera í samtali við stjórnmálafólk. Eflaust hafa einhverjir minnst á Akureyrarflugvöll við þessa þingismenn kjördæmisins; frá vinstri, Jens Garðar Helgason, Ingibjörg Isaksen, Þórarinn Ingi Pétursson, Sigurjón Þórðarson og Njáll Trausti Friðbertsson. Mynd: Þorgeir Baldursson

Tengingar styrkjast með ári hverju

„Hér koma kaupendur alls staðar að, og við sjáum gömul og góð viðskiptasambönd treystast á hverju ári á Vestnorden,“ segir Arnheiður. „Fólk er farið að þekkjast mjög vel og það má eiginlega ekki missa af því að mæta hér, ef þú starfar í ferðaþjónustu. Það er þó þannig, að það er takmarkað pláss og það komust því miður færri að heldur en vildu, af norðlenskum fyrirtækjum. Það þarf að tryggja sér pláss snemma.“  

„Hér er bæði samkeppni milli aðila og samvinna,“ segir Arnheiður. „Það er til dæmis mjög gaman að sjá, að böðin þrjú fyrir norðan - Skógarböðin, Sjóböðin og Jarðböðin eru að blása til sóknar saman, og sjá sér hag í því að markaðssetja sig í takt. Við erum alltaf að vinna að því saman, að þróa áfangastaðinn Norðurland sem heild. Það hafa allir hag að því.“

 

T.v. Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, ávarpar gesti á viðburði Vestnorden í Hofi. T.h. Höllin var undirlögð af kaupendum og seljendum í ferðaþjónustu, fyrir svokallaða B2B (business to business) fundi. Myndir: Þorgeir Baldursson

Framtíðin björt fyrir norðan

„Það er þörf og vilji fyrir samstarfi í ferðaþjónustu á Norðurlandi, en við hjá Markaðstofunni höfum verið að aðstoða sveitarfélög við að útbúa stefnu í málaflokknum,“ segir Arnheiður. „Við komum inn þar sem okkar er þörf og óskað er eftir aðstoð. Framtíðin í ferðaþjónustu á Norðurlandi lítur mjög vel út, það er kominn góður og traustur grunnur af litlum og stórum fyrirtækjum með fjölbreytta þjónustu.“

„Það er ánægjulegt að sjá að það eru miklar fjárfestingar í gangi, þrjú stór hótel í byggingu og enn fleiri sem eru í startholunum,“ segir Arnheiður. „Það er líka aukinn kraftur í markaðssetningu, samstarfsverkefnum, vöruþróunarvinnu og ferðaskipuleggjendur eru samstilltir í að bæta við vetrarferðaþjónstu sem er alveg nýtt.“ 

 

Hluti dagskrár Vestnorden fór fram í Hofi, en hér eru Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknar, Þórgnýr Dýrfjörð og Ásthildur Sturludóttir hjá Akureyrarbæ og Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Mikil orka í beina flugið

„Við höfum verið að leggja mikla áherslu á að fá fleiri erlenda aðila til þess að fljúga beint til Akureyrar,“ segir Arnheiður. „Bæði leiguflug og reglulegt flug. Við erum að reyna að fá easyJet til þess að lengja tímabilið sem þau fljúga hingað, og bæta sumrinu við. Svo viljum við fá Icelandair til samstarfs við okkur líka. Við köllum svolítið eftir samfélagslegri ábyrgð í uppbyggingu þar, að koma inn með flug, hvort sem það eru tengiflug við Keflavík eða bara beint hingað.“

„Það er alveg ljóst að það eru farþegar sem myndu nýta sér beina tengingu, til dæmis í gegn um Kaupmannahöfn. Við myndum fylla vélar,“ segir Arnheiður. „Svo er gott að benda á að það er ekki bara ferðaþjónustan sem myndi njóta góðs af þessu - Sjávarútvegurinn, hugbúnaðargeirinn, matvælaframleiðsla, svo eitthvað sé nefnt, þurfa líka að hafa góðar tengingar erlendis.“ 

„Það er bara kominn tími á að við fáum að sjá Icelandair taka þetta skref, að fljúga hingað beint erlendis frá,“ segir Arnheiður að lokum.