Til London á rúm þrjú þúsund á Þorláksmessu
Þegar skammdegið stendur sem hæst á Íslandi leitar hugur margra í suðurátt þar sem sólin skín glatt yfir vetrarmánuðina. Akureyri.net rýndi í verð hjá easyJet og komst að því að auðveldlega má komast til bæði London og Manchester fyrir nokkur þúsund krónur í beinu flugi frá Akureyri. Þaðan má svo auðveldlega koma sér áfram á aðra áfangastaði.
Fyrir þá sem dreymir um að stinga af um jólin þá er t.d hægt að fá miða á Þorláksmessu til London á 3.300 krónur (20 pund) og eins til Manchester á 5.200 krónur (31 pund).
Enn ódýrustu sætin í janúar og febrúar
Þegar vetraráætlunin fór í sölu í vor, eins og Akureyri.net greindi þá frá, voru allra ódýrustu flugmiðar félagsins í boði í janúar en þá var hægt að kaupa miða út bæði til London og Manchester allt niður í 12 pund eða á 2000 kr. á nokkrum dagsetningum.
Ef rýnt er í verðtöfluna eins og hún er í dag er enn hægt að finna ódýra miða til Manchester bæði í janúar og febrúar niður í allt að 17 pund. Ódýrustu miðarnir til London Gatwick eru líka í boði í janúar og febrúar eru dagana 24. janúar og 7. febrúar en þá fást miðar á 16 pund eða á 2.677 krónur.