Fara í efni
Menning

Sveinn: Sjóskrímsli, dulsmál og Pereat

Í dag birtist 13. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar en héðan í frá verða birtar færslur annan hvern fimmtudag. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:
_ _ _

Dagbækur Sveins Þórarinssonar innihalda ekki aðeins sögur af Sveini og þeim sem honum voru nánastir, heldur líka allskonar slúðursögur af fólkinu og öðrum verum í sveitinni. Hann hefur líklega heyrt margar þeirra, sérstaklega þær viðkvæmustu, vegna stöðu sinnar sem skrifari hjá Pétri Havsteen. Hér er hægt að lesa nokkrar af þessum sögum, menn drukknuðu í ám, skólapiltar við Lærða skólann gerðu uppreisn gegn rektor, maður var kærður fyrir að sverta mannorð annars manns í illyrðamáli, hangikjöti var stolið og kona eignaðist barn utan hjónabands sem fannst síðan látið. Það er áhugavert að Sveinn hafi skrifað þessar sögur niður og þær gefa okkur öðruvísi sýn á lífið í sveitinni á þessum tíma en aðrar dagbókarfærslur. Athugið að orðskýringar og skýringar á skammstöfunum eru aftast í færslunni.

Sjóskrímsli á Fagrabæ

29. desember 1847

Sunnan froststormur. Eg sló upp skilrúmi í pakkhusinu og kjembdi um kvöldið. Friðrik Jafetsson var hjer. Sjóskrímsli er sagt að þrisvar hafi sjest á Fagrabæ í vetur.

Illyrðamál

21. mars 1850

Sunnan þíðvindi. Eg sat við skriftir. Domur var - 19 þ.m. - uppsagður í íllyrðamáli Halldórs Pálssonar, 10rdl sekt til Breiðdals hrepps fátækrasjóðs, og 16rbd í málskostnað, og íllyrðin (:að Sigríður og Gísli bóndi mágur hennar “hegðuðu sér sem lóða hundar) dæmd öldúngis ómerk. (:Halld. kannaðist aldrei við orð þessi, enn vitni sóru þau á hann, og þókti hann því sannur að sök, samkvæmt lögum.)

6. apríl 1850

Logn og blíðviðri. Eg járnaði hest snemma morguns, skrifaði passa “Schemater[?]„ og þíngboð samt skipti búi. Eg varð var við að Hjalmarsen væri að semja mikið skjal um verzlunarfélag. Híngað frettist að laugard. fyrir páska hefðu orðið miklir fjárskaðar í Geithellnahrepp, það hrakti í sjó og framaf björgum, að Halldór Palsson hefði týndst ofanum ís í vatn áðuren honum varð byrtur dómurinn útaf íllyrðunum og að 4 menn úr Tungu og Hlíð hefðu orðið úti á leið til Vopnafjarðar.

Pereat Lærða skólans

17. apríl 1850

Norðan fúlviðri og fjúk um kvöldið. Eg skrifaði ýmislegt og gerði að klifsöðli. Oddur póstur Sverrisson kom að sunnan um kvoldið. Eg fékk bre BF Egli Jónssyni í Reykjavík og 2 exx af landstíðindum, líka bað hann mig að selja bækur. Frettist upphlaupið úr skólanum, milli Rectors og pilta - að þeir hrópuðu opinberlega yfir honum Pereat (drepist hann) og að hann hefði siglt með póstskipi. Líka að skrillinn væri æfur við dómkirkjuprestinn fyrir það hann talaði lágt m.fl.

Handleggur tekinn af manni

24. maí 1851

Suðaustan kulda gola. Eg sat við að journalisjera og fleyra að skrifa. Johnsen læknir kom heim utanaf Flateyardal. Hallgrímur ýngri í Vík hafði skotið sig gegnum handlegginn og varð að saga han af ofan olboga. Læknirinn skrifaði hvatabréf til að géfa honum og var því vel tekið. Eg gaf 1rbd

Maður fyrirfór sér

20. júní 1851

Sama veður. Eg sat við skriftir. Þjóðfundarmenn og fl. komu að austan. Sra Jón var hér og mikið mannastapp. Eg frétti lát A. Þórðarsonar, (hann drekkti sér í á neðan Fremstafell trublaður í geði). Eg sókti straks munnl. um umboð hans og bað Amtm. mig grátandi að hyggja af því og yfirgéfa sig ekki en lofaði mér ábúð á Friðriksgafu og öllu góðu gaf mer einnig hönd sína uppa það að veita mér næsta umboð sem losnaði.

Dulsmál á Þrastarhóli

29. desember 1853

Sunnan froststormur. Jorð auð að mestu. Eg sat við skriftir. Síra Hákon Espólín kom hér. Sagt er hann eyi óljétta kvensnipt á Þrastarhóli.

20. janúar 1854

Sunnan frostlaus gola. Eg lét sækja 2 æki af Taði að Djúpárbakka. sat við skriftir, fekk BF Þorl. í Fornh. um að vinnukonu væri að fá í Stórubrekku, gékk þángað um kvöldið og talaði vistarráð af henni. amtmaður reið útá bæi. Eg borgaði Danjelson 50rd skuld. Kom upp kvis um að vinnukona á Þrastarhóli hefði fæðt í dulsmáli, (sú sama er sögð hefir verið óljett eptir Sra Hákon).

22. janúar 1854

Sunnan hvassviðri og mesta hláka. Ekki messað. Barnið sem vinnukonan á Þrastarhóli hafði fæðt í dulsmáli fannst í dag um lesturinn af vinnumanni Profast í traföskjum í kistu hennar, og var því strax sendt til sýslumanns. Profastur og hreppstjóri komu her að ræða um þetta tilfelli.

23. janúar 1854

Sunnan froststormur. Eg sat við skriftir. Sýslumaður Briem og læknir Johnsen komu híngað um kvoldið og vóru hér um nóttina, til að taka fyrir dulsmálið á Þrastarhóli á morgun.

24. janúar 1854

Sama veður. Eg var við skriftir. Dulsmálið var fyrirtekið í dag, og fór læknirinn heim til sín um kvöldið eptir að hann hafði skoðað barnslíkið og fyrirtekið “Lungepröve„.

Kristin Bjartmarsdóttir meðgékk að hún hefði laumast á fætur um nótt og alið barnið fram í eldhúsi og það þá verið lifandi, en dáið strax eptir fæðínguna, að hún þá hafi vafið það innaní svuntugarm og látið það í kistu sína og hafði hún geymt það þar í manuð. Briem var hér um nóttina og nokkra daga á eptir að afgreiða skýrslur sínar.

Hangikjötsþjófnaður á Víkingavatni

22. janúar 1865

Sunnan frostgola 16° og bjartviðri. messað. lagt í kirkjuofn. Eg skrifaði smávegis fyrir mig. Frettist um mikin hangikjötsþjofnað á Vikingavatni. Baldvin frá Skjaldarvík var hér við kirkju. Friðrik veikur.

Maður drukknar í Hörgá

24. júlí 1865

Logn og mikill hiti. Steph. Sýslum. fór í þing útí Firði og svo vestur. I dag var ös mikil í kaupstaðnum og borguðu nokkrir klausturlandsetar gjöld sín. Friðrika í Garði kom hér. Við k.m. gengum til frú Schulesen og keypti eg af henni gólfteppi á 9rd 2m gardinur á 5rd. K.m. fekk skamel gefins. Frakkar solluðu í nótt, en fóru snemma í morgun. Clausen, Johan Thorarensen og Ferdinand komu. Eg seldi Sigurbirni yfirfrakka f. 4[?]rd. Borgaði Daníel í Sponsgerði 26rd uppí meðgjöf, með Bjorgu Jóhannsd. I dag drukknaði Einar á Laugalandi í Hörgá.

Maður drukknar í Búðargilslæk

15. desember 1865

Sunnan hvassviðri með hláku og rigningu. Hús láku mjög. Eg sat á kontórinu. I morgun drukknaði J. Mohr í buðargilslæknum. Vatnavextir urðu fjarka miklir og dæmalausir.

Orðskýringar

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mörk

1 ríkisdalur/ríkisbankadalur = 6 mörk = 96 skildingar

BF: bréf frá

BT: bréf til

K.m.: kona mín

Skríll: siðlaus múgur

Dulsmál: barnsfæðing á laun

Trafaskja: hand. askja til að geyma í lín (einkum höfuðbúnað kvenna)

Skamel=skammel: Annað hvort 1) lágt sæti, skemill eða 2) skaft í vefstól sem stigið er á þegar ofið er

Kontór: skrifstofa