Fara í efni
Menning

Starfsmaður á Hlíð smitaður – tvær deildir lokaðar

Dvalarheimilið Hlíð á Akureyri.

Íbúar tveggja deilda á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri eru komnir í sóttkví eða smitgát ásamt nokkrum starfsmönnum, vegna smits sem greindist hjá einum starfsmanni seinni partinn í gær, föstudag. Um er að ræða Furu- og Víðihlíð og verður lokað fyrir allar heimsóknir þangað til og með 4. október. Þá lýkur sóttkví að því gefnu að enginn greinist jákvæður í sýnatöku þann dag.

Viðbragðsáætlun var virkjuð í gærkvöldi og fyrirmælum rakningarteymis fylgt í hvívetna. Þetta er í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst sem smit hefur áhrif á starfsemi hjúkrunarheimila Heilsuverndar, sem rekur bæði Hlíð og Lögmannshlíð. Hingað til hefur enginn íbúi heimilanna tveggja smitast.

Búið er að upplýsa alla íbúa og verið er að hafa samband við aðstandendur þeirra, skv. upplýsingum frá Heilsuvernd.

Aðgerðir á Víði- og Furuhlíð hafa ekki áhrif á starfsemi annarra eininga Heilsuverndar hjúkrunarheimila þar sem lífið gengur sinn vanagang. Þar eru heimsóknir leyfðar en vegna fjölgunar smita undanfarna daga á svæðinu er þeim tilmælum beint til aðstandenda að þeir takmarki heimsóknir.

Óæskilegt er að óbólusett börn og ungmenni kom í heimsókn að sinni, vegna mikillar fjölgunar smita í þeim aldurshópi í bænum síðustu daga.

Rúmlega 500 í sóttkví

Samkvæmt upplýsingum frá embætti lögreglunnar á Norðurlandi eystra voru 26 smit í umdæminu í gær, eftir að tölur voru uppfærðar, þar af 25 á Akureyri. 

Langstærsti hópurinn eru grunnskólabörn; í umdæminu eru nú 54 smitaðir, þar af eru 32 þeirra börn, 12 ára og yngri. Þá eru rúmlega 500 manns komin í sóttkví.

Ekki er vitað um uppruna smitanna, segir lögreglan, en ljóst er að þau eiga tengingar inn í marga hópa í samfélaginu, ýmist félagsstarf, íþróttir og skóla.