Fara í efni
Menning

„Þorparinn“ Sævar einn þeirra sem gera Storm

Sævar Guðmundsson, leikstjóri og einn af aðalmönnunum á bakvið þáttaröðina Storm.

Einn af aðalmönnunum á bakvið þáttaröðina Storm sem sýnd er í Sjónvarpinu á sunnudagskvöldum þessar vikurnar er Akureyringurinn Sævar Guðmundsson, leikstjóri. Sævar og félagi hans, Jóhannes Kr. Kristjánsson, hófu að fylgja þríeykinu svokallaða nánast frá því að heimsfaraldur covid-19 barst til Íslands. 

Sævar hefur starfað lengi í kvikmyndabransanum, komið að gerð sjónvarpsþátta, kvikmynda, auglýsinga og alls konar. Hann stofnaði eigið fyrirtæki 2010 og nýjasta ævintýrið er átta þátta röð með sögum úr heimsfaraldri.

Heimatilbúinn hasar vinahópsins

Kvikmyndabakteríu Sævars má rekja aftur til tíunda áratugs liðinnar aldar þegar hann og vinahópurinn réðust í þau stórvirki að framleiða hasarmyndir á Akureyri. Á árunum 1992-1996 gerðu þeir nokkrar myndir sem Akureyringar á þessum tíma muna margir eftir enda hugsuðu þeir stórt, höfðu mikið af hasar og áhættuatriðum í myndunum og sýndu þær í Borgarbíói og Nýja-bíói og svo um allt land.

Jóhannes Kr. Kristjánsson, Sævar Guðmundsson, Heimir Bjarnason og Víði Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs Ríkislögreglustjóra - einn úr þríeykinu margfræga.

„Við byrjum þarna nokkrir strákar, í Þorpinu, að búa til stuttmyndir, og síðan þróuðum við það aðeins lengra í VMA og fórum að gera hasarmyndir, sem við sýndum í bíó,“ segir Sævar þegar Akureyri.net spyr hann út í upphafið að ferlinum. Hópurinn kallaði sig Filmumenn og gerði myndirnar Spurning um svar, Skotinn í skónum, Negli þig næst og GAS. Svo skemmtilega vill til að á Akureyrarvöku síðastliðið sumar, á 30 ára frumsýningarafmæli fyrstu myndar Filmumanna, voru þessar myndir sýndar í Hofi ásamt því að gestum gafst kostur á að koma með spurningar til aðstandenda myndanna.

Hæg heimatökin

Hvaðan kom þá bakterían? Var eitthvað sérstaklega frjór jarðvegur fyrir þetta efni þegar þeir voru að fikra sig áfram í kvikmyndagerð á tíunda áratugnum?

„Ég veit það ekki. Okkur fannst bara eitthvað gaman að gera hasar-stuntmyndir. Við vorum rómaðir fyrir það að vera með mikið af áhættuatriðum. Og svo þróaðist þetta og maður sá að við vorum að gera betri og betri myndir, þetta varð alltaf betra og stærra. Já, og bara að segja sögur og þetta þróast út í það,“ segir hann.

Foreldrar Sævars eru Gummi P (Guðmundur Pétursson) og Gússa (Ágústa Ólafsdóttir). Kristján Kristjánsson sem byrjaði á öllu þessu kvikmyndabrölti með Sævari er einmitt sonur Kristjáns Péturssonar, bróður Gumma og Ragnheiðar Ólafsdóttir, systur Gússu. Þannig eru systur giftar bræðrum og mikill umgangur á milli og því voru hæg heimatökin fyrir þá frændur að byrja að gera stutt- og grínmyndir af öllum toga strax á unglingsárunum.

Leikstjóranámið

Sævar hélt svo áfram á þessari braut og hefur starfað við sjónvarp og kvikmyndagerð með einum eða öðrum hætti alveg frá þessu kvikmyndavori tíunda áratugarins. Hann er ekki sá eini úr vinahópnum sem starfað hefur á þessu sviði. Hann og Kristján frændi hans Kristjánsson, einn Filmumanna, gerðu til dæmis Venna Páer saman og annar Filmumanna, Gunnar Árnason, hefur starfað mikið við hljóðvinnslu tengda kvikmyndum og sjónvarpi.

Heimir Bjarnason og Sævar Guðmundsson á skrifstofunni þar sem oft var handagangur í öskjunni.

Sævar starfaði hjá Stöð 2 í eitt ár og í framhaldi af því hjá framleiðslufyrirtæki sem bjó til auglýsingar og sjónvarpsþætti, til dæmis Sönn íslensk sakamál og fleiri þætti. Eftir það vann hann hjá Saga film í tíu ár, aðallega við að leikstýra sjónvarpsauglýsingum, en einnig sjónvarpsseríum eins og Stelpurnar og Réttur. Hann stofnaði svo sitt eigið fyrirtæki 2010 og gaf því nafnið Purkur. „Þetta nafn er bara eitthvað og ekkert. Einn dverganna í Mjallhvíti og dvergunum sjö hét þetta, sá sem svaf mest.“

En leikstjóra- eða kvikmyndamenntun? Hvaðan kemur þekking hans á því sem hann er að fást við?

„Nei, þetta er bara reynsla, en ég reyndi samt í tíu ár að komast í skóla á milli tvítugs og þrítugs. Ég reyndi að komast í einn skóla sem er rétt fyrir utan London. Skólinn tók inn einn á leikstjórabraut annað hvert ár, eða það eru fimm teknir inn og af þeim má bara einn vera útlendingur,“ segir hann spurður um menntun í faginu. Þegar Sævar var að byrja í þessum geira var ekkert nám í boði hér á landi.