Fara í efni
Menning

Miklar sóttvarnir og mögnuð tónlist

Sellóleikarar með „alvæpni“ eftir flugið að sunnan á laugardagsmorguninn. Ljósmynd: Skapti Hallgríms…
Sellóleikarar með „alvæpni“ eftir flugið að sunnan á laugardagsmorguninn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Mikið hefur verið að gera hjá SinfoniaNord við að taka upp tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tölvuleiki, á meðan Covid faraldurinn hefur gert listamönnum um allan heim erfitt fyrir. Víða hefur reynst ómögulegt að taka upp sinfóníska tónlist, en þesu sprotaverkefni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, sem Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Atli Örvarsson stofnuðu 2015, hefur verið haldið gangandi af krafti. Þorvaldur Bjarni, tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar, stóð í ströngu ásamt sínu fólki um helgina þegar enn einu verkefninu lauk. 

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson - illþekkjanlegur með grímu - ásamt Árna Sigurðssyni, upptökustjóra. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

„Ótrúlegt en satt, um síðustu helgi var SinfoniaNord að klára 17. kvikmyndatónlistarverkefnið frá því í mars. Og þetta eru engir smá titlar: The Old Guard með Carlize Theron, The Dig með Ralph Finnes, Eurovision með Will Ferrel, Sims-leikurinn, Benedikt búálfur, sjónvarpsserían Riviera, Hitmans Wife Boduguard og fleira og fleira,“ segir Þorvaldur Bjarni við Akureyri.net.

Að mjög mörgu að hyggja

„Eftir að yfirmaður tónlistarsviðs Netflix hafði haft samband við Atla Örvarsson um möguleikana á leyfi fyrir upptökum á Íslandi höfðu Netflixmenn samband við SinfoniaNord varðandi það að finna leiðir til að halda áfram framleiðslu þrátt fyrir fjöldatakmarkanir. Við sökktum okkur í þetta í góðu sambandi við heilbrigðisdeild Netflix og Almannavarnir. Við fundum það skilvirka leið strax í mars að við höfum getað sinnt afþreyingariðnaðnum síðan,“ segir Þorvaldur.

„Leiðin felst í því, í fyrsta lagi, að hljómsveitin – þeir sem ekki búa hér fyrir norðan – ferðast með einkaflugvél sem er sótthreinsuð fyrir flug og er búin þreföldum lofræstibúnaði. Í öðru lagi er Hofi skipti niður í sóttvarnarhólf með aðeins einum inngangi í hvert. Þar tekur fyrirtækið Heilsuvernd við öllum sem hlutverki hafa að gegna og allir eru skimaðir fyrir einkennum. Þá fá allir sína biðstöð með tveggja metra radíus frá öðrum, þar sem hægt er að matast, taka upp úr töskum og þar fram eftir götunum. Þá er loks í lagi að fara í upptökusalinn. Securitas sér um umferðastjórn og Þrif og ræstivörur sjá um að sótthreinsa sviðið milli upptökulota. 40 manna sinfóníuhljómsveit er hlutuð niður í 10 manna hópa og hver eining tekin upp sér. Árangurinn af þessari aðferð hefur verið það góður að sumir efnameiri framleiðendurnir munu jafnvel nota hana á „venjulegum tímum“ – hvað svo sem það er! Að upplifa þetta er svolítið eins og að vera að leika í mynd um Big Brother, því allt þetta eftirlit getur verið þrúgandi.“

Starfsmaður Heilsuverndar hitamælir einn hljóðfæraleikarann áður en honum var hleypt inn á svið í Hofi á laugardaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

 

Hafið þig fengið nýja viðskiptavini á þessum undarlegu tímum?

„Já, marga nýja og heimsfræga viðskiptavini eins og til dæmis hinn margverðlaunaða Timothy Williams sem samdi tónlistina við Guardians of the Galaxy; myndin sem við gerðum með honum heitir Gringa. Þá get ég til dæmis nefnt breska tónskáldið og söngkonuna Sarah Class, Dustin O´Halloran sem er á samningi hjá Deutsche Grammaphone, Francesco Donadello sem vann Chernobyl með Hildi Guðnadóttur og Vince Webb sem sérhæfir sig í tölvuleikjatónlist.“

Mikil búbót

Hve margir taka þátt í einu svona verkefni eins og til dæmis um helgina?

„Með tæknimönnum, öðrum starfsmönnum SinfoniaNord og hljóðfæraleikurunum eru þetta frá 20 til 70 manns sem koma að hverju verkefni. Svo eru það afleiddu störfin eins og samgöngur, hótelrekstur, veitingahús, heilsuvernd og öryggismál. Það er því augljóst hvað þetta verkefni, sem sprottið er af starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í Hofi, er jákvætt fyrir samfélagið hér fyrir norðan. Enn betra er að innkoman af verkefnunum er nær alltaf í nýjum gjaldeyri. Núna þarf þjóðarskútan einmitt verkefni eins og SinfoniaNord!“

Verkefni sem þessi hljóta að vera búbót fyrir tónlistarfólkið og hljómsveitina á Covid tímanum. Engir tónleikar og litla eða enga aðra vinnu að hafa.

„Þetta hefur augljóslega verið búbót fyrir tónlistarmennina því flestir hafa misst að minnsta kosti 50% af verkefnum sínum, en hefur líka verið kærkomin aukavinna fyrir atvinnu tónlistarmenn á venjulegum tímum því verkefnið var komið vel á skrið löngu fyrir Covid. En SinfoniaNord stuðlaði líka að því að bæta eiginfjárstöðu Menningarfélags Akureyrar til muna á erfiðum tímum þar sem Hof, sem mekka viðburða á Akureyri, hefur eðlilega misst nær alla sína viðskiptavini vegna Covid.“

 

Hvað voruð þið að taka upp núna um helgina? Mér heyrðist hvíla mikil leynd yfir því!

„Verkefnið 14. og 15. nóvember er það nýtt að það er leyndarmál hvaða titlar þetta voru en ég get þó sagt að eitt þeirra fjallar um risaeðlur sem gjarnan vilja gæða sér á mannakjöti á 21. öldinni. Svo tókum við upp tónlist í náttúrulífsseríu fyrir breska sjónvarpsstöð og söngleikinn Benedikt Búálf. Framundan er svo að taka upp epíska kvikmyndatónlist Þórðar Magnússonar við stórvirkið Saga Borgarættarinnar. Það verður stærsta verkefni okkar til þessa.“

Þá er í pípunum að taka upp tónlist sem Atli Örvarsson vinnur að fyrir tvær breskar sjónvarpsseríur fyrir börn og kvikmyndina 12 Hours to Distruction sem Þorvaldur Bjarni er sjálfur að vinna að. Það er spennumynd fyrir börn byggð á söguþræði Abbababb eftir Dr. Gunna. „Þannig að við sinnum líka innlendri framleiðslu á afþreyingarefni,“ segir Þorvaldur Bjarni.

Atli Örvarsson stjórnar tónlistarfólkinu í Hofi um síðustu helgi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.