Fara í efni
Menning

Smitrakningarteymi í Háskólanum á Akureyri

Kjartan Ólafsson, stöðvarstjóri þjónustuvers Almannavarna á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Þjónustuver Almannavarna, í samstarfi við Rauða krossinn hefur nú verið opnað í Háskólanum á Akureyri og þar vinna nú rúmlega 30 manns. Rétt fyrir jól var orðið ljóst að fjölga þyrfti í smitrakningarteymi landsins vegna mikillar aukningar Covid-smita í samfélaginu. Þá þegar var ráðist í að koma upp aðstöðu í húsakynnum Rauða krossins; bæði í Reykjavík og norðan heiða.

Fékk starfstilboð á aðfangadag

Kjartan Ólafsson var ráðinn stöðvarstjóri á Akureyri. Hann sagði í samtali við Akureyri.net að hann hefði fengið símtal á aðfangadag þar sem hann var beðinn að taka að sér þetta verkefni. Kjartani finnst, að eigin sögn, gaman að stjórnast og skipta sér af hvernig hlutirnir eiga að vera, svo hann þáði starfið.

Hingað til hafa smitrakningar verið bornar uppi af lögreglu og hjúkrunarfræðingum, segir Kjartan. Ljóst var að verkefnið væri orðið það umfangsmikið að ekki tækist lengur að manna smitrakningu á þann hátt, svo byrjað var á að þjálfa upp fólk úr viðbragðshópi Rauða krossins. Markmiðið er að ná sambandi við alla sem hafa smitast og hjálpa öllum sem mögulega eru útsettir.

Allir lögðust á eitt

Fljótlega var farið að leita að aðstöðu sem hentaði betur en hús Rauða krossins fyrir starfsemina og þar kom Háskólinn á Akureyri inn í myndina. „Þar gekk maður undir manns hönd við að græja þessa aðstöðu fyrir okkur“, segir Kjartan. „Hér voru tæknimenn að vinna milli jóla og nýjárs við að setja upp tölvur svo hægt væri að hefja starfsemina hér sem fyrst.“

Aðferðum við smitrakningu hefur fleygt fram, að sögn Kjartans. Breytingar hafa verið gerðar á tölvukerfinu sem heldur utan um verkefnið og sjálfvirkni er orðin meiri. Nú getur fólk sem smitast til dæmis sjálft skráð ýmsar upplýsingar sem auðvelda smitrakningu gegnum vefslóð sem þau fá senda.

„Ísland er á heimsmælikvarða hvað varðar smitrakningu, hlúa að sjúklingum og draga úr hraða útbreiðslu. „Því meira kraftur í smitrakningu – því opnara samfélag“, segir Kjartan að lokum.