Fara í efni
Menning

Síðasti opnunardagur og listamannaspjall

Margrét Jónsdóttir í Sigurhæðum. Við hlið hennar er Matthías Jochumsson, eins og hún túlkar hann í leirlist sinni. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Laugardagurinn 11. október er seinasti sýningardagur á verkum Margrétar Jónsdóttur leirlistakonu, en hún gerði einstök leirverk í formi persónuskúlptúra og myndaramma, sem hún vann sérstaklega fyrir Sigurhæðir í ár. Hér má lesa umfjöllun Akureyri.net um sýningu Margrétar frá því í vor.

Hlynur Hallsson leiðir listamannaspjall með Margréti kl 13 á þessum síðasta opnunardegi, en verkin verða skoðuð nánar með listakonunni. „Við ætlum að fara yfir málin í samhengi við ljósmyndir, söguskoðun sjálfsmyndir, framsetningu og hlutverk listafólks í samfélaginu,“ segir Hlynur. 

 

Margrét gerði einstaka muni fyrir hvern íbúa hússins. Hér er Ástríður Jochumsdóttir, systir Matthíasar. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Síðasti opnunardagur Sigurhæða

Eftir það gefst gestum og gangandi tækifæri til kynnast Sigurhæðum betur og rölta um húsið, en þennan dag er staðurinn annars líka opinn frá klukkan 9 um morguninn og til klukkan 17 og er þetta seinasti formlega opni dagur hjá Flóru Menningarhúsi í Sigurhæðum í ár.

Enginn aðgangseyrir og öll velkomin, segir í fréttatilkynningu frá Flóru menningarhúsi í Sigurhæðum.