Fara í efni
Menning

Rafmagn í hverfi 6 frá 13–15 á aðfangadag

Fróðleiksmoli frá Minjasafninu á Akureyri

15. desember – Hófleg notkun rafmagns

Ljósunum er stungið í samband og ljósadýrðin færist yfir. Ilmurinn úr eldhúsinu er svo lokkandi. Þar hitnar maturinn á eldavélinni og inni í ofni er steikin eða meðlætið. Í hverju rými logar ljós, oft fleiri en eitt. Dýrðin er dásamleg á meðan rafmagnið helst inni.

Flestir taka rafmagninu sem sjálfsögðum hlut. Skömmtun á rafmagni til heimilishalds var hins vegar reglubundinn veruleiki ótrúlega lengi. Akureyringar fengu rafmagn úr Laxárvirkjun í Aðaldal og varð reglulega rof annað hvort vegna veðurs eða að skammta þurfti rafmagn. Á þessu varð ekki bót fyrr en að byggðalínan var tekin í notkun á árunum 1972-1984.

Það var hluti af jólahaldinu að rafmagnið var tekið af. Allir fylgdust með auglýsingunni frá Rafveitunni sem skipti rafmagninu bróðurlega milli hverfa fyrir jólin. Það þurfti því að skipuleggja vel eldamennskuna á aðfangadag eins og aðra jóladaga eins og auglýsingin frá 1952 ber með sér. Þá var lífið auðveldara ef í eldhúsinu leyndist gaseldavél eða kolaeldavél til vara. Nú eða eiga þriggja brennara steinolíupott. Jólaljósin þurftu alltaf að bíða þess að rafmagnið kæmi á aftur. Alltént voru notendur beðnir um að nota rafmagn hóflega.

Haraldur Þór Egilsson er safnstjóri Minjasafnsins á Akureyri. Fróðleiksmoli frá Minjasafninu birtist á Akureyri.net á hverjum degi til jóla.