Fara í efni
Menning

Opið lengur fyrir Covid próf í dag

Löng röð var klukkutímum saman fyrir utan Covid-sýnatökustað HSN á Akureyri í gær. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Margt var um manninn við starfsstöð Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN) við Strandgötu á Akureyri í gærmorgun. Fólk beið hundruðum saman eftir að komast í Covid-sýnatöku, svokallað PCR próf, og þótti ýmsum nóg um. Dæmi eru um fólk sem beið í eina og hálfa klukkustund í röð utandyra og hrósaði happi að veðrið var þokkalegt.

Foreldrar sem höfðu samband við Akureyri.net lýstu óánægju með fyrirkomulagið og veltu fyrir sér hvort ekki væri hægt að boða foreldra  og börn í smærri hópum, á mismunandi tímum.

Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSN, segir að vel hafi gengið í Strandgötunni til þessa en vegna fjölgunar smita og hve margir séu að losna úr sóttkví hafi álagið verið sérstaklega mikið í gær – það mesta frá upphafi.

Guðný segir að opið hafi verið í PCR frá klukkan 9 til 11 og í hraðpróf frá 11.15 til 14.00. Í dag, föstudag, verði hins vegar hægt að fara í PCR próf frá morgni til klukkan 15.00.

Töluvert hefur verið um smit á Akureyri undanfarna daga, flestir hinna smituðu eru börn á grunnskólaaldri og hefur skólastarf þar af leiðandi raskast, því margir eru í sóttkví. Á Norðurlandi eystra voru í gær tæplega 130 manns í einangrun og rúmleg 1250 í sóttkví.