Fara í efni
Menning

Ný sýning: Ferðalag um tíma, rými og efni

Þóra Sigurðardóttir, myndlistarmaður frá Akureyri. Mynd: Rakel Hinriksdóttir

Þóra Sigurðardóttir myndlistarmaður býr í Reykjavík, hefur vinnustofur þar og á Nýp fyrir vestan – en er alin upp á Akureyri, þar sem hún bjó í Munkaþverárstrætinu og fór í Menntaskólann. Eftir æskuárin á Akureyri fór hún suður í Myndlista- og handíðaskólann og þvínæst til Danmerkur í áframhaldandi listnám. „Í hundrað ár hef ég svo unnið við myndlist,“ segir Þóra við blaðamann Akureyri.net, en þessi staðhæfing er sannarlega í anda sýningarinnar sem hún er í óða önn að setja upp á Listasafninu á Akureyri þessa dagana.

Hvað eru hundrað ár? Eru það nákvæmlega hundrað ár, eða er það einfaldlega eitthvað sem við segjum, til þess að lýsa löngum tíma? En hvað er tími? Og hvað er rými innan og utan tímans? Og hvar erum við staðsett?

Sýningin Tími – Rými – Efni, tekur einmitt á vangaveltum Þóru um tímans rás, efnið, líkamann og allt þar á milli og meðal. Opnun verður á morgun, laugardaginn 17. maí kl. 15.

 

Þóra við teikningu sína á hörstriga. Mynd: RH

Við eigum ekki að skilja tímann

„Ég vinn með ýmsa miðla sem myndlistarmaður,“ segir Þóra. „Hér vinn ég með teikningu sem grundvöll, skúlptúr, vídjó og prent, og hér eru bara ný verk. Grunnhugmyndin er sú sama, þó að sýningin sé fjölbreytt. Hún fjallar um tíma, rými og efni. Við erum efni, við erum af sama meiði og hlutirnir, dýrin, heimurinn. Tíminn er skrítinn og við skiljum hann ekki þó við hrærumst í honum, enda eigum við ekkert að skilja hann. Hann líður hægt í bernsku og hratt í ellinni. Af hverju fer hann alltaf hraðar og hraðar?“

„Efnið er mér hugleikið líka. Hvernig meðhöndlum við efnið? Efnið í okkur og öllu hinu, Berum við virðingu fyrir því?“

Sýning Þóru býður ekki upp á að gestir rölti um í stefnuleysi, heldur er ein leið inn – fjögur rými eru þrædd í réttri röð – og svo er ein leið út. „Þetta hefur með tímann að gera,“ segir Þóra um uppsetningu sýningarinnar. „Að upplifa tímann í því efni sem þú gengur í gegnum. Það er bara ein leið, eitt ferðalag.“

 

Það kennir ýmissa grasa á sýningunni, en ýmsir hlutir úr myndlistarsögu Þóru koma við sögu. Þessi koparplata var meðhöndluð með ætingu á sínum tíma, og notuð til prentunar. Mynd: RH

Ferðast um ljós og skugga

„Fyrst kemur þú inn í rými þar sem er mikil birta og þar eru teikningar á hörstriga og prent-ætingar á pappír úr bananaplöntum,“ segir Þóra, um ferðalagið í gegnum verkið. „Í næsta rými er mikið pláss og enn meiri birta, og þar er skúlptúr á gólfinu og aftur teikningar og prent-ætingar á veggjum. Svo ferðu úr þessum björtum rýmum inn í myrkrið. Þar er samtíningur frá ýmsum tímum og síðast kemur þú í myrkvað rými með vídeóverki.“

„Mig langar svo að þakka Listasafninu á Akureyri fyrir þetta tækifæri, að fá að setja upp sýninguna mína í þessum ótrúlega fallegu rýmum. Munurinn á þessum stóru ljósfylltu rýmum og þeim dimmu gera mér kleift að draga fram þessar andstæður í ljósi og myrkri,“ segir Þóra.

„Ég er ekki í raun með skilaboð, en það væri óskandi að leiðin í gegn um verkin veki hugrenningar,“ segir Þóra að lokum. „Allt er mjög kunnuglegt ef þú opnar hugann. Sammannlegt, held ég.“ 


Tvær sýningar verða opnaðar á laugardaginn kemur, en auk Þóru verður sýning Heimis Hlöðverssonar margmiðlunarlistamanns, Samlífi, opnuð. Hér má sjá frekari upplýsingar um opnun helgarinnar.