Fara í efni
Menning

Einstök persónuleg upplifun af Kjarval

Jóhannes S. Kjarval í Kjarvalshvammi í landi Ketilsstaða í Hjaltastaðaþinghá, þar sem hann dvaldi öll sumur í yfir 20 ár.
Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafninu á Akureyri klukkan 20 í kvöld, annars vegar samsýning fimmtán alþjóðlegra listamanna, Viðbragð, og hins vegar sýning á teikningum og skissum Jóhannesar Sveinssonar Kjarvals, Undir berum himni.
 
Sýningin Undir berum himni sýnir verk Kjarvals á persónulegan máta með áherslu á listsköpun hans í Kjarvalshvammi, litlum hvammi í landi Ketilsstaða í Hjaltastaðaþinghá, þar sem hann dvaldi öll sumur í yfir 20 ár. „Kjarvalshvammur var ekki heimili listamannsins, heldur dvalarstaður þar sem sköpunin blómstraði í nálægðinni við náttúruna,“ segir Sigríður Örvarsdóttir, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri.
 
„Hér má skynja Kjarval sem vinnandi listamann við upphaf verka sinna, þar sem hann þróaði hugmyndir sínar. Þessar skissur og teikningar sýna jafnvel ferlið sem leiddi til þeirra meistaraverka hans sem við þekkjum svo vel og eru hluti af þjóðararfinun.“
 
 
Eitt verka Jóhannesar S. Kjarval á sýningunni og listamaðurinn í Kjarvalshvammi í Hjaltastaðaþinghá.
Gestir fá að sjá sjaldséð frumdrög, skissur og teikningar og má með sanni segja að þeir fái að skyggnast á bakvið tjöldin, að sögn Sigríðar. Á sýningunni eru persónulegir munir Kjarvals, þar á meðal vinnuáhöld og hattar sem færa áhorfendur nær manninum á bak við goðsögnina. Verkin tengjast nánum böndum hans við Austurland, náttúruna og fólk sem mótaði sköpun hans. Sýningin er unnin í góðu samstarfi við Minjasafn Austurlands sem varðveitir marga muni Kjarvals. „Það er einstakt að gestir geti upplifað þennan merka listamann á svo persónulegan hátt og séð frumdrögin á strigann, vinnuáhöld og jafnvel tjaldið hans sem varpa ljósi á manninn á bak við goðsögnina,“ segir Sigríður.
 
 
Sigríður Örvarsdóttir, safnstjóri Listasafnsins á Akureyri. Til hægri er Laura Ortman, myndlistar- og tónlistarkona af White Mountain Apache-ættbálki í Bandaríkjunum.
Samhliða verður opnuð samsýningin Viðbragð, sem byggir á greinasafninu Creative Responses to Environmental Crises in Nordic Art and Literature. Sýningin fjallar um hvernig myndlist og skapandi greinar geta miðlað tengslum manns og náttúru á tímum hnattrænnar loftslagskreppu.
 
Í sýningunni taka þátt fimmtán alþjóðlegir listamenn:

a Snæfellsjökuls rawlings, Aurora Robson, Bolatta Silis-Høegh, Björg Eiríksdóttir, Camilla Thorup, Hekla Dögg Jónsdóttir, Hildur Hákonardóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Jóna Hlíf Halldórsdóttir, Kristinn Már Pálmason, Laura Ortman, Peter Holst Henckel, Sigga Björg Sigurðardóttir, Sigrún Hrólfsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.
 
Sýningarstjórar eru Auður Aðalsteinsdóttir og Þórdís Aðalsteinsdóttir.
 
Sérstaka athygli vekur Laura Ortman, myndlistar- og tónlistarkona af White Mountain Apache-ættbálki í Bandaríkjunum. Hylli hennar sem fiðluleikara hefur vaxið jafnt en hún kom fram með atriði á Feneyjartvíæringnum á síðasta ári og framundan eru tónleikar í Carnegie Hall næsta vor þar sem hún mun flytja eigin tónlist. Þess má geta að um hana birtist grein í nýjasta hefti tískutímaritsins Vogue.
 
„Ortman býr yfir einstöku sjónarhorni þar sem verk hennar tengja persónulega reynslu við umhverfið í gegnum sambland af tónlist og myndlist. Hún sýnir samspil manns og náttúru með magnaðri framsetningu, sem hentar vel í samhengi Viðbragðs,“ segir Sigríður.
 
Laura Ortman verður með tónlistaratriði á sýningaropnuninni í kvöld og Sigríður hvetur Norðlendinga til að láta viðburðinn ekki fram hjá sér fara. Sýningin er samstarfsverkefni Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Þingeyjarsveit, Specta gallerís í Kaupmannahöfn og Listasafnsins á Akureyri og býðst gestum hér tækifæri til að sjá nýjustu strauma samtímalistar í alþjóðlegu samhengi, eins og það er orðað í tilkynningu frá safninu.
 
 
Viðbragð; verk hengd upp í Ketilhúsinu. Til hægri er verk Bolatta Silis-Høegh sem er á sýningunni.