Fara í efni
Menning

Loksins, loksins; menningu miðlað á ný

Ragnar Hólm á sýningu sinni á Centrum.
Ragnar Hólm á sýningu sinni á Centrum.

Með nýjustu tilslökunum færist töluvert líf í samkomur á borð við tónleika, leikhús og íþróttaviðburði. Enda þótt ekki sé enn hægt að hafa pakkfulla sali fólks munar miklu að geta leyft allmörgum áhorfendum og áheyrendum að njóta þess sem að jafnaði er í boði en hefur ekki verið um langt skeið. Það lifnar yfir tónleikasölunum, leikhúsunum og íþróttasölunum. Nóg komið af þögninni í bili.

Leiklistin mjakaðist af stað fyrir fáum vikum fyrir hálftómum húsum, þar sem fjöldi auðra öryggissæta var jafnan meiri en þeirra sem setið var í. Nú hefur reglum verið breytt og talsvert fleiri geta farið í leikhús en var. Leikfélag Akureyrar sýndi í Samkomuhúsinu gamanleikinn Fullorðin, sem hefur notið vinsælda og mikillar eftirspurnar svo sýningin hefur verið flutt í Hof, meðal annars til að rýma fyrir Benedikt búalfi. Hann verður frumsýndur í Samkomuhúsinu laugardaginn 6. mars og er fyrirfram uppselt á fjölmargar sýningar. Á sama tíma er Leikfélag Verkmenntaskólanns að sýna Grís í sal skólans, Gryfjunni og þeirri viðamiklu sýningu er vel tekið. Þá er Leikfélag MA með splunkunýjan söngleik, Hjartagull, í æfingu og frumsýning er dagsett í Hofi 19. mars. Það er sem sé nóg að gerast allt í einu í leikhúsunum og leikhúsþyrstir geta tekið gleði sína, sem betur fer. Ekki er að efa að leikhúsin í grenndinni taka kipp þegar fleiri mega koma saman en lengi vel var.

Tónlistarheimurinn er einnig að vakna. Gullkista dægurtónlistarinnar, Græni hatturinn, hefur opnað dyr sínar eftir langt hlé og framundan eru fjölbreyttir tónleikar bæði heimamanna og lengra að kominna. Fyrst um sinn verða fámennari hljómsveitir á sviðinu enda áheyrendafjöldi mjög takmarkaður enn, en svo kemur þetta smátt og smátt og stærri kanónur fylla salinn. Stebbi Jak og Hafþór Valur opnuðu staðinn á fimmtudag og föstudag, Helgi og hljóðfæraleikararnir verða með tvenna tónleika í kvöld og Eyvi kemur svo á Græna hattinn 5. mars.

Tónleikadgskráin er að fara af stað í Hofi líka. Fremst er þar að minnast tónleika Víkings Heiðars Ólafssonar, sem áttu að vera á fyrra ári en verða nú um miðjan mars, tvö kvöld í röð, 13. mars klukkan 20 og 14. mars klukkan 15, með Debussy og Rameau og svo í lokin Myndum á sýningu eftir Mussorgsky. Á milli tónleikanna sem frestað var og þessara hefur Víkingur farið um allan heim og leikið listir sínar með tilheyrandi dvöl í sóttkvíum hér og þar, og sópað að sér verðlaunum og viðurkenningum vítt og breitt.

Áður en Víkingur kemur verða í Hofi tónleikar sem kallast Dauðinn, stúlkurnar og strandið, 7. mars klukkan 15.00, en þar verður leikið á hljóðfæri sem Jón Marino Jónsson smíðaði úr viði af skipi sem strandaði við Reykjanes 1881.

Þetta er bara að byrja og gengur vonandi vel. Fari það allt að óskum megum við vænta þess að enn fleiri fái að koma saman og fagna listum, íþróttum og menningu. Kórarnir fara í gang og búa sig undir tónleika auk þess að syngja við messur og aðrar athafnir. Myndlistin fær eins og aðrar listir að taka við fleiri gestum en áður. Listasafnið er opið með fjölbreyttar sýningar og dagskrá, og Ragnar Hólm sýnir málverk á Centrum kitchen og bar.

Þetta er allt að koma.

Sverrir Páll