Fara í efni
Menning

MA-ingar frumsýna Hjartagull í Hofi

Rebekka Hvönn Valsdóttir í hlutverki Míó.

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýnir á föstudaginn Hjartagull, splunkunýjan söngleik sem leikstjórinn, Aron Martin Ásgerðarson, hefur samið og byggt á textum akureyrsku hljómsveitarinnar 200.000 Naglbíta. Hljómsveitin tengist skólanum sterkum böndum því Naglbítarnir, Vilhelm Anton og Kári Jónssynir og Axel Árnason, voru allir nemendur í MA. Axel yfirgaf bræðurna síðar, en það er önnur saga.

Sagan sem Aron Martin hefur sett saman fjallar um Míó, ungt ljóðskáld, stúlku, sem fellur ekki inn í hóp jafnaldra sinna og finnst hún vera utangarðs. Eftir að hún lendir upp á kant við föður sinn út af framtíðarvæntingum hennar svífur hún inn í einhvers konar ævintýraheim og þar kynnist hún litríku Neondýrunum og fylgist með baráttu þeirra við Skuggaprinsinn og börn hans, en þau sækjast ákaflega eftir hinu goðsagnakennda Hjartagulli, sem enginn hefur séð um aldir. Allt er þetta þekkt úr söngtextum Naglbítanna. En í þessari ævintýraför sinni áttar Míó sig smátt og smátt á sjálfri sér og lífinu og hvað það er sem hún þráir.

Hjartagull er söngleikur reyndar fjölskyldusöngleikur, og þar eru flutt fjölmörg lög 200 þúsund naglbíta í splunkunýjum útsetningum. Hlutverkin eru um það bil 20 og þar leikur fólk og syngur við undirleik 13 manna hljómsveitar og þar að auki er hópur dansara, allt nemendur. Útsetningar á tónlist, hljómsveitarstjórn, dansa og sviðshreyfingar gera nemendur sjálfir, en leikstjórar eru utanaðkomandi. Fjöldi nemenda er svo baksviðs, sér um búninga, förðun, hárgreiðslu, sviðsmynd og allt sem því tilheyrir auk þeirra sem sjá um kynningu og markaðssetningu. Hópurinn í heild er um 80 manns.

Sýningar LMA á viðamiklum söngleikjum á undanförnum árum hafa verið einstaklega metnaðarfullar og fallið í góðan jarðveg. Það má gera því skóna að Hjartagull fylli flokk ótrúlegra listsýninga eins og fyrr. Uppselt er á frumsýninguna á Hjartagulli föstudaginn 19. mars en enn eru til sölu einhverjir miðar á sýningar í næstu viku, 25. og 26. mars, á mak.is eða tix.is