Fara í efni
Menning

LMA sýnir söngleikinn Heathers í Hofi

Leikfélag MA heldur áfram á áralangri braut sinni og setur á svið metnaðarfullan söngleik þar sem allt annað en leikstjórnin ein er unnið af nemendum sjálfum, tónlist útsett, æfð og leikin, dansar samdir og þjálfaðir, búningar, förðun og hár, sviðsmynd og allt hvað heiti hefur. Krakkarnir gera þetta.

Að þessu sinni setur LMA á svið bandaríska rokksöngleikinn Heathers, Heiðarnar, sem fyrir fáum árum var verkefni söngdeildar Söngskóla Sigurðar Demetz en er hér í fyrsta sinn á sviði með öllu sem fylgir og með fullu leyfi rétthafa. Höfundar eru Laurence O‘Keefe og Kevin Murphy, sem gerðu söngleikinn 2009 eftir 20 ára gamalli kvikmynd Daniels Waters. Kvikmyndin kolféll á sínum tíma en söngleikurinn eftir henni varð afar vinsæll. Nokkrir hafa komið að íslenskri þýðingu á handritinu, en þar má nefna Karl Pálsson, Orra Hugin Ágústsson og Þór Breiðfjörð, sem allir tengjast söngskólanum fyrrnefnda. Heathers er 73. verkefni LMA og frumsýning er næsta föstudag.

Söngleikurinn Heathers er svokölluð svört kómedía og fjallar um líf í venjulegum amerískum menntaskóla, áhrifamikla og jafnvel hættulega stelpnaklíku í skólanum og tilraunir aðalpersónunnar, Veroniku Sawyer til að komast þar til valda, og eins og vænta má fer allt á annan veg en hún hugsar sér. Þarna verða sannarlega átök og ekki reynist allt fallegt, svo ekki sé meira sagt. Þarna er fjallað um margvíslegan vanda, einelti, sjálfsvíg, ást, vinsældir og útskúfun. Og nú er að sjá hvernig nemendum í framhaldsskóla á Norður-Íslandi tekst að gera þessu skil. Leikstjóri er Elísabet Skagfjörð og henni til aðstoðar Páll Hlíðar Svavarsson, sem hefur komið við sögu LMA á undanförnum árum.

Í sýningunni eru sautján leikarar og söngvarar. Tíu manna hljómsveit leikur í sýningunni, en þær Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir og Hugrún Lilja Pétursdóttir hafa útsett tónlistina og stjórna hljómsveitinni. Dansarar eru tíu talsins en dansa hafa samið og þjálfað þær Birta Ósk Þórólfsdóttir og Bjarney Viðja Vignisdóttir. Fimm manns eru í hár- og förðunarteymi, sjö manns í búningateymi og jafnmargir í markaðsteymi. Að baki þessu er sjö manna stjórn Leikfélags MA undir formennsku Evu Hrundar Gísladóttur. Og þessi um það bil 60 manna hópur sem að sýningunni stendur er á aldrinum 15 til 20 ára.

Sýningarnar fara fram í Hofi og hefjast klukkan 20.00.

Fyrstu þrjár sýningarnar eru komnar til sölu á www.mak.is föstudaginn 11. mars, laugardaginn 12. mars og sunnudaginn 13. mars.