Hver myrti ástmanninn í Edinborg árið 1679?

AF BÓKUM – 35
Í dag skrifar Dagný Davíðsdóttir_ _ _
Mig langar að mæla með bók úr ensku deildinni okkar á Amtsbókasafninu. Það er bókin The Maiden eftir Kate Foster. Sagan er byggð á sannsögulegu sakamáli frá 1679 í Edinborg, þar sem kona var kærð fyrir að verða ástmanni sínum að bana. Bókin er sögð frá tveimur mismunandi sjónarhornum, Christian sem er sú ákærða og Violet sem er vændiskona sem ástmaðurinn átti einnig í sambandi við.
Þrátt fyrir að sagan sé byggð á raunverulegu sakamáli er hún þó skáldsaga í kringum þekktar staðreyndir og þær konur sem við komu sögu. Hún fangar andrúmsloftið í Edinborg vel og hélt mér spenntri með góðu flæði. Hún lýsir líka vel hörmungunum og hversu ósanngjarnt lífið gat verið á þessum tíma.
Ég er mjög hrifin af sögulegum skáldsögum og af „búningadrama“ svo þessi bók hentaði mér vel, ekki verra að fá með þessu svona spennandi morðmál. Mér fannst hún virkilega góð og hún náði mér alveg, mig langaði ekki að hætta því ég vildi komast að meiru um þær Christian og Violet, og hver það var sem myrti manninn.