Fara í efni
Menning

Hélt ég væri eina unga konan í heiminum sem hefði greinst

Verkið Til hamingju með að vera mannleg verður sýnt í Hofi í kvöld, laugardagskvöld, dansverk þar sem samnefnd ljóðabók Sigríðar Soffíu Níelsdóttur öðlast líf á sviðinu. Bókina samdi Sigríður Soffía eftir að hún greindist með brjóstakrabbamein og gekk í gegnum meðferð í miðjum heimsfaraldri. Ljóðabálkurinn er magnaður og oft verulega átakanlegur.

Verkið var sýnt í Þjóðleikhúsinu í fyrravor, hlaut afar lofsamlega umfjöllun og þrjár tilnefningar til Grímuverðlaunanna, og um haustið var sýningin opnunarverk Bleiku slaufunnar, árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins.

Höfundurinn segir verkið fjalla um mikilvægi vináttunnar, um andlegan styrk og um samfélag kvenna sem standa hver með annarri. Hún segir bæði bókina og leikverkið vera ferðalag þess sem greinist með krabbamein, fer í gegnum meðferð og kemur upp hinum megin, eins og hún orðar það.

Verkið fjallar að miklu leyti, segir hún, um fegurðina í lífinu og það að vera þakklátur fyrir smáatriðin.

„Maður áttar sig á því hvað skiptir máli og að maður hafi gjörsamlega verið að misskilja hlutina,“ segir Sigríður Soffía. Það séu margskonar smáatriði sem skipti mestu máli í lífinu. „Þakklætið er til dæmis kristaltært fyrir að geta verið með börnunum sínum og leikið við þau án þess að vera óglatt og líða ömurlega. Það breytir miklu; maður trúir því varla að hafa alltaf pirrað sig á einhverju sem skiptir nákvæmlega engu máli. Núna eru það til dæmis matarboð sem skipta máli, það að eiga góða vini og eiga í nærandi samböndum; mjög margir hafa sagt þetta og mér finnst fyndið þegar maður skilur það allt í einu.“

Sigríði Soffíu, skúffuskáldi frá 12 ára aldri, hefur alltaf þótt skáldskapurinn mjög persónlegur og fannst í raun alveg galið að leyfa öðrum að sjá það sem hún hafði ort. 

Þú yrkir sem sagt um eigin reynslu, fyrir sjálfa þig, en það verður óvart að einhvers konar hjálparbók fyrir fjöldann?

„Ég engdist fyrst þegar ég leyfði öðrum að lesa,“ segir hún um ljóðabókina. En síðan hafi hún glaðst mjög yfir því hve margir tengdu við bókina.

Að geta drukkið kaffi

Sigríður Soffía leggur áherslu á litlu hlutina, ýmis smáatriði eins og hún nefndi áður. Segist til dæmis stundað hafa hugsað: „Djöfull er ég glöð að geta drukkið kaffi.“

Alveg sama hve aðstæður eru erfiðar, alltaf megi finna eitthvað jákvætt. „Þetta kemur fyrir aftur og aftur í verkinu. Ég gat ekki drukkið kaffi í þrjár vikur af því mér var alltaf svo óglatt og þegar ég gat drukkið fyrsta bollann eftir það fattaði ég allt í einu hve mikið ég elska morgna; að vakna í þögn og fá mér fyrsta kaffibolla dagsins,“ segir hún.

Vegna þessa er kaffiblettur á forsíðu bókarinnar.

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fallegur samhljómur

„Maður skilur sársaukann í svo mörgu og líka fegurðina í svona ferðalagi. Lífið er svo áhugavert ef þú sættir þig við allt litrófið; það getur ekki verið gaman nema stundum sé leiðinlegt; ef þú hefur engan kontrapunkt er ekkert gaman, lífið getur ekki verið eitt stórt partí,“ segir Sigríður Soffía. „Leiðin liggur upp en líka niður og það er ótrúlega fallegt þegar maður finnur samhljóminn í öldudalnum líka. Þegar maður finnur að vinkonurnar eru líka þar, að maðurinn minn er líka þar. Ferðalagið verður öðruvísi þegar maður finnur að haldið er utan um mann.“

Hún segir magnað að hafa kynnst Krabbameinsfélaginu.

„Þegar ég greinist vissi ég ekkert um krabbamein. Hélt að ég væri eina unga konan í heiminum sem hefði greinst og þetta var hryllilegasta áfall lífs míns. Ég hef aldrei verið eins hrædd; drengurinn minn var 14 mánaða og dóttir mín 7 ára. Núna finnst mér það kjánalegt af því ég veit orðið svo mikið, brjóstakrabbamein er það mest rannsakaða og lífslíkurnar eru mestar.“

Hún leggur áherslu á sér líði vel í dag og sé laus við krabbameinið.

Óþægilegt en nauðsynlegt

Sigríði Soffíu fannst hana vanta fyrirmynd þegar hún greindist. „Ég þekkti engan en vissi um eina stelpu sem hafði greinst, addaði henni á Instagram og fylgdist vel með. Það var mikið haldreipi fyrir mig að vita að hún komst í gegnum ferðalagið og ég varð ákveðin í að gera það líka.“

Þótt henni finnist í raun óþægilegt að gera eitthvað jafn persónulegt og bókina, og síðan leikverkið, segist Sigríður Soffía hafa ákveðið að  láta slag standa til þess að verða sú fyrirmynd sem hana vantaði. 

„Ég ákvað að berskjalda mig vegna þess hve oft ég var óviss og áttaði mig á því hve gangan til baka hefði verið auðveldari hefði ég vitað allt sem ég veit núna. Ég hugsaði oft; guð minn góður, af hverju er allt svona ömurlegt? Er ég í vandræðum eða ekki? Er þetta eðlilegur bati?“

Yndislegt starf 

„Ég vissi til dæmis ekki að öll þjónusta Krabbameinsfélagsins er ókeypis, ég vissi ekkert um Ljósið, endurhæfingamiðstöðina þar sem eru fríir sálfræðingar og frí fjölskyldumeðferð.“

Hún segir yndislegt hve vel sé haldið utan um fólk sem leiti til Ljóssins. „Ég kom þangað sköllótt, með eina sjö ára með mér, og fann allt í einu stað þar sem fólk gerir allt til að koma þér aftur á lappir. Mér líður ekki vel þegar ég heyri af fólki sem er í meðferð og veit ekki af þessum stöðum. Ljósið og Krabbameinsfélagið er fullkomin ástæða fyrir því að ég er fúnkerandi einstaklingurí dag og ég tók því að mér sem sjálfskipaður sendiherra að gera þessi verk og ef þau geta nýst til að varpa ljósi á til dæmis Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis er það frábært.“

Sigríður Soffía er ekki einhöm í listinni; er ekki bara ljóðskáld og danshöfundur. Hún hefur unnið við vöruhönnun og sinnir listinni einnig sem flugeldasýningahönnuður! „Ég hef gert flugeldasýningar á Menningarnótt í Reykjavík,“ segir hún.

Lífið of stutt fyrir áhyggjur

„Eftir veikindi mín hefur sú skoðun styrkst að lífið sé of stutt til að hafa áhyggjur af því hvað öðrum finnst um mína list. Ég geri þá bara lélega ljóðabók eða léleg verk ...“

Frekar sé það stressandi að átta sig á því hve tíminn er í raun stuttur, vegna þess hve mikið hana langi að koma í verk. „Ég las í einhverju indverskum jógafræðum, að þú eigir þér tvö líf, lífið sem þú lifir og svo lífið sem þú lifir eftir að þú áttar þig á því að þú ert dauðlegur. Mér finnst eins og ég hafi hoppað yfir í það skeið og tíminn er orðinn gríðarlega verðmætur.“

_ _ _

Verkið Til hamingju með að vera mannleg fékk frábæra dóma þegar það var sýnt í Þjóðleikhúsinu. Sesselja G. Magnúsdóttir dansgagnrýnandi Morgunblaðsins skrifaði m.a. þegar hún gerði upp árið 2023:

  • „Í verkinu gefur Sigríður Soffía áhorfendum innsýn í heim konu, hennar sjálfrar sem fær brjóstakrabbamein fyrir fertugt þegar hún er nýlega búin að eignast sitt annað barn. Áhorfendur fylgjast með ferlinu frá því meinið greinist, meðferðinni sjálfri og léttinum þegar fengist hefur staðfesting á að meinið sé farið og með andhormónameðferð séu góðar líkur á að það taki sig ekki upp aftur. Sýningin er byggð á samnefndri ljóðabók sem kom út á vordögum 2023. Ljóðin skrifaði Sigríður Soffía meðan á meðferð stóð og lýsa þau af miklu næmi þeim áskorunum sem urðu á vegi hennar í gegnum ferlið, líðan hennar, hugsunum og tilfinningum. Ljóðin eru mjög sterk og kemst efni þeirra vel til skila í dansverkinu. Í brotakendum myndum lýsir sýningin ferlinu á ljóðrænan en skýran hátt og kannast þær sem farið hafa sama veg við hvert atriði.“
    _ _ _ _
  • Verkið er sett upp í Hofi í samvinnu við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og renna 1.000 krónur af hverjum seldum miða til félagsins. Því er sérstök ástæða til að hvetja fólk til þess að mæta, upplifa magnaðan listviðburð og láta ennfemur gott af sér leiða

Menningarfélag Akureyrar

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis

Krabbameinsfélag Íslands

Ljósið