Fara í efni
Menning

„Alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt“

Sigríður Soffía Níelsdóttir, dansari, danshöfundur og ljóðskáld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Listunnendur eiga von á góðu í Hofi um miðjan mánuðinn þegar Sigríður Soffía Níelsdóttir, dansari, danshöfundur og ljóðskáld, stígur á svið ásamt sjö öðrum konum, leikurum og dönsurum.

Ljóðabók hennar, Til hamingju með að vera mannleg, öðlast þá líf á sviðinu sem dansverk. Bókina samdi Sigríður Soffía eftir að hún greindist með brjóstakrabbamein og gekk í gegnum meðferð í miðjum heimsfaraldri. Ljóðabálkurinn er magnaður og oft verulega átakanlegur.

Verkið var sýnt í Þjóðleikhúsinu í fyrravor, hlaut afar lofsamlega umfjöllun og þrjár tilnefningar til Grímuverðlaunanna, og um haustið var sýningin opnunarverk Bleiku slaufunnar, árvekni- og fjáröflunarátaks Krabbameinsfélagsins.

Höfundurinn segir verkið fjalla um mikilvægi vináttunnar, um andlegan styrk og um samfélag kvenna sem standa hver með annarri.

Fegurðin í lífinu

Verkið verður sett upp nákvæmlega eins í Hofi og Þjóðleikhúsinu, nú í samvinnu við Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og renna 1.000 krónur af hverjum seldum miða til félagsins. Verði húsfyllir á þessari einu sýningu verða því lagðar um það bil 500.000 krónur inn á reikning félagsins og munar um minna. Því er sannarlega ástæða til þess að hvetja alla sem unna góðum listum – og alla hina auðvitað líka! – til þess að gera sér ferð í Hof laugardagskvöldið 16. mars.

„Verkið er í raun og veru ferðalag einhvers sem greinist, fer í gegnum meðferð og kemur upp hinum megin,“ segir Sigríður Soffía í samtali við Akureyri.net.

„Þetta hljómar mjög alvarlegt og leiðinlegt en er það alls ekki; sumir eru ef til vill hræddir við að koma því verkið sé svo þungt, en það fjallar að miklu leyti um fegurðina í lífinu og það að vera þakklátur fyrir smáatriðin,“ segir höfundurinn.

Í verkinu dansar og leikur föngulegur hópur kvenna, leikkonur og dansarar; Nína Dögg Filippusdóttir og Svandís Dóra Einarsdóttir, Lovísa Ósk Gunnardóttir og Ellen Margrét Bæhenz, Díana Rut Kristinsdóttir og Inga María Ólsen.

„Við erum sama manneskjan“

„Gríðarlega margir sem komið hafa á sýninguna, fólk sem ekki hefur fengið krabbamein en lent í einhvers konar áfalli af öðru tagi, segir mér að það tengi við svo margt í þessari bók,“ segir hún og nefnir eitt dæmi:

„Ég hitti sjötugan mann sem ég þekki lítið, hann settist á móti mér á kaffihúsi og sagði: Ég og þú eigum ekkert sameiginlegt, við erum ekkert lík, en þegar ég las þessa bók erum við sama manneskjan. Ástæðan var sú að maðurinn gekk í gegnum lyfjameðferð fyrir 10 árum. Mér fannst þetta fallegt.“

Viðbrögð við bókinni og leikverkinu hafa verið miklu meiri en höfundinn óraði fyrir. „Ástæðan gæti verið sú að frásögnin er einlæg og sönn. Við erum öll mannleg og dílum við sömu hlutina,“ segir hún.

„Ég viðurkenni fyrir sjálfri mér að mér líði ömurlega. Þori að segja það upphátt og velta fyrir mér hvað ég geti gert til að mótivera mig til að halda áfram.“

Hressasta krabbameinsverkið

Þetta er baráttusaga. „Ég var ung kona með tvö lítil börn þegar ég greinist,“ segir Sigríður Soffía, sem er aðeins 38 ára í dag. „Ég segi frá því hvernig maður gerir sitt besta í erfiðum aðstæðum og hve krafturinn er mikill þegar fólk stendur saman. Í verkinu er rosalega mikill vinkonukærleikur; það er mikil fegurð í því hve samfélagið þjappar sér saman þegar eitthvað bjátar á. Þetta er vissulega erfitt efni en sýningin er pottþétt hressasta krabbameinsverk sem hefur verið sett upp!“ segir hún og bæti við hlæjandi: „Þetta hljómar sennilega hræðlega …“

Keyptu bókina handa manninum

„Ég hef fengið gríðarlega mikið af póstum frá fólki sem ég þekki ekki. Pósthólfið mitt fylltist þegar bókin kom út og margir voru mjög þakklátir; sögðu að þetta hefði verið eins og að lesa eigin dagbók. Sumar konur höfðu gengið í gegnum lyfjameðferð og keyptu bókina til að gefa manninum sínum; þær vildu að þeir læsu bókina vegna þess að þær gætu aldrei sjálfar sett það í orð hvernig þeim leið, en það stæði í bókinni.“

Hún segir þögnina oft ríkja við aðstæður sem þessar og fólk reyni að harka af sér. „Þess vegna finnst mér mjög fallegt ef þessi bók getur virkað eins og einhvers konar verkfæri, hjálpað fólki til að skilja. Það er líka erfitt að vera aðstandandi einhvers sem er veikur; það er fullt af senum í verkinu þar sem gert er grín að því hve aðstandandinn er í vonlausri stöðu; ef hann reynir að vera næs er hann jafnvel of næs, ef hann hins vegar gerir lítið þá þykir hann of lítið til staðar. Staðan er eiginlega alveg vonlaus; þú ert alltaf að gera eitthvað vitlaust, en mér  finnst fallegt að geta talað um það og hlegið að því. Húmorinn er nefnilega mikilvægasta afl heimsins!“

Sigríður Soffía segist hafa verið skúffuskáld frá 12 ára aldri. Henni hefur alltaf þótt skáldskapurinn mjög persónlegur og fannst í raun alveg galið að leyfa öðrum að sjá það sem hún hafði ort. „Ég engdist fyrst þegar ég leyfði öðrum að lesa.“ Svo fór þó að bók kom út og úr varð dansverk.

Hér er sýnishorn úr bókinni:

Ljómi

Einu sinni var ég páfugl
nú er ég leðurblaka
einu sinni var ég kavíar
nú er ég poki af hrognum
einu sinni var ég villtur lax
nú er ég Costco-lax í dós
einu sinni var ég kampavín
nú er ég flöt Asti Gancia-flaska
einu sinni var ég tært lindarvatn
nú er ég drullupollur

en á drullupollinum er litrík olíubrák
sem stirnir á í sólskininu

„Mér finnst þetta ljóð ógeðslega fyndið! Ég skrifaði það þegar ég var algjörlega búin að týna sjálfri mér; var 15 kílóum þyngri en ég er núna, af lyfjabjúg, sem var algjörlega nýr veruleiki. En á þessum drullupolli er olíubrák – það er alltaf hægt að finna eitthvað jákvætt. Það er gegnumgangandi þema í verkinu,“ segir Sigríður Soffía.

  • SÍÐARI HLUTIHélt ég væri eina unga konan í heiminum sem hefði greinst

Menningarfélag Akureyrar

Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis

Krabbameinsfélag Íslands

Ljósið