Frávik við stígagerð í trássi við leyfi

Farið hefur verið út fyrir veitt framkvæmdaleyfi við stígagerð á Glerárdal að því er fram kemur í bréfi Náttúruverndarstofnunar til Akureyrarbæjar. Stígar hafa verið gerðir breiðari, grófara efni notað og önnur aðferð við stígagerðina en fram kemur í framkvæmdaleyfinu. Öll frávik og breytingar frá útgefnu framkvæmdaleyfi voru ákveðin af Akureyrarbæ og verktakanum án samráðs við eða tilkynningar til Náttúruverndarstofnunar sem gaf út framkvæmdaleyfið.
Fulltrúar S- og V-lista í umhverfis- og mannvirkjaráði gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð, segja ekki hægt að nýta eftirlitsleysi og linkind stofnunar sem skálkaskjól og ítreka mikilvægi þess að fara kyrfilega yfir málið til að læra af því.
Akureyrarbær hefur þrisvar fengið styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að gera Glerárdal sem aðgengilegastan fyrir sem flesta.
Friðlýstur sem fólkvangur
Glerárdalur er að hluta til friðlýstur sem fólkvangur og hefur verið frá 6. júní 2016. Fólkvangurinn er tæpir 75 ferkílómetrar að stærð. Dalurinn ber þess merki að vera mótaður af jöklum og eru þar fjölbreyttar berggerðir. Þá má einnig finna þar steingerðar plöntuleifar, surtarbrand og kísilrunninn trjávið, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar.
Þar segir einnig um Glerárdal og friðlýsinguna: „Markmið friðlýsingarinnar er að vernda Glerárdal og aðliggjandi fjalllendi til útivistar fyrir almenning, náttúruskoðunar og fræðslu. Friðlýsingin verndar auk þess land sem er að mestu ósnortið með fjölbreyttum jarðmyndunum og gróðurfari, og er þannig stuðlað að varðveislu líffræðilegrar fjölbreytni og breytileika jarðmyndana.“
Nánar má fræðast um fólkvanginn Glerárdal á vef Umhverfisstofnunar - sjá hér.
Þegar svæði eru friðlýst sem fólkvangar er það að frumkvæði sveitarfélaga og er meginmarkmiðið að vernda landsvæði til útivistar og almenningsnota. Verndunin á að taka mið af því að auðvelda almenningi aðgang að náttúru og tengdum menningarminjum í nánd við þéttbýli til útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu.
Ábendingar og kvartanir yfir framkvæmdinni
Náttúruverndarstofnun og fleiri aðilar sem vinna að umhverfismálum hafa fengið ábendingar og kvartanir um að stígagerð á Glerárdal væri ekki í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi. Í framhaldi af eftirliti yfirlandvarðar stofnunarinnar var fundað með fulltrúum Akureyrarbæjar og verktakans.
Mynd af vef Akureyrarbæjar frá því í ágúst. Hér sést þyrla sem reglulega flytur efni til stígagerðarinnar inn á dal. Mynd: akureyri.is.
Í framhaldi af eftirlitsferð yfirlandvarðar stofnunarinnar er það niðurstaðan að ljóst sé að farið hafi verið út fyrir framkvæmdaleyfið. Náttúruverndarstofnun óskaði skýringa frá Akureyrarbæ og var fjallað um þær og málslokabréf stofnunarinnar á fundi ráðsins í lok september.
Frávikin og skýringar Akureyrarbæjar eru í stórum dráttum eftirfarandi:
- Breidd stíga var meiri en fram kom í framkvæmdaleyfinu. Gefið var leyfi fyrir 0,8 til eins metra breiðum stígum, en þeir eru 1,6-1,8 metrar.
- Svar Akureyrarbæjar: Að mati verktaka var ekki þorandi að vera með mjórri gröfur á afrétti Glerárdals þar sem brattlendi og votlendi eru erfið. Þá hafi verið röskun á svæðinu áður en framkvæmdir hófust og þar verið jeppafært vegna smölunar búfjár. Viðurkennt er að umsókn Akureyrarbæjar hefði þurft að endurspegla betur ástandið á afrétti Glerárdals eins og það var.
- Þá hefur Akureyrarbær óskað eftir breytingu á framkvæmdaleyfinu þannig að stígurinn verði 1,5 metrar að breidd og hefur Náttúruverndarstofnun heimilað þá breytingu þar sem að mati stofnunarinnar breyti það ekki því áhrifamati sem fram kom í útgefnu framkvæmdaleyfi.
- Dýpt og aðferð, önnur aðferð við stígagerðina notuð en fram kemur í leyfinu. Allur stígurinn er unninn með aðferð sem í stórum dráttum felst í að ýta/moka jarðvegi þar sem land er hærra og nýta til uppfyllingar þar sem land liggur lægra (cut and fill), í stað svokallaðrar skúffuaðferðar sem vísað er til í bréfinu. Allur gróður sem tekinn er upp er notaður í undirlag, en ekki tekinn neinn gróður til hliðar til að loka rofarásum.
- Svar Akureyrarbæjar: Ítrekað verður við verktaka að taka til hliðar þann gróður sem með góðu móti er hægt að ná ofan af stíg við áframhaldandi vinnu og nota til frágangs í jaðra stíganna. Þó er tekið fram að jarðvegurinn sé á flestum stöðum mjög laus í sér og rifni í sundur við gröft. Uppgröftur sem ýtt er til hliðar grói hins vegar með tímanum.
- Efnisval. Kornstærð malarsalla átti samkvæmt leyfinu að vera 0-8 mm og 8-11 mm, en mun grófara efni var notað.
- Svar Akureyrarbæjar: Í samráði við verktaka og fleiri var niðurstaða að allt upp í 22 mm efni hentaði betur þar sem fínna efnið virðist hverfa fljótt ofan í jarðveginn og grófara efnið sé alls ekki of gróft fyrir gangandi eða hjólandi.
- Ekki tilkynnt um frávik. Engar tilkynningar bárust frá Akureyrarbæ um frávik frá framkvæmdaleyfinu, í samræmi við skilyrði leyfisins frá 2022.
- Svar Akureyrarbæjar: Viðurkennt er að Akureyrarbær hefði átt að tilkynna Náttúruverndarstofnun um að meira rask yrði við þessa stígagerð en áætlað var.
Mynd úr svarbréfi Akureyrarbæjar til Náttúruverndarstofnunar. Myndinni er ætlað að sýna að uppgröftur sem ýtt er til hliðar við stígagerðina (vinstri mynd frá 2022) grói upp eins og sjá megi á myndinni til hægri.
Málinu lokið af hálfu Náttúruverndarstofnunar
Náttúruverndarstofnun telur sig hafa fengið fullnægjandi skýringar frá Akureyrarbæ og málinu því lokið af hálfu hennar. Stofnunin áréttar þó mikilvægi þess að framkvæmdaaðili fylgi skilyrðum útgefins leyfis í hvívetna og upplýsi stofnunina um frávik.
Meirihluti umhverfis- og mannvirkjaráðs segir þó í bókun að í flestum tilfellum hafi vel tekist til og muni allt rask gróa upp með tímanum. Þá er því fagnað að vel gangi að auka aðgengi almennings að náttúruparadísinni Glerárdal og áréttað að með framkvæmdinni sé unnið að stíg sem hafi það meginmarkmið að bæta aðgengi sem flestra og að það sé að takast vel. Þá leggur meirihlutinn áherslu á að farið verði eftir niðurstöðu Náttúruverndarstofnunar og framhaldið unnið í samræmi við hana og gildandi framkvæmdaleyfi.
Alvarlegar athugasemdir við vinnubrögðin
Fulltrúar tveggja minnihlutaflokka í umhverfis- og mannvirkjaráði, Unnar Jónsson (S) og Ólafur Kjartansson (V) segja í bókun að frá upphafi hafi verið gengið fram með þeim hætti við þessa framkvæmd að ekki verði hjá því komist að gera alvarlegar athugasemdir við vinnubrögðin.
„Lítil virðing hefur verið borin fyrir ósnortinni náttúru Glerárdals og stígurinn verið gerður beinni og meira áberandi en ástæða er til. Vilji og fyrirmæli umhverfis- og mannvirkjaráðs um stígagerðina hafa ítrekað verið virt að vettugi og brotið gegn skilmálum framkvæmdaleyfis nær samfellt á framkvæmdatímanum með ýmsum hætti, sérstaklega hvað varðar breidd stígsins sjálfs og heimild til breiddar raskaðs svæðis við framkvæmdina,“ segir meðal annars í bókun Unnars og Ólafs.
Þá segja þeir að eftirlitsleysi og linkind Umhverfisstofnunar sé ekki hægt að nýta sem skálkaskjól enda sé aðkoma hennar ekki til komin fyrr en skaðinn var að mestu leyti skeður nú í haust.
Mikilvægt að læra af málinu
Þeir Unnar og Ólafur hvetja stjórnendur Akureyrarbæjar til að fara kyrfilega yfir þetta mál til að læra af því og koma í veg fyrir að sömu vinnubrögð verði ástunduð á þeim kafla sem eftir er að leggja fram að skálanum Lamba. Þeir benda á að frá upphafi verksins hafi margsinnis verið bent á að stígur sem lagður var frá Fálkafelli niður að bílastæði við Súlurætur sé góð fyrirmynd fyrir stíg á þessu svæði og æskilegt að hann verði notaður sem fyrirmynd við áframhaldandi stígagerð á Glerárdal.
Mynd frá vinnu við stígagerðina sumarið 2022. Mynd: Axel Þórhallsson.
Að lokum gagnrýna Unnar og Ólafur að formaður umhverfis- og mannvirkjaráðs hafi ekki orðið við beiðni þeirra um að margs konar gögn yrðu lögð fyrir fund ráðsins. Gögnin sem um ræðir og þeir telja upp í bókun sinni eru:
- Tilvísanir í gildandi samþykktir fyrir friðlandið og þær framkvæmdaáætlanir sem hafa verið samþykktar.
- Yfirlit yfir kostnaðinn að meðtöldum þeim styrkjum sem hafa fengist utan frá fyrir árin frá og með 2021 með stuttri lýsingu á því hvað var gert á hverju ári.
- Allar formlegar verklýsingar, leiðbeiningar og hönnunarblöð sem verktökum hafa verið afhentar frá 2021 og breytingar á þeim.
- Hver er þáttur frjálsra félagsamtaka í ákvarðanatökum um hvað gert var á dalnum.
- Eðlilegt hefði einnig verið að leggja fram skoðunarskýrslu fulltrúa Náttúruverndarstofnunar.
- - -
Akureyri.net fjallaði meðal annars um stígagerð á Glerárdal þegar lokið var við að leggja stíg upp að stíflu - sjá hér. Í þessari frétt frá því í ágúst 2022 er hlekkur á myndband Axels Þórhallssonar af vinnu við stíginn.