Fara í efni
Menning

Færðu Minjasafninu forláta skautbúning

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri, Þórgunnur Ingimundardóttir og Kristín S. Árnadóttir. Ljósmynd: Hörður Geirsson.

Minjasafninu á Akureyri áskotnaðist í gær forláta skautbúningur þegar Þórgunnur Ingimundardóttir, fyrrverandi tónlistarkennari, og Kristín S. Árnadóttir, bróðurdóttir Þórgunnar, komu færandi hendi.

„Þetta eru ótrúleg verðmæti. Það er fágætt að fá skautbúning að gjöf, að ég tali nú ekki um að fá sögu búningsins með; það er stór hluti af gjöfinni að þekkja söguna,“ segir Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins, við Akureyri.net.

Skautbúningurinn var í eigu Steinunnar Karólínu Ingimundardóttur, systur Þórgunnar, og er gefinn í minningu hennar. 

Fyrsti eigandi skautbúningsins var frú Þuríður Jakobsdóttir (f. 14. maí 1865) eiginkona Sigurðar Kvaran læknis í Höfðahverfi frá 1900 til 1904, en þá mun búningurinn hafa verið saumaður. Hjördís dóttir þeirra seldi Steinunni Karólínu (f. 29. mars 1925) búninginn milli 1965 og 1970.

Steinunn, sem var barnlaus, var lengi skólastjóri Húsmæðraskólans á Varmalandi í Borgarfirði. Hún lést 2011, búningurinn hefur verið í eigu fjölskyldunnar síðan, varðveittur af Þórgunni, sem verður 96 ára í næsta mánuði. Hún og systkynabörn Steinunnar, börn Þórgunnar, Árna og Magnúsar, færa safninu búninginn að gjöf.

Talið er að Valgerður Karólína Guðmundsdóttir prestsfrú í Grenivík, amma Steinunnar, hafi meðal annars saumað hluta af blómabekknum sem er skatteraður. Að skattera er það kallað þegar saumað er út í klæði með einhliða flatsaumi með ullarbandi eðs snúrusilki eftir frjálsu munstri.

Valgerður Karólína lét gera beltið. Árni Höskuldsson gullsmiður í Reykjavík smíðaði hlekki til viðbótar þeim sem til voru til að fullgera beltið fyrir Steinunni Karólínu.

Koffur, brjóstnæla og ermahnappar, fylgdu búningnum þegar Steinunn keypti hann.

Haraldur Þór Egilsson, safnstjóri Minjasafnsins, Þórgunnur Ingimundardóttir og Kristín S. Árnadóttir.