Fara í efni
Menning

Eyrarpúkinn tíður gestur Akureyri.net

Jóhann Árelíuz við æskuheimili sitt, Eyrarveg 35, þegar Eyrarpúkinn kom út haustið 2003.

Margir muna án nokkurs vafa Eyrarpúkann, bráðskemmtilega bók sem skáldið og rithöfundurinn Jóhann Árelíuz sendi frá sér haustið 2003. Í tilefni þess að Jóhann fagnar afmæli í dag birtir Akureyri.net fyrsta kafla bókarinnar og framhald verður á því bókarkafli verður birtur hvern sunnudag næstu misseri.

Jóhann er úr Eyrarvegi 35 á Akureyri, flutti ungur úr firðinum fagra og bjó aldarþriðjung í Svíþjóð. Síðan hefur skáldið víða dvalið en haldið heimili á borgarhorninu íslenska síðasta áratuginn.

Verkið, sem gerist á Eyrinni um miðja síðustu öld, var á sínum kynnt sem gáskafullt og þar er engu logið. „Skáldskaparsannleikur og nöfnum einungis breytt á þremur stöðum. Heimshorn sögunnar mót Ægisgötu og Eyrarvegs 35,“ sagði í viðtali sem ofanritaður átti við skáldið og birtist í Lesbók Morgunblaðsins síðla nóvembermánaðar útgáfuárið. 

Í Lesbókarviðtalinu sagði:

Bókin skiptist í stutta kafla; stakar sögur. Myndir úr orðum.

Mikið spurt um heimildavinnu, segir skáldið. Er ekki á móti henni, en þarfnaðist lítt að þessu sinni:

– Sagan er sögð frá sjónarhorni lítils snáða. Ég rammaði bara inn andrúmsloftið. Heimildavinnan nú var fólgin í því að sofna tvisvar á Amtsbókasafninu. Yfir Vorinu og Æskunni.

Lesbókarsamtalið varð til meðan skáldið og Moggamaðurinn gengu saman um Eyrina. Gangan hófst vitaskuld við Eyrarveg 35.

– Nú er veður til að skapa, segir skáldið, þar sem við stöndum í logninu á þessu horni heimsins, og segir bróðurpartinn af sínum skáldskap verða til á gönguferðum.

– Öll mín ljóð og textar koma til gegnum iljarnar; þannig tengist ég himni og jörð. Eins og í fótboltanum verður maður að hafa augu í hnakkanum í skáldskapnum. Það eru bara tvær tegundir höfundarverks, skrifborðsskrif og göngutúrakompósisjónir.

Gerir Árelíuz orð Goethe að sínum, að sú sköpun sem er einhvers virði hafi orðið til á góðri göngu, enda fæddur upp á sama dag og leyndarráðið.

Slímseta við skrifborð og tölvu bjargar engu engu ein og sér.

– Sumt fólk hér í bæ lítur á mig sem iðjuleysingja sem er skrýtið, mann sem er alltaf að vinna! Ég heyri þetta hjá iðnaðarmönnunum í heita pottinum, sem ég kalla stundum þverhausana en eru bestu skinn og hefur enginn þeirra kvartað undan bókinni.

Kafli dagsins úr Eyrarpúkanum: Stelpustrákur

_ _ _

HVER ER HANN?
Langt er síðan Jóhann Árelíuz flaug úr firðinum eins og áður er getið. Mörgum er hann því að líkindum ókunnur og vert að staðsetja skáldið í manntalinu, til að lesendur átti sig á samhengi pistlanna sem væntanlegir eru næstu misseri:

  • Foreldrar Jóhanns voru Einar Jónsson, bóndi frá Hraunfelli í Vopnafirði, og Jónína Sigmundsdóttir fædd og uppalin í Hvammsgerði Selárdal. Þau bjuggu lengi á Vopnafirði en fluttust til Akureyrar 1946.
  • Þrjú elstu börn þeirra hjóna eru fædd á Vopnafirði: Vignir Einarsson, fyrrverandi yfirkennari, bjó lengstum á Blönduósi, Kristín Einarsdóttir, húsfreyja, gift Ívar Sigmundssyni, skíðakappa, sem um áratugi var forstöðumaður í Hlíðarfjalli og Þormóður Jón Einarsson, landsfrægur knattspyrnumaður á sínum tíma með ÍBA og síðar KA. Sigmundur Rafn Einarsson er næstyngstur systkinanna, fæddur í Melgerði í Glerárhverfi. Sigmundur Rafn er landsþekktur, m.a. fyrir rekstur kaffihússins Bláu könnunnar og hins sívinsæla Götubars í Hafnarstræti.
  • Jóhann Einarsson – Árelíuz – er fæddur í Eyrarvegi 35, á æskuheimilinu.