Eyrarpúkinn tíður gestur Akureyri.net
Margir muna án nokkurs vafa Eyrarpúkann, bráðskemmtilega bók sem skáldið og rithöfundurinn Jóhann Árelíuz sendi frá sér haustið 2003. Í tilefni þess að Jóhann fagnar afmæli í dag birtir Akureyri.net fyrsta kafla bókarinnar og framhald verður á því bókarkafli verður birtur hvern sunnudag næstu misseri.
Jóhann er úr Eyrarvegi 35 á Akureyri, flutti ungur úr firðinum fagra og bjó aldarþriðjung í Svíþjóð. Síðan hefur skáldið víða dvalið en haldið heimili á borgarhorninu íslenska síðasta áratuginn.
Verkið, sem gerist á Eyrinni um miðja síðustu öld, var á sínum kynnt sem gáskafullt og þar er engu logið. „Skáldskaparsannleikur og nöfnum einungis breytt á þremur stöðum. Heimshorn sögunnar mót Ægisgötu og Eyrarvegs 35,“ sagði í viðtali sem ofanritaður átti við skáldið og birtist í Lesbók Morgunblaðsins síðla nóvembermánaðar útgáfuárið.
Í Lesbókarviðtalinu sagði:
Bókin skiptist í stutta kafla; stakar sögur. Myndir úr orðum.
Mikið spurt um heimildavinnu, segir skáldið. Er ekki á móti henni, en þarfnaðist lítt að þessu sinni:
– Sagan er sögð frá sjónarhorni lítils snáða. Ég rammaði bara inn andrúmsloftið. Heimildavinnan nú var fólgin í því að sofna tvisvar á Amtsbókasafninu. Yfir Vorinu og Æskunni.
Lesbókarsamtalið varð til meðan skáldið og Moggamaðurinn gengu saman um Eyrina. Gangan hófst vitaskuld við Eyrarveg 35.
– Nú er veður til að skapa, segir skáldið, þar sem við stöndum í logninu á þessu horni heimsins, og segir bróðurpartinn af sínum skáldskap verða til á gönguferðum.
– Öll mín ljóð og textar koma til gegnum iljarnar; þannig tengist ég himni og jörð. Eins og í fótboltanum verður maður að hafa augu í hnakkanum í skáldskapnum. Það eru bara tvær tegundir höfundarverks, skrifborðsskrif og göngutúrakompósisjónir.
Gerir Árelíuz orð Goethe að sínum, að sú sköpun sem er einhvers virði hafi orðið til á góðri göngu, enda fæddur upp á sama dag og leyndarráðið.
Slímseta við skrifborð og tölvu bjargar engu engu ein og sér.
– Sumt fólk hér í bæ lítur á mig sem iðjuleysingja sem er skrýtið, mann sem er alltaf að vinna! Ég heyri þetta hjá iðnaðarmönnunum í heita pottinum, sem ég kalla stundum þverhausana en eru bestu skinn og hefur enginn þeirra kvartað undan bókinni.
Kafli dagsins úr Eyrarpúkanum: Stelpustrákur
_ _ _
HVER ER HANN?
Langt er síðan Jóhann Árelíuz flaug úr firðinum eins og áður er getið. Mörgum er hann því að líkindum ókunnur og vert að staðsetja skáldið í manntalinu, til að lesendur átti sig á samhengi pistlanna sem væntanlegir eru næstu misseri:
- Foreldrar Jóhanns voru Einar Jónsson, bóndi frá Hraunfelli í Vopnafirði, og Jónína Sigmundsdóttir fædd og uppalin í Hvammsgerði Selárdal. Þau bjuggu lengi á Vopnafirði en fluttust til Akureyrar 1946.
- Þrjú elstu börn þeirra hjóna eru fædd á Vopnafirði: Vignir Einarsson, fyrrverandi yfirkennari, bjó lengstum á Blönduósi, Kristín Einarsdóttir, húsfreyja, gift Ívar Sigmundssyni, skíðakappa, sem um áratugi var forstöðumaður í Hlíðarfjalli og Þormóður Jón Einarsson, landsfrægur knattspyrnumaður á sínum tíma með ÍBA og síðar KA. Sigmundur Rafn Einarsson er næstyngstur systkinanna, fæddur í Melgerði í Glerárhverfi. Sigmundur Rafn er landsþekktur, m.a. fyrir rekstur kaffihússins Bláu könnunnar og hins sívinsæla Götubars í Hafnarstræti.
- Jóhann Einarsson – Árelíuz – er fæddur í Eyrarvegi 35, á æskuheimilinu.