Fara í efni
Menning

Dagbækurnar VI – Áfengisbölið í bænum

Friðbjarnarhús á Akureyri. Þar bjó Friðbjörn Steinsson einn upphafsmanna Góðtemplarareglunnar á Íslandi. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Í dag birtist sjötta grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net miðlar rannsókninni með þeim hætti að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Fyrst er dagbókarfærslan skrifuð beint upp og síðan á nútímamáli. Munurinn er reyndar ekki mikill og stundum enginn.

Gefum Unu orðið:
_ _ _

Áfengi hefur lengi verið haft um hönd og oft neytt meira en góðu hófi gegnir. Nokkuð sem vert er að hafa í huga um komandi Verslunarmannahelgi. Miðað við færslur Sveins um drykkjuómenningu ekki að undra að að Góðtemplarareglan á Íslandi, sem er bindindishreyfing, hafi verið stofnuð á Akureyri árið 1884 með stúkunni Ísafold. Friðbjörn Steinsson sem var einn af upphafsmönnum reglunnar var einmitt góður vinur Sveins og bjó í Aðalstræti 46 sem nú er þekkt sem Friðbjarnarhús, en þar er enn hægt að skoða gamla fundarsal reglunnar.

23. ágúst 1865

Sama veður. Bundið úr Staðareyu 70 hestar. Eg fékk þaraf 10 og Sveinn kaupamaður minn 5. Níels póstur kom um kvoldið. BF Sigurbirni. Flutt hingað nokkuð af heyi amtmanns. Jón Kristjansson drekkur nú stöðugt, og má álítast dottin úr sögunni.

Sama veður. Bundið úr Staðarey 70 hestar. Ég fékk þar af 10 og Sveinn kaupamaður minn 5. Níels póstur kom um kvöldið. Bréf frá Sigurbirni. Flutt hingað nokkuð af heyi amtmanns. Jón Kristjansson drekkur nú stöðugt, og má álíta dottin úr sögunni.

29. janúar 1866

Sunnan frostgrimd 19°. Eg lá í rúminu nær dauða enn lífi með blóð og graptraruppgangi. Amtm. og Jón Kristjánsson sátu hér og drukku brennivín, taldi amtm. mig af og var ergilegur. Hunavatns sýslu póstur kom.

Sunnan frostgrimmd 19°. Ég lá í rúminu nær dauða enn lífi með blóð og graftraruppgangi. Amtmaður og Jón Kristjánsson sátu hér og drukku brennivín, taldi amtmaður mig af og var ergilegur. Húnavatnssýslu póstur kom.

1. febrúar 1866

Norðan fjúk. Eg lá með þrautum. Þorst fór með kirkjukerti að Glæsibæ. Mannskæð taugaveiki gengur í Múlasýslum og víðar að smádrepa. Nú er ekkert gjört á amtskontórinu og gengur Jón Kristjánsson fullur dag eptir dag.

Norðan fjúk. Ég lá með þrautum. Þorsteinn fór með kirkjukerti að Glæsibæ. Mannskæð taugaveiki gengur í Múlasýslum og víðar að smádrepa. Nú er ekkert gert á skrifstofu amtsins og gengur Jón Kristjánsson fullur dag eftir dag.

4. mars 1866

Norðan frosthríð, messað, og grafið lík. Eg lá með þrautum og graptraruppgangi fór að borða rauðvín í mat.

Norðan frosthríð, messað, og grafið lík. Ég lá með þrautum og graftraruppgangi fór að borða rauðvín í mat.

1. janúar 1867

Norðan froststormur. Ekki messað. Eg var frískur vel eptir punsdrykkjuna í gærkvöldi. Hafðist lítið að um daginn. Jón Stephánsson sat hér lengi. I gærkvöldi tók út byttu af austurlandinu bundna við koffort með fullum manni sofandi í, rak hana í hríð og veðri inn á Leyru og fannst þar eptir mikla leit í nótt með dónanum sofandi.

Norðan froststormur. Ekki messað. Ég var frískur vel eftir púnsdrykkjuna í gærkvöldi. Hafðist lítið að um daginn. Jón Stefánsson sat hér lengi. Í gærkvöldi tók út lítinn bát af austurlandinu bundna við koffort með fullum manni sofandi í, rak hana í hríð og veðri inn á Leiru og fannst þar eftir mikla leit í nótt með dónanum sofandi.

8. febrúar 1868

Sunnan gola 18° frost þykknaði og minkaði frost. Petur frá Hákonarst. kom hér fullur, svaf og seldi upp. Eg gekk út í kaupstað keypti senep og karri. Þorsteinn á Grund kom með byggingar bréf og Bref frá Sigríði á Kleyf. Eg skrifaði Bref til Joh. Einarssonar og 2 til amtsins með Þorsteini.

Sunnan gola 18° frost þykknaði og minnkaði frost. Pétur frá Hákonarstöðum kom hér fullur, svaf og kastaði upp. Ég gekk út í kaupstað keypti sinnep og karrí. Þorsteinn á Grund kom með byggingar bréf og bréf frá Sigríði á Kleyf. Ég skrifaði bréf til Jóh. Einarssonar og 2 til amtsins með Þorsteini.

10. mars 1868

Logndrífa lítil og þykkt lopt. Arngrímur fór fram í fjörð og gekk Björg litla með honum fram að Espihóli. Eg byrjaði að bæta síldarnet mitt. Kom þá Briem sýslumaður um miðjan dag með votta Jensen vert og Hallgrím Kristjánsson, samt Jonas Gunnlaugson frá Möðruvöllum með fullmakt frá amtmanni, og var byrjað að seqvestrera bú mitt og haldið áfram til háttatíma. Veitti fógetinn óspart brennivín, og urðu allir hlutaðeigendur hálffullir. Um kvöldið gekk eg út á vertshús og til P. Johnsens sem liggur þungt í nýu axlarmeiðsli, drakk, fann ýmsa menn, seldi upp eptir að eg var háttaður og svaf svo vel.

Logndrífa lítil og þykkt loft. Arngrímur fór fram í fjörð og gekk Björg litla með honum fram að Espihóli. Ég byrjaði að bæta síldarnet mitt. Kom þá Briem sýslumaður um miðjan dag með votta Jensen vert og Hallgrím Kristjánsson, ásamt Jónasi Gunnlaugssyni frá Möðruvöllum með fullmakt frá amtmanni, og var byrjað að kyrrsetja bú mitt og haldið áfram til háttatíma. Veitti fógetinn óspart brennivín, og urðu allir hlutaðeigendur hálffullir. Um kvöldið gekk ég út á vertshús og til P. Johnsens sem liggur þungt í nýju axlarmeiðsli, drakk, fann ýmsa menn, kastaði upp eftir að ég var háttaður og svaf svo vel.

11. mars 1868

Norðan gola og dymm drífa. Briem sýslum. kom hér aptur með fylgjara sína og Fr. Steinsson og lauk kyrrsetningargjörðinni á búi mínu um daginn vóru það N° virt Var drukkið einsog í gær. Bæar fógeti S. Thorarensen kom.

Norðan gola og dimm drífa. Briem sýslumaður kom hér aftur með fylgjara sína og Friðbjörn Steinsson og lauk kyrrsetningargjörðinni á búi mínu um daginn voru það N° virt. Var drukkið eins og í gær. Bæjarfógeti S. Thorarensen kom.

17. mars 1868 - Eg 47 ára

Heiðríkt Logn og sólskin. Eg byrjaði að concipera umboðsreikning minn pro 1867/68. Komu þá menn frá Skéri á byttu með fleyri bréf frá Hríngsdal, en ekkert til mín. Bjó eg mig til ferðar með þeim í dag, en vegna hafgolu biðu þeir til morguns. Björg litla kom heim úr ferð sinni að Espihóli og Jón litli með henni til að vera hér nokkra daga. Arngrímur Gíslason kom einnig að framan drakk sig fullann um kvöldið og varð því á “Ytribauk„ um nóttina.

17. mars 1868 - Ég 47 ára

Heiðríkt Logn og sólskin. Ég byrjaði að concipera umboðsreikning minn fyrir 1867/68. Komu þá menn frá Skeri á byttu með fleiri bréf frá Hringsdal, en ekkert til mín. Bjó ég mig til ferðar með þeim í dag, en vegna hafgolu biðu þeir til morguns. Björg litla kom heim úr ferð sinni að Espihóli og Jón litli með henni til að vera hér nokkra daga. Arngrímur Gíslason kom einnig að framan drakk sig fullan um kvöldið og varð því á „Ytribauk“ um nóttina.

23. apríl 1868

Norðaustan kulda gola. Eg skrifaði fyrir Friðbjörn Steinsson Sveinabréf handa Þorsteini Sigurðssyni, kennslupilti hans í bokbandi, var þar svo í “Sveinagildium kvöldið. Eg var annars hálflasin las “Mediernes Bog„ , gekk út í bæ. Ekkert var hér til skemtunar, en margir gengu fullir. Þorlákur frá Grænavatni og fleyri Mývetningar vóru hér á ferð.

Norðaustan kulda gola. Ég skrifaði fyrir Friðbjörn Steinsson Sveinsbréf handa Þorsteini Sigurðssyni, kennslupilti hans í bókbandi, var þar svo í Sveinagildi um kvöldið. Ég var annars hálflasin las „Mediernes Bog“, gekk út í bæ. Ekkert var hér til skemmtunar, en margir gengu fullir. Þorlákur frá Grænavatni og fleiri Mývetningar voru hér á ferð.

7. júní 1868

Sunnan gola hiti og blíðviðri. Eg fékk snemma hest frá Keppsa handa mér en seint og illa annan frá Kjarna handa Björgu dóttur minni fram að Munkaþverá. Riðum við svo þangað austurbakka með mörgu fólki og vorum þar við kirkju. Þar vóru fermd 17 börn og Björg litla ásamt þeim. Eptir messu riðum við að Espihóli og töfðum þar fram að háttatíma átum og drukkum, urðum svo Páli Magnússyni samferða ofan að Kjarna og svo hingað náðum við Björg heim kl. 3 um nóttina og var eg nokkuð ölvaður. Jón litli sonur minn reið heim með mér frá Espihóli.

Sunnan gola hiti og blíðviðri. Ég fékk snemma hest frá Keppsa handa mér en seint og illa annan frá Kjarna handa Björgu dóttur minni fram að Munkaþverá. Riðum við svo þangað austurbakka með mörgu fólki og vorum þar við kirkju. Þar voru fermd 17 börn og Björg litla ásamt þeim. Eftir messu riðum við að Espihóli og töfðum þar fram að háttatíma átum og drukkum, urðum svo Páli Magnússyni samferða ofan að Kjarna og svo hingað náðum við Björg heim kl. 3 um nóttina og var ég nokkuð ölvaður. Jón litli sonur minn reið heim með mér frá Espihóli.

 

24. júní 1868

Logn þykkt lopt og molla. Eg var mest allann dag að skrifa niðurjöfnunarskrár og fl. fyrir Jóh Halldórsson. Svo að undirbúa uppboðið hjá mér. Þau hjónin og Friðrik litli frá Hríngsdal vóru hér og lá Olafur veikur, sagði læknirinn í honum hjartveiki Hér var Sigurður á Böggversstöðum og talaði vel um að missa veð sitt, og ýmsir fullir dónar vóru að koma hingað. Popp bað mig að vera hjá sér eptir helgina. Helga Þorgrímsdóttir flutti her í húsið og bjó um sig á kvistinum.

Logn þykkt loft og molla. Ég var mest allan dag að skrifa niðurjöfnunarskrár og fl. fyrir Jóh. Halldórsson. Svo að undirbúa uppboðið hjá mér. Þau hjónin og Friðrik litli frá Hringsdal voru hér og lá Ólafur veikur, sagði læknirinn í honum hjartveiki. Hér var Sigurður á Böggvisstöðum og talaði vel um að missa veð sitt, og ýmsir fullir dónar voru að koma hingað. Popp bað mig að vera hjá sér eftir helgina. Helga Þorgrímsdóttir flutti her í húsið og bjó um sig á kvistinum.

26. júní 1868

Sunnan gola og sólskin. Um miðjan dag byrjaði uppboðið hjá mér og komu mjög fáir listhafendur, gengu því hlutirnir fyrir minna enn fjórðapart verðs Eg krafðist aptur og aptur að uppboðinu yrði hætt, en fékk þess ekki ráðið og ei heldur sumar kröfur mínar bókaðar Hér var Sra Arnljótur og vildi hann og Páll Magnússon fá Sra Jón Austmann og aðra veðeigendur mína til að semja um borgun skuldar minnar, og komu þeir saman í þessu skini hér hjá mér um kvöldið. En þareð þetta átti að ské við púnsdrykkju, fór allt út um þúfur, og varð úr rifrildi og riskingar framm á nótt en ekkert varð af samningum. Olafur í Hringsdal lá hér um dagin en linaði um kvöldið þrautir eptir hómöopathíska inntöku frá Sra. Jóni Austmann.

Sunnan gola og sólskin. Um miðjan dag byrjaði uppboðið hjá mér og komu mjög fáir lysthafendur, gengu því hlutirnir fyrir minna enn fjórðapart verðs. Ég krafðist aftur og aftur að uppboðinu yrði hætt, en fékk þess ekki ráðið og ei heldur sumar kröfur mínar bókaðar Hér var séra Arnljótur og vildi hann og Páll Magnússon fá séra Jón Austmann og aðra veðeigendur mína til að semja um borgun skuldar minnar, og komu þeir saman í þessu skini hér hjá mér um kvöldið. En þar eð þetta átti að ske við púnsdrykkju, fór allt út um þúfur, og varð úr rifrildi og áflog fram á nótt en ekkert varð af samningum. Ólafur í Hringsdal lá hér um daginn en linaði um kvöldið þrautir eftir hómópatíska inntöku frá séra Jóni Austmann.

1. ágúst 1868

Sunnan gola og blíðviðri. Eg var 25 dag í búð hjá Popp. Olafur í Hringsdal fór uppað Kjarna, kom aptur þaðan með Páli, fóru þeir svo þangað aftur drukknir um kvöldið. Armann litli kvelst af tannpínu. Eg fekk lagasafn fra Egli bokbindara.

Sunnan gola og blíðviðri. Ég var 25 dag í búð hjá Popp. Ólafur í Hringsdal fór upp að Kjarna, kom aftur þaðan með Páli, fóru þeir svo þangað aftur drukknir um kvöldið. Ármann litli kvelst af tannpínu. Ég fékk lagasafn frá Agli bókbindara.

21. desember 1868 „Sólhvörf skemstur dagur“

Logn þykkt lopt og hægt frost, jörð auð og bezta gangfæri. Eg hafði einungis Armann og Aðalstein á skóla. gekk útí bæ. Vertinn kvað sín börn ei geta komið fyrri en eptir nýár. Fjarskaleg ös er nú í kaupstaðnum og hóflaus drykkjuskapur. I nótt drap sig fullur maður framm af stéttinni við vertshúsið, annar lá þar inni með krampa sem halda varð alla nóttina, og fjöldi manna vóru svíndrukknir í allan dag. [...]

21. desember 1868 „Sólhvörf skemmstur dagur“

Logn þykkt loft og hægt frost, jörð auð og besta gangfæri. Ég hafði einungis Ármann og Aðalstein á skóla. gekk út í bæ. Vertinn kvað sín börn ei geta komið fyrri en eftir nýár. Fjarskaleg ös er nú í kaupstaðnum og hóflaus drykkjuskapur. Í nótt drap sig fullur maður fram af stéttinni við vertshúsið, annar lá þar inni með krampa sem halda varð alla nóttina, og fjöldi manna voru svíndrukknir í allan dag. [...]

23. febrúar 1869

Sunnan frostgola og bjartviðri. Eg hafði 11 börn á skóla. P. Magnússon kom hér kl. 3 í nótt af Skipsfélagsfundi og gisti hér til í dag, og var svo aptur á fundi með Sra Arnljóti og P. Johnsen. Mikið drykkjuslark var á bauknum, Hansen apothekari er nú blindfullur á degi hverjum, svo til vandræða horfir. [...]

Sunnan frostgola og bjartviðri. Ég hafði 11 börn á skóla. P. Magnússon kom hér kl. 3 í nótt af Skipsfélagsfundi og gisti hér til í dag, og var svo aftur á fundi með séra Arnljóti og P. Johnsen. Mikið drykkjuslark var á bauknum, Hansen apótekari er nú blindfullur á degi hverjum, svo til vandræða horfir. [...]

​​27. mars 1869

Sólskin og sunnan gola með hlýindum Arngrímur gekk uti bæ, drakk sig fullan komst því ekki á stað og gisti hjá mér um nóttina. Eg gekk úti bæ, keypti kálf fyrir grjónaskeppu og til paskanna 1 jólakoku 3s og 6 Cigara 16s. Eg fekk skriflega neitun frá Páli Pálssyni um að hann hefði tekið mín vegna neina borgun hjá Petræusi á Naustum skrifaði BT Petræusar. Nú er Siggu litlu botnuð vesöldin af uppsölumeðali og kalkvatni.

Sólskin og sunnan gola með hlýindum Arngrímur gekk út í bæ, drakk sig fullan komst því ekki á stað og gisti hjá mér um nóttina. Ég gekk úti bæ, keypti kálf fyrir grjónaskeppu og til páskanna 1 jólaköku 3 merkur og 6 vindla 16 skildingar. Ég fékk skriflega neitun frá Páli Pálssyni um að hann hefði tekið mín vegna neina borgun hjá Petræusi á Naustum skrifaði bréf til Petræusar. Nú er Siggu litlu botnuð vesöldin af uppsölumeðali [lyf til að kalla fram uppköst] og kalkvatni.

14. apríl 1869

Logn og þoka í lopti með litlu fjúki frostlausu. Skólafrí. Uppboð á allskonar rusli byrjaði hjá Steincke og var hér í bænum og á uppboðinu grúi fólks. Eg var þar um stund og keypti gangstól handa Siggu litlu fyrir 34s. Fjarskalegur drykkju,, skapur og slagsmál áttu sér stað á Ytribauk. Björg dóttir mín fór gangandi út að Lóni. Halldór á Brimnesi gisti hjá mér um nóttina.

Logn og þoka í lofti með litlu fjúki frostlausu. Skólafrí. Uppboð á allskonar rusli byrjaði hjá Steincke og var hér í bænum og á uppboðinu grúi fólks. Ég var þar um stund og keypti gangstól handa Siggu litlu fyrir 34 skildinga. Fjarskalegur drykkjuskapur og slagsmál áttu sér stað á Ytribauk. Björg dóttir mín fór gangandi út að Lóni. Halldór á Brimnesi gisti hjá mér um nóttina.

15. apríl 1869

Norðan bleytu hríðar fjúk. 5 á skóla Uppboðið hjá Steincke hélt áfram í dag, var þar sett inn allskonar hrabl frá ýmsum bæarbúum Eg kom þar og var manngrúin mikill og drykkjuskapur nógur. BF Sigurði á Böggversstöðum um veðlán hans. BT hans aptur. Sannfréttist nú að Rachel lægi á Vopnafirði, hefði ei komist lengra fyrir ís. P. Johnsen hafði von for Fremtiðin

Norðan bleytu hríðar fjúk. 5 á skóla Uppboðið hjá Steincke hélt áfram í dag, var þar sett inn allskonar drasl frá ýmsum bæjarbúum. Ég kom þar og var manngrúinn mikill og drykkjuskapur nógur. Bréf frá Sigurði á Böggvisstöðum um veðlán hans. Bréf til hans aftur. Sannfréttist nú að Rachel lægi á Vopnafirði, hefði ei komist lengra fyrir ís. P. Johnsen hafði von fyrir framtíðinni.

_____________________________________________

Páll Johnsen sem Sveinn minntist á í lok þessarar færslu var góður vinur hans og var þarna, eftir því sem við best vitum, óvirkur alkóhólisti. Sveinn skrifaði nokkuð um baráttu Páls við áfengi, hér er hægt að lesa nokkrar af þessum færslum. Páll fékk slag oftar en einu sinni og fór greinilega að vinna í sínum málum í desember 1868.

6. nóvember 1868

Logn, frostlítið og gott veður. Sömu börn vóru á skólanum, fór þeim lítið fram, koma kl.10 og fara heim kl. 3. Eg var um kvöldið til háttatíma hjá Páli Johnsen að skrifa reikninga hans. Hann drakk sig fullan út á Bauk.

Logn, frostlítið og gott veður. Sömu börn voru á skólanum, fór þeim lítið fram, koma kl. 10 og fara heim kl. 3. Ég var um kvöldið til háttatíma hjá Páli Johnsen að skrifa reikninga hans. Hann drakk sig fullan út á Bauk.

1. desember 1868

Norðaustan gola dimmt lopt og nokkur rigning. Húsið hér hefir lekið mjög uppi í nótt. Jörð flóir í vatni og aurum. 4 börn á skóla. Eg gekk út til P. Johnsens sem liggur mjög veikur með krampa og aðsvifum m.fl.

Norðaustan gola dimmt loft og nokkur rigning. Húsið hér hefir lekið mjög uppi í nótt. Jörð flóir í vatni og fori. 4 börn á skóla. Ég gekk út til P. Johnsens sem liggur mjög veikur með krampa og aðsvifum m.fl.

2. desember 1868

Logn hlýtt veður þykkt lopt og hæg rigning. Sömu 4 börn á skóla. Að því búnu gekk eg út til P Johnsens og lá hann nú í reglulegu delirium tremens, hefir ekki sofnað í fleyri dægur. Eg var nokkra stund hjá honum og talaði hann mest óráð og sá ofsjónir. Við settum honum Klyster og gafum honum Laudanum mikið. Sofnaði hann um síðir.

Logn hlýtt veður þykkt loft og hæg rigning. Sömu 4 börn á skóla. Að því búnu gekk ég út til P. Johnsens og lá hann nú í reglulegu drykkjuæði, hefir ekki sofnað í fleiri daga. Ég var nokkra stund hjá honum og talaði hann mest óráð og sá ofsjónir. Við settum honum stólpípugjöf og gáfum honum mikið af ópíumdropum. Sofnaði hann um síðir.

3. desember 1868

Logn hlýtt veður þykkt lopt og regnlegt. Sömu 4 börn á skóla. Eg gekk út til P. Johnsens, sem nú var raknaður við og með hressara móti. Kristján Möller yngri seldi mér 1ʉ af róli. Nú er hús mitt að verða alveg bjargarlaust svo allir líða hungur og harðrjetti og er sarast að sjá Armann litla magrann og svangan.

Logn hlýtt veður þykkt loft og regnlegt. Sömu 4 börn á skóla. Ég gekk út til P. Johnsens, sem nú var raknaður við og með hressara móti. Kristján Möller yngri seldi mér 1ʉ af róli. Nú er hús mitt að verða alveg bjargarlaust svo allir líða hungur og harðrétti og er sárast að sjá Ármann litla magran og svangan.

7. desember 1868

Norðan frostgola og hríðar irja. Eg hafði sömu born á skóla. var svo á nefndarfundi framm eptir vöku skrifaði þar nokkur bréf mfl. Páll Johnsen er að hressast eptir Deliriummet, liggur því enn rúmfastur.

Norðan frostgola og hríðaryrja. Ég hafði sömu börn á skóla. var svo á nefndarfundi fram eftir vöku skrifaði þar nokkur bréf mfl. Páll Johnsen er að hressast eftir æðið, liggur því enn rúmfastur.

9. desember 1868

Norðan frostgola hríðarlegt. Sömu 4 börn á skóla. Eg var hjá P. Johnsen um kvöldið að orpna pappírum hans hann er nú komin á ról, og er í bindindi hvað vínföng snertir. Læknir Þórður var sóktur til að obducere lík útí Möðruvalla sókn, höfðu þar 2 konur dáið snögglega af undarlegum veikleika, hastarlegri bólgu um lífið. Fréttist að Jón Stephánsson væri veikur útí Hrísey og kæmist því ekki heim.

Norðan frostgola hríðarlegt. Sömu 4 börn á skóla. Ég var hjá P. Johnsen um kvöldið að orpna pappírum hans hann er nú komin á ról, og er í bindindi hvað vínföng snertir. Læknir Þórður var sóttur til að kryfja lík út í Möðruvalla sókn, höfðu þar 2 konur dáið snögglega af undarlegum veikleika, hastarlegri bólgu um lífið. Fréttist að Jón Stefánsson væri veikur út í Hrísey og kæmist því ekki heim.

14. desember 1868

Logn þýðt og blíðviðri, jörð snjólítil. 5 börn á Skóla því Aðalsteinn Friðbjarnarson bættist við í dag. Páll Johnsen rólaði hingað til mín lasburða enn. Eg flutti skólaborð og bekki úr norðurstofu inní austurstofuna til að fá pláz handa bornum og spara eldivið í norðurstofu.

Lognþýða og blíðviðri, jörð snjólítil. 5 börn á Skóla því Aðalsteinn Friðbjarnarson bættist við í dag. Páll Johnsen rólaði hingað til mín lasburða enn. Ég flutti skólaborð og bekki úr norðurstofu inn í austurstofuna til að fá pláss handa bornum og spara eldivið í norðurstofu.