Fara í efni
Menning

Dagbækur Sveins XV – Saga Boggu

Í dag birtist 15. grein Unu Haraldsdóttur um dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Nonna. Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins og Akureyri.net hefur miðlað rannsókninni með því að birta dagbókarfærslur á hverjum fimmtudegi í sumar en í vetur verða birtar færslur annan hvern fimmtudag. Una velur kafla og gengur frá til birtingar.

Gefum Unu orðið:_ _ _

Annað barn Sveins og Sigríðar fæddist 11. maí 1854 á Möðruvöllum í Hörgárdal og var skírð Björg eftir föðurömmu sinni en hún var oftast kölluð Bogga. Hún dó aðeins 28 ára gömul í Kaupmannahöfn en lifði áfram í bókum bróður síns. Hún birtist af og til í dagbókum Sveins, hann lýsti fæðingu hennar, skírn og fermingu, hvernig henni gekk að læra og ferðalögum hennar. Síðustu mánuði Sveins var Bogga mikið veik af tannpínu og leitaði hann allra mögulega leiða til að finna lækningu fyrir hana. Hér má lesa valdar færslur þar sem Bogga kemur fyrir.

9.–27. maí 1854

Frá þessum degi til hins 27da þ.m. hefi ég eingan tíma haft til að rita í bók þessa fyrir sifeldu aðkallandi annríki. Tíðin hefir til hins 23 verið köld með Norðan sífeldum froststormum og hríðum að oðru hverju og gróðurlaus jörð. Enda hefir hrokkið á skepnur víða, og almennt heyleysi átt sér stað og bjargarskortur.

Þann 11ta þ.m. ól kona mín efnilegt meybarn og gékk það allt af á hérumbil 1 tíma. Eg lét sækja O. Thorarensen á Hofi og var þá barnið fæðt. Kristrún her og Björg Guðmundsdottir vóru hjá k.m. hún lá á sæng með goðri heilsu í 1 viku og var svo á ferli í 2 daga og slo niður aptur með blóðláti og meiri vesöld og liggur hún enn rumföst.

Dóttir mín var skýrð hinn 23 þ.m. og nefnd Björg eftir móður minni. Eg tracteraði Amtm. og prófast og skýrnarvottana og alla hér í húsi og í bænum með Kaffe og brauði og nokkrum vínfaungum. Larus í Brekku var hér einnig, og gékk til þess dagurinn.

Sunnudaginn þann 14da let ég sækja vinnukonu mína Guðbjörgu Jonasdóttur að Stórubrekku og eru einkver leiðindi í henni. A manudaginn þann 15da for Jón bóndi her og sókti Johann vinnumann minn að Litlaeyrarlandi og komu þeir á þriðjudagin hinn 16da og var Johann reiður og reistur yfir því að hefði ofseint vitjað hans.

Sigmundur og Olafur frá Baldursheimi eru nú fluttir híngað, og býr Olafur í Klefanum sem amtmaður hefir hrest við handa honum, en Sigm. býr í mínum tilvonandi parti af baðstofunni þángað til Jón bóndi fer.

Amtmaður hélt 8 kaupamenn í viku til að hlaða veggi að bæ Jens Jonsons Stærh á Nunnuhól og er því lokið fyrir nokkru og á tresmiðið að byrja komandi viku. Amtmaður reið vestur í Hunavatns og Skagafjarðar sýslur þann 24ða og Guðmundur frá Launguhlíð vinnumaður hans með honum. Við Sigmundur höfum stúngið upp og undirbuið kartofflugarð sunnanundir bænum hér. Eg hefi látið fólk mitt vinna á tuni og er það búið nú. Sjalfur hefi ég þessa daga tekið þátt í því og hinn 27 vikaði ég baðstofu þilið.

Nú er í ráði að ytri hluti soknarinnar byggi hér hestarétt úr timbri er búin á að vera 10 vikur af sumri. I dag þann 27 kom Briem syslumaður híngað og gysti hér í nótt. Varð ekki af þíngi í Arnarnesi í gjær því Sýslumaður fór dagavillt um þíngdaginn. Nú eru komin 3 skip á Akureyri og 2 burtu aptur. Dýrtíð á mat og fl. og stríð og styrjöld er að frétta.

Nú er leiðinlegt og orðugt líf vegna veikinda k.m. og barna possunar etc.

11. maí 1859 - Björg dóttir mín 5 ára

Sunnan vindur og hláka. Eg var lengstaf um daginn að kvítta neðan lopt í svefnherbergi amtmanns sem staðið hefir tómt í vetur. Ingimundur prentari kom híngað með bréf frá madömu Vilhelmínu á Akureyri hvarí hún býðst til að verða gestgjafi með einkaleyfi, var málefnið sendt til erkleríngar sýslumanni en eg skrifaði privat BT Indriða gullsmiðs að hann nú gæti fengið þessa atvinnu ef hann sækti um hana. Jóhann hér skilaði mér 3 ám úr fóðri í bærulegu standi. Eg fekk eingann silung; dreymir nú ljóta dauma sem menn kalla: að eg sé nakin og að vaða í vatni, er nú skapþúngt jafnaðarlega útaf ástandi mínu og skuldum og bágindum, því nú er eg eldiviðarlaus að mestu, mjólkurlaus, og allt að því kornmatarlaus og allur matur nokkuð lítill hjá mér, og hefi eg því ónotalega litla fæðu. Kaffe hverki get eg né vil kaupa, og The fæst ekki, og vín hefi eg heldur ekki, en matur fæst hvergi. Uppá afmælisdag litlu Bjargar varð ekki haldið með öðru enn fáeinum klatkökum. Jón litli alltaf veikur af lífsýki og mjög fyrirhafnarsamur.

1. mars 1861

Logn og þokufullt lopt, jafnfallið föl í ökla. Eg skrifaði nokkur bréf og innfærði í KB. Sra Jakob var hér um kjurt. Briem kom hér um kvöldið og sátu þeir hann og Sra Jakob inni hjá mér um kvöldið og komustum við Briem loksins út af kláðamálsreikningnum.

K.m. er alltaf svo lasin og kveifarleg að hún getur ekkert farið fram og lítið aðhafst (:rei unha anvi-ærfi) [er hún vanfær]. Börn mín eru frísk bæði og er nú Björg litla farin að lesa rétt vel en Jón Stefán litli er vel næmur og lærir bæði vísur og vers og lög við allt sem hann fer með.

5. mars 1861

Logndrífa og skuggalegt; að áliðnum degi brast snögglega í norðvestan bil. Eg innfærði í KB. Sra Pall og Sra Gunnar vóru hjá amtmanni. Björg litla reyndi fyrst að draga til stafs í dag. Eg skoðaði hey mitt og leist vel á, en kyrnar eru magrar og mjög ónýtar í vetur, og á það ser stað víða vegna skemts fóðurs.

23. apríl 1864

Sama veður. Eg sat við bréfa skriptir. Nu eru börnin þau ýngri farin að vera úti og jörð orðin mikið auð. Allt mitt hiski heilbrigt, Börnin efnileg. Armann elskulegasta barn. Björg komin til gagns og hefir seinni hlut vetrarins verið yfirheyrð á kirkjugólfi. Jón öslar úti daglega og er frískur og duglegur. Friðbjörg er hér að flækjast með krakka sinn, sem hún vill hafa hér til vinnuhjúaskildaga.

23. júlí 1865

Hafgola og hita sólskin, ekki messað. Frakkar buðu útá skip sitt nokkrum kaupmönnum og fl. úr bænum til messugjörðar um morguninn, svo öllum almenningi út á skipið kl. 1–5. For eg, k.m., Bogga, Nonni og Ólöf þangað og skoðuðum skipið og vorum svo við dans og musik, var þar flest allt fólk úr bænum þennan tima. Um kvöldið höfðu Frakkar bal.

Kaupafólk var flutt í Staðareya. Popp lausakaupmaður kom um kvöldið. Hér var mikill gestagangur og ónæði um kvoldið.

12. ágúst 1866

Ekki messað. Eg lá heima vesæll og þreyttur. conciperaði kirkjureikning minn. Björg litla reið að Möðruvöllum, þar var fermt. Eg sendi kirkjukaleikinn nýa þangað. Amtmaður helt frökkum og Englendingum og oðrum stórum matadórum mikið gildi. Um kvoldið var rall og drykkjuskapur um allan kaupstaðinn frá enda til enda.

6. júní 1868

Norðan gola þoka í lopti. Eg sat heima þareð eg sem Talldent[?] er orðin einskonar afhrak heimsins. Eg samdi og skrifaði reikning Möðrufells spítala 1867/68 og undirbjó ferð mína að Múnkaþverá á morgun með Bjorgu dóttur minni sem þar á að ferma. Pall Magnusson kom í nótt frá Möðruv. og gat eg lítið við hann talað.

7. júní 1868

Sunnan gola hiti og blíðviðri. Eg fékk snemma hest frá Keppsa handa mér en seint og illa annan frá Kjarna handa Björgu dóttur minni fram að Munkaþverá. Riðum við svo þangað austurbakka með mörgu fólki og vorum þar við kirkju. Þar vóru fermd 17 börn og Björg litla ásamt þeim. Eptir messu riðum við að Espihóli og töfðum þar fram að háttatíma átum og drukkum, urðum svo Pali Magnussyni samferða ofan að Kjarna og svo hingað náðum við Björg heim kl.3 um nóttina og var eg nokkuð ölvaður. Jón litli sonur minn reið heim með mér frá Espihóli.

28. október 1868

Austan gola þokufullt lopt og rigndi dálítið. Nú er Hertha ferðbúin héðan, en komst þó ekki út í dag. Eg fór snemma til P. Johnsens að koma á stað bréfum hans og pökkum. Var svo heima og conciperaði fyrir Björn ritstjóra Athugagreinir við bæarreikningana 1867/68, lauk því um kvöldið. Eg fékk svo óþolandi tannpínu um nóttina að eg bar ekki af mér, og varð Björg litla að fara á fætur og heita sandbakstur við kinnina, sem bætti mér fljótt en ekkert annað.

25. nóvember 1868

Logn, frost og bjartviðri. Sömu 3 börn á skóla. Eg var svo heima og skrifaði smávegis. Björg liggur af tannpínu og hefir krotonolian brennt vel og er kinnin mjög bólgin utan, en tannpínan farin. I dag fengu menn á línu og líka á handfæri upp um ísin töluvert af vænum fiski hér á pollinum.

Nú kvað Mislingasótt vera komin upp og farin að útbreiðast um Vopnafjörð og Langanesstrandir etc og kvað amtmaðr eptir áskorun vera að gjöra ráðstöfun til að fyrirbyggja flutning þeirra vestur yfir Axarfjarðarheiði. Eg fékk BF Sra Arnljóti og “Hvad er Spiritismen„.

26. nóvember 1868

Sunnan gola frostlaus og blíðviðri. Eg hafði sömu 3 börn á skóla. Björg er afsinna og veik af crótonoliubrunanum en tannpínan bötnuð. I dag var mikill fiskur dregin bæði upp um ís á pollinum og á línu utan við ísbrúnina. Eg gekk út í bæ. P. Johnsen liggur alltaf, hann gaf mér Lás, 1 spirðuband og kjötextract. Þorgerður 2 spirðubönd. Eg keypti vaxsalve 4m.

31. desember 1868

[...] Björg átti að vera í Hringsdal um tíma, en komst alldrei þangað sökum langsamrar tannpínu. Það sem af er vetrinum hefi eg með hiski mínu við og við liðið sult, og líkindi eru til að seinni partur vetrarins þrengi að okkur. Börn mín sem heima eru, nl. Björg, Ármann og Sigríður Guðlaug eru öll efnileg í flestu tilliti. Björg er fullorðin að vexti og ekki ódugleg. Ármann er fríður og blíðlyndur og sýnist vera efni í málara ef hann gæti notið þess. Unga barnið S. Guðlaug er mjög efnilegt og friskt. Jón Stephán er á Espihóli en Friðrik í Hringsdal. Heilsa mín hefir hið liðna ár verið með bezta móti. Húslífið er mjög leiðinlegt, og þarf annaðhvort að enda eða breytast. [...]

4. janúar 1869

Sunnan frostgola og bjartviðri. Barnaskólinn byrjaði aptur hjá mér, og nú börnin 8 með Armanni. Um kvöldið sat eg við að skrifa í skrifbækur og vitnisburðabækur m.fl. Um háttatíma fékk Björg litla svo mikla tannpínu að hún hljóðaði svo eingin gat sofið um nóttina; linaði pínan loksins við sandbakstur.

5. janúar 1869

Sama veður. Nú eru ísalög og gott færi. Eg hafði 9 börn á skóla, gekk svo út til læknis að leita Björgu lækninga, hann lofaði að koma á morgun. P. Johnsen fékk mér “Dyvelsdræk„ og tóbaksblöðku til reynslu. Jón litli er hér þessa daga.

6. janúar 1869 - Þrettandi

Sunnan frostgola og bjartviðri. 9 börn á skóla. Jón litli var hér og hjálpaði mér til því orðugt var við börnin að eiga. Læknirinn kom og skoðaði Björgu, gat ei dregið jaxl úr henni fyrir bólgu. Eg sat um kvöldið við skrifbækur barna m.fl. conciperaði bréf til amtsins fyrir Pál Pálsson.

1. febrúar 1869

Norðaustan gola frostgrimd og hríðarlegt. Eg hafði 8 börn á skóla, þaraf í fyrsta sinni syni Davíðs Sigurðssonar Olaf Friðrik og Friðrik Valdemar. Um kvöldið skrifaði eg forskriptir, og undirbjó ferð mína framm að Espihóli á mörgun í útfararveizlu, ef veður leyfir. Björg er mjög vesæl þessa daga af tannpínu og gigt í höfðinu.

10. febrúar 1869 - Øskudagr

Sunnan stormur með renningi. Eg var eins lasin, hafði 11 börn á skóla, skrifaði í bækur þeirra og bjó til skrifbók handa Ármanni. Björg fór að Hringsdal sjóveg með piltum þaðan. P. Magnuss. sendi mer skrokk 16ʉ og rjómaflösku. Eg tók inn Rhabarbara um kvöldið við hægðaleysi sem eg hafði fengið af Laudanum og Morphinpillum.

20. mars 1869 - Jafndægur vorbyrj.

Logn frost og bjartviðri. 8 börn á skóla. Björg dóttir mín kom heim frá Hríngsdal og piltar þaðan með nokkuð af flutningi Olafs, sem eg tók til geymslu. Eg skrifaði BT Olafs. Leði honum “Hvað er spíritismen„. Eg gekk út í bæ keypti forskriptir 4m lakk 1m, drakk nokkra gefna snapsa, Skrifaði um kvöldið BT E. Gunnarssonar sendi honum 4rd með Jóhanni Guðmundssyni og til Jóns litla Klossa fyrir 7m. Jón Hansson frá Bangastöðum gisti hjá mér; hann kom ekki með peisu sem hann í vetur lofaði mér.

14. apríl 1869

Logn og þoka í lopti með litlu fjúki frostlausu. Skólafrí. Uppboð á allskonar rusli byrjaði hjá Steincke og var hér í bænum og á uppboðinu grúi fólks. Eg var þar um stund og keypti gangstól handa Siggu litlu fyrir 34s. Fjarskalegur drykkjuskapur og slagsmál áttu sér stað á Ytribauk. Björg dóttir mín fór gangandi út að Lóni. Halldór á Brimnesi gisti hjá mér um nóttina.

20. apríl 1869

Logn og sólskins hiti. 6 á skóla. Eg skrifaði utreikning. Eg fékk frá E. Gunnarssyni 12 al vaðmáls og 20ʉ smjörs. Jón litli er hér. Björg kom frá Lóni. hefir verið þar nokkra daga. Nú er byrjað að setja fram hákarla skip.

14. maí 1869 - Vinnuhjúa skildagi

Hafgola og sólskin, alheiðríkt, blíðviðri. Eg smíðaði um daginn 1 lausarúm úr föstu rúmstæðunum, hyrti fjós og tók til smávegis. Björg er með tannpínu, k.m. með gigt og tannpínu.

Orðskýringar

Rd: ríkisdalur

Rbd: ríkisbankadalur

M: mark

S: skildingur

1 ríkisdalur (ríkisbankadalur) = 6 mörk = 96 skildingar

BF: bréf frá

BT: bréf til

þ.m.: þessa mánaðar

k.m.: kona mín

Tractera: veita, gæða e-m á e-u

The: te

lífsýki: niðurgangur

KB: ?

Bal: ball

Concipera: afrita [?]