Fara í efni
Menning

Beina kröftunum í sérhæfðari þjónustu

Með þeirri breytingu að hætta heilsueflandi heimsóknum til aldraðra frá og með 1. ágúst, sem Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hefur tilkynnt Akureyrarbæ formlega með bréfi er stofnunin að forgangsraða verkefnum með því að beina kröftum frekar til aldraðra einstaklinga sem í auknum mæli þurfa sérhæfða heilbrigðisþjónustu, hvort heldur er á heilsugæslu eða í heimahjúkrun. Fræðsla í forvarnarskyni er þó áfram á dagskrá, en með breyttu sniði.

Þetta kemur fram í svari Guðnýjar Friðriksdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá HSN, við fyrirspurn akureyri.net í framhaldi af frétt um málið í gær. Þá segir í svari HSN að þjónusta heilsueflandi heimsókna feli fyrst og fremst í sér félagslega þætti, svo sem að stuðla að öryggiskennd, upplýsingamiðlun um félagsstarf og almenna ráðgjöf og fræðslu í nærsamfélaginu. Í bréfi HSN til sveitarfélaganna kemur fram að þau verkefni séu ekki kjarnaverkefni heilbrigðisstofnunar. Því hafi verið ákveðið að hætta með þessa þjónustu á því formi sem verið hefur.

Um 400 heimsóknir á ári, 200 afþökkuðu

Heilsueflandi heimsóknir á Akureyri voru samstarfsverkefni Heilsugæslunnar á Akureyri og Búsetudeildar Akureyrarbæjar þar til um mitt ár 2015 þegar HSN tók verkefnið yfir. Þessar heimsóknir hafa verið í boði fyrir 80 ára og eldri sem ekki hafa þjónustu heimahjúkrunar eða félagsþjónustu. 

Samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslu HSN fyrir árið 2024 hafa heilsueflandi heimsóknir verið um og yfir 400 á ári undanfarin ár á þremur starfsstöðvum stofnunarinnar, á Akureyri, Húsavík og Sauðárkróki. Af 420 heimsóknum í fyrra var 371 á Akureyri. Rúmlega 200 manns afþökkuðu heimsóknirnar á árinu 2024.

Heilsueflandi heimsóknir til aldraðra hafa verið hluti af verkefnum sem heilsueflandi móttökur HSN hafa sinnt. Dökkbláu súlurnar sýna fjölda heimsókna á ári undanfarin þrjú ár. Skjáskot úr ársskýrslu HSN 2024.

HSN er með breyttu fyrirkomulagi að forgangsraða sínum verkefnum með því að beina kröftum sínum enn frekar til aldraðra einstaklinga sem í auknum mæli þurfa sérhæfða heilbrigðisþjónustu hvort sem er á heilsugæslu eða í heimahjúkrun.

Ákvörðunin byggir á endurskoðun á verkefnum HSN og aukinni þörf fyrir sérhæfðari þjónustu fyrir aldraða. Við erum að breyta okkar áherslum og ætlum að beina sjónum í meira mæli að þeim hópi aldraðra sem búa við heilsuleysi og langvinna sjúkdóma. Við munum að sjálfsögðu halda áfram með fræðslu í forvarnarskyni til aldraðra en með breyttu sniði.

Þjónusta heilsueflandi heimsókna felur fyrst og fremst í sér félagslega þætti s.s. að stuðla að öryggiskennd, upplýsingamiðlun um félagsstarf og almenna ráðgjöf og fræðslu í nærsamfélaginu og því höfum við ákveðið að hætta með þessa þjónustu í því formi sem verið hefur. Við höfum alltaf unnið vel með Akureyrarbæ og erum ávallt tilbúin til samráð.

Með þessu bréfi tilkynnum við að Heilbrigðisstofnun Norðurlands hefur tekið þá ákvörðun að leggja af heilsueflandi heimsóknir aldraðra á Akureyri. Breytt fyrirkomulag tekur gildi 1. ágúst 2025.

Þessi ákvörðun byggist á endurskoðun á verkefnasviði HSN í samræmi við fjármögnunarlíkan heilsugæslunnar. Þjónusta heilsueflandi heimsókna felur fyrst og fremst í sér félagslega þætti eins og öryggisveitingu, upplýsingamiðlun um félagsstarf og almennar ráðgjöf, sem eru ekki kjarnaverkefni heilbrigðisstofnunar. HSN hyggst efla fræðslu sem snýr að heilbrigðistengdum málum til aldraðra gegnum heilsugæslu og félagstarf.

HSN vinnur að því að beina kröftum sínum enn frekar til aldraðra einstaklinga sem í auknum mæli þurfa sérhæfða heilbrigðisþjónustu hvort sem er á heilsugæslu eða í heimahjúkrun.

Hafi Akureyrarbær áhuga á að taka upp þjónustu heilsueflandi heimsókna til aldraðra þá erum við ávallt reiðubúin til að veita ráðgjöf og upplýsingar um verkefnið.“

Fram kom í frétt akureyri.net í gær að velferðarráð Akureyrarbæjar skorar á framkvæmdastjórn HSN að endurskoða ákvörðunina. Málinu var vísað áfram til umfjöllunar í öldungaráði Akureyrar.